10.04.1923
Neðri deild: 38. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (676)

1. mál, fjárlög 1924

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg heyrði því miður ekki alla ræðu háttv. þm. N.-Ísf. (SSt), en mjer skildist, að hann hafi heldur andmælt tillögunni um styrk til sjúkrahúss á Ísafirði. Það mun rjett, að sýslunefnd Norður-Ísafjarðarsýslu hefir álitið, þegar hún samþykti að leggja fje til byggingar þessa mjög þarfa fyrirtækis, að ekki gæti komið bráðlega til framkvæmda. Fjárhagur sýslunnar er að vísu ekki góður, en það er ekki hægt að telja hann erfiðan, því að þótt sjóður sje lítill, þá eru skuldirnar líka litlar. En okkur er báðum kunnugt, að Ísafjarðarkaupstaður á erfitt; þar veltur alt á sjónum, og ef hann bregst, hnekkir það öllum framkvæmdum, en fiskist vel, er hann fljótur til viðreisnar. Jeg get ekki verið sammála háttv. þm. (SSt) um, að þörfin fyrir sjúkrahúsið sje ekki brýn. Jeg álít, að það megi ekki dragast lengur, þar sem altaf eru fleiri eða færri sjúklingar, sem koma verður fyrir úti í bæ, af því ekki er til húsrúm fyrir þá í sjúkrahúsinu, þó nú sjeu þar höfð 16 sjúkrarúm, en húsið bygt fyrir 8–10. Háttv. þm. (SSt) mælti ekki á móti fjárveitingunni, að því er mjer skildist, því að verði hún ekki notuð, þá er engu spilt, og auðvitað verður hún ekki notuð, nema sýslusjóður og bæjarsjóður sjái sjer fært að ráðast í fyrirtækið.

Jeg ætlaði að minnast nokkru nánar á loftskeytasambandið við Grímsey, en jeg læt mjer nægja að brýna það fyrir mönnum, ef þeir hugsa til, að sjávarútvegurinn hljóti gagn af því loftskeytasambandi, þá sjé sjálfsagt að hafa stöðina í landi á Siglufirði.