10.04.1923
Neðri deild: 38. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

1. mál, fjárlög 1924

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Það mun sjálfsagt hlýða að byrja á því að þakka háttv. deildarmönnum fyrir úrslit þess kafla fjárlaganna, sem nú er búinn. En nú kemur að þeim kaflanum, sem erfiðara á uppdráttar jafnan, ef um hækkanir er að ræða. Nú vill svo til, að ekki eru, miklar hækkanir frá nefndinni. Við 14. gr. nema þær 50 þús. kr. og við 15. gr. 20 þús. kr., og hafa oft sjest meiri hækkanir. Vona jeg því, að háttv. deild taki þeim vel.

Vera má, að jeg taki upp eitthvað af því, sem sagt er í nefndarálitinu, því mjer fanst það koma fram við atkvgr. hjer á undan, að ýmsir hefðu ekki lesið það eða glöggvað sig á því.

Fyrsta brtt. við 14. gr. er um styrkupphæð til stúdenta, er stunda nám við erlenda háskóla. Í athugasemdinni stendur, að styrkurinn skuli aðeins veittur fyrstu 4 árin í röð, og kemur hann í staðinn fyrir gamla Garðsstyrkinn. Nú hefir það sýnt sig, að ekki er síður þörf að styrkja stúdenta eftir 4 ára nám heldur en á þessu tímabili, eins og átti sjer stað áður. Nefndin vildi því breyta til um þetta, hætta að einskorða styrkinn við 4 ár, en halda lengra áfram.

Næsta brtt., um að hjeraðslæknirinn í Reykjavík fái 1500 kr. fyrir kenslu í háskólanum, er ekki nýr liður í fjárlögunum; hann hefir staðið þar áður, en fallið úr nú fyrir gleymsku. Hjeraðslæknirinn hefir verið ráðinn til að kenna helstu grein læknisfræðinnar í háskólanum, enda hefir stjórnin greitt honum þóknunina eftir sem áður. Er því rjett, að upphæðin standi í fjárlögunum, og hefir nefndin tekið hana upp eftir ósk stjórnarinnar.

Þá kemur liður, sem er algerlega nýr, að veitt verði fje til ferðastyrks stúdenta, sem fara til annara landa í stúdentaskiftum við erlenda stúdenta. Eins og menn hafa sjeð, eru hafin skifti milli íslenskra stúdenta og erlendra háskólastúdenta. Íslensku stúdentarnir hafa fengið góð kjör til dvalar erlendis, en sjálfir orðið að kosta ferðir sínar. Þessi skifti hafa átt sjer stað við Þýskaland og Noreg; en nú er geit ráð fyrir að fjölga löndum, sem farið sje til, og bæta við Englandi, Frakklandi og jafnvel Ameríku. Eins og öllum mun kunnugt, eru íslensku stúdentarnir fátækir og hafa litlu úr að spila, og veitir þeim þetta örðugt, svo að þeir geta ekki notið þessara menningarmeðala, ef þeir fá ekki ferðakostnaðarstyrk. Nefndin telur þetta gott mál, er verði stúdentunum til menningar og einnig til góðrar kynningar á Íslandi erlendis. Hún vill ekki láta íslensku stúdentana verða af þessu, heldur stuðla til, að þeir komist á milli landa; þó hefir hún ekki sjeð sjer annað fært en að helminga upphæðina, sem stúdentaráðið fór fram á.

Þá kemur nýr liður, um 500 kr. fjárveitingu til umbúðakaupa og annara nauðsynja við ókeypis lækningar. Þessi liður er alveg sjálfsagður, og verður þetta tekið upp á næstu árum, þó að það hafi ekki átt sjer stað um tíma.

Þá vill nefndin hækka liði óvissra útgjalda til skólans á Hvanneyri. Skólastjórinn og húsagerðarmeistari ríkisins telja, að eftir sje að gera við húsið; eins og allir háttv. deildarmenn vita, þarf að mála nýja húsið, áður en það skemmist, og ýms önnur hús, sem ekki hafa verið máluð síðan 1911. Það er margfaldur kostnaður fyrir ríkið, ef eignir þess skemmast fyrir vanrækslu sakir, og er þetta því búhnykkur, sem jeg vænti, að hv. þm. sjái og samþykki.

Sama er að segja um næsta lið, ýms gjöld á Hólum; þar eru ýms hús af sjer gengin, þök öll að skemmast og farin að ryðga. Gera þarf við þau, til þess að koma í veg fyrir frekari skemdir á hús- unum, er valda óþarfa kostnaði fyrir ríkissjóð.

Nú sje jeg, að hæstv. atvinnumálaráðherra (KIJ) hefir komið með brtt., sem nefndin mun geta fallist á, þó að með henni sje farið fram á hækkun á fjárveitingu nefndarinnar, ekki síst þar sem fje mun hafa verið sparað til þessa á undanförnu ári.

Þá hefir nefndin ekki getað orðið hæstv. stjórn sammála um að færa niður þóknun til forstöðumanns yfirsetukvennaskólans. Þessi þóknun nam lengi 1000 krónum, og var ekki hækkuð fyr en löngu eftir að laun annara starfsmanna ríkisins höfðu verið hækkuð. Er því full ástæða til að hlaupa ekki strax í að lækka hana aftur. enda mun hún síst of há 1500 kr.

Þá er tillaga frá nefndinni um að hækka styrk til farskóla í sveitum úr 9000 kr. upp í 10000 kt. Nefndin telur þetta fyrirkomulag heppilegt, eftir því sem um er að gera, og gerir ráð fyrir, að farskólar muni heldur aukast, og vill því láta þá farskóla, er við bætast, einnig verða styrks aðnjótandi, og fyrir því hefir hún, hækkað styrkinn lítið eitt.

Forstöðumaður kennaraskólans og háttv. mentamálanefnd hafa mælt með því, að tekinn yrði upp aftur styrkur til námskeiðs eða framhaldskenslu handa kennurum, en sá styrkur var feldur niður á síðasta ári. Þessi námskeið hafa staðið um 12 ár og komið að góðu haldi. Eftir því sem skólastjórinn skýrir frá, hafa um 25 kennarar sótt námskeið þetta á ári hverju að jafnaði, og hafa margir þeirra verið menn, er ekki hafa notið kennaraskólamentunar. En þar sem flestir kennarar hafa notið slíkrar mentunar, má búast við því, að fækki á námskeiðunum, og hefir því nefndin ekki lagt til, að allur styrkurinn, sem farið var fram á, verði veittur, en leggur til, að 1000 krónur verði veittar í þessu skyni.

Eins og kunnugt er frá orustum síðasta þings, hefir fjvn. ætíð verið hlynt unglingaskólafyrirkomulagi. Vill hún enn sýna þann vilja sinn með því að hækka styrk til þeirra um 5000 kr. Nefndin býst við, að þeim skólum fjölgi, og að eins beri að styrkja þá, er við kunna að bætast. Henni er og kunnugt um, að skólar þeir, er undanfarið hafa verið styrktir, muni halda áfram næsta ár, og eftir öllum upplýsingum, munu þeir skólar vera fullkomlega maklegir þess styrks, er þeir hafa notið úr ríkissjóði.

Þá er jeg kominn að stærstu brtt. nefndarinnar við þennan lið, en það er, að styrkur verði veittur til að reisa alþýðuskóla í Þingeyjarsýslu, alt að 35000 kr. Er þetta nýmæli, því enn hefir ekki verið veittur styrkur svo nokkru nemi til slíkra framkvæmda úr ríkissjóði. Hefir verið sívakandi áhugi um mörg undanfarin ár hjá Þingeyingum að koma slíkum skóla á fót, og hafa ungmennafjelögin þar nú tekið þessa hugsjón að sjer. Hefir verið leitað samskota í tilefni af þessu, og hefir þegar áskotnast um 22 þús. kr. bæði í peningum og föstum loforðum. Ráð er gert fyrir því, að skólinn verði hafður í sveit; hefir staðurinn þegar verið ákveðinn, mun eiga að vera Grenjaðarstaður. Er gert ráð fyrir því einnig, að bú verði rekið í sambandi við skólann, að minsta kosti að einhverju leyti, og á skólinn að vera sjálfseignarskóli. líkt og tíðkast með skóla í Danmörku og víðar. Fleira hefir þegar verið ákveðið um fyrirkomulag skólans í smærri atriðum, og mun reynslan sýna, hve heppilegt það er. Nokkurskonar tilraunaskóli hefir verið haldinn undanfarna vetur á Breiðamýri, en hann getur nú ekki starfað lengur, sökum húsnæðisskorts. Þá má og telja það meðmæli, að væntanlegur skólastjóri er fyrirhugaður Arnór Sigurjónsson, sem Alþingi er áður að góðu kunnur.

Nefndin taldi rjett, að ríkið styrkti slíka stofnun, þar sem unglingar eftir 15 ára aldur geta aflað sjer fræðslu.

Nú er ekki gott að segja, hvaða stefnu hið háa Alþingi ætlar að taka upp með styrkveitingar til slíkra skóla. Fjárveitinganefnd leggur til, að ríkið greiði 55 kostnaðar við það að koma slíkum skólum á fót, og gerir ráð fyrir því, að um leið og þingið samþykkir þennan styrk. samþykki það einnig þetta fyrirkomulag í framtíðinni eða leggi grundvöllinn undir það.

Sumum háttv. þm. kann nú ef til vill að virðast þetta há upphæð, sem nefndin leggur til, þar sem ekki er gert ráð fyrir, að skólinn kosti meira en 70000 krónur. En þar við er þess að gæta, að þetta er ekki nein föst áætlun, heldur aðeins ágiskun, og má búast við því, að kostnaður verði allmiklu meiri. En þó að svo færi, að kostnaðurinn færi ekki fram úr þessum ágiskuðu 70 þús. kr., þá er ákvæðið um, að greiða skuli aðeins 2/5 kostnaðarins. slagbrandur fyrir því, að hærra verði greitt en sem því svarar.

Þá vill nefndin hækka lítið eitt styrk til lýðskólans í Bergstaðastræti 3. Er mjer persónulega kunnugt um, að sá skóli er alls góðs maklegur, og hefir hann verið mjög vel sóttur undanfarið. Hafa nemendur verið 50 til 60 á vetri, og er því ekki mikið, sem kemur á hvern nemanda af styrknum.

Nefndin leggur til, að styrkur til sundkenslu o. fl. verði hækkaður úr 2000 kr. upp í 3000 kr. Veit jeg ekki, hvort þessi styrkur átti að vera áætlunarupphæð, en hvort sem svo hefir verið eða ekki, þá álít jeg rjett, að styrkurinn verði hækkaður um þetta, því áhugi fyrir sundkenslu fer sívaxandi og víða hefir verið lagt mikið í kostnað með byggingu sundlauga, sem rjett er að ríkið styrki að nokkru.

Um mörg undanfarin ár hefir Alþingi veitt styrk til þess, að haldið væri uppi ókeypis leikfimiskenslu fyrir utanbæjarstúlkur hjer í Reykjavík. Þessi kensla hefir verið vel sótt og margar stúlkur tekið þátt í þessu. Hafa verið venjulega 4 kenslustundir á viku. Að hægt var að hafa þessa kenslu alveg ókeypis, þótt styrkurinn væri ekki hár, einar 600 krónur, kemur til af því, að kennarinn, sem jafnframt er kennari í leikfimi við barnaskólann hjer, gat fengið þar ódýrt húsnæði og áhöld. Nú hefir leikfimiskennari Valdemar Sveinbjörnsson, sem þinginu er áður að góðu kunnur, mælst til, að styrkur verði einnig veittur til þess á sama hátt að halda uppi ókeypis kenslu fyrir utanbæjarpilta, og láta þá þannig njóta jafnrjettis við kvenfólkið. Hefir nefndin fallist á þetta og leggur til, að veittar sjeu til þess 600 krónur.

Þá er jeg kominn fram úr brtt. fjvn. við 14. gr. Við 15. gr. er fyrst ný styrkveiting, 1000 kr., sem nefndin leggur til, að verði veitt til samningar spjaldskrár. Er það eftir ósk landsbókavarðar, sem kvartaði yfir því, að þessi fjárveiting hefði niður fallið, en telur mikla þörf á að halda áfram samningu spjaldskrár, ef safnið á að geta komið að fullum notum. Nefndin sá sjer þó ekki fært að leggja til, að eins mikið verði veitt og farið var fram á, en ætlar, að þessi upphæð geti komið að notum, ef hægt varni að fá góðan mann til að vinna áð þessu í hjáverkum.

Jeg býst ekki við, að jeg þurfi að mæla frekar með hækkun á þóknun til kvenna þeirra, er aðstoða eiga þjóðmenjavörð við þjóðmenjasafnið. Þessi þóknun hefir verið svo lítil, að merkilegt er, að þingið skuli ekki hafa hækkað hana fyrir löngu síðan. Það hafa verið 4 konur, sem unnu að þessu og skifta þessum 1200 krónum á milli sín. Þjóðmenjavörður lagði til, að veittur yrði talsvert hærri styrkur en nefndin fer fram á, en þetta ætti þó að vera bragarbót, að hann hækki um þriðjung.

Þá vill nefndin hækka fjárveitingu til kaupa á listaverkum um 1000 krónur. Telur hún rjettustu leiðina til þess að styrkja listamenn að kaupa verk þeirra, og er því fje þá ekki á glæ kastað, eins og oft vill við brenna, þegar styrktir eru menn, sem ekkert heyrist eða sjest svo síðar til.

Alþingissögunefndin hefir sent Alþingi erindi, þar sem farið er fram á, að haldið sje áfram lagfæringu á Þingvöllum. Segir hún, að ekki veiti af tímanum til að fara að sjá fyrir ýmsum lagfæringum, ef það á að vera komið í lag 1930, því sumt er þannig lagað, að talsvert langan tíma þarf til þess, að það komist í það útlit, sem það á að vera í 1930. Er því ekki seinna vænna að fara nú að veita fje til þess, enda er það heppilegra að byrja strax, svo að minna komi á hvert ár. Er öllum háttv. þm. kunnugt um þessar fyrirætlanir, og því óþarfi að fara nánar út í það.

Þá er og óþarfi að fara fleiri orðum um tillögu nefndarinnar um styrkveitingu til viðgerða á Hólakirkju. Er það ríkinu mikil vanvirða, ef þessi merki forngripur á að eyðileggjast fyrir vanhirðingu og skort á viðhaldi. Samkvæmt því, er skólastjórinn á Hólum skrifar og mörgum háttv. þdm. mun kunnugt, verður nú þegar að hefjast handa um viðgerðir á henni, ef að gagni á að koma.

Náttúrufræðifjelagið fer fram á hækkun styrksins, sem veittur er til þess, úr 1500 kr. upp í 2000. Vill nefndin sýna lit á þessu og hækka styrkinn um 200 kr.

65. brtt. er borin fram eftir ósk Bók mentafjelagsins. Telur nefndin það ekki koma að sök, þótt þessi athugasemd falli niður.

Þá leggur fjvn. til, að styrkurinn til Dansk-islandsk Samfund falli niður. Er hún í því efni sama sinnis og á síðasta þingi, og munu hv. þdm. muna eftir umr. um það mál frá því þingi. Nefndin gerir þetta þó ekki í sparnaðartilgangi, því að hún leggur til, að þessi styrkur renni til annars fjelags, Norræna fjelagsins, í þess stað. Hefir það fjelag víðtækari verkahring, og geta háttv. þingdm. lesið um aðaltilgang þess fjelags í nál. Þetta fjelag fór fram á hærri styrk, en nefndin sá sjer eigi fært að ætla því meira en 1000 kr., en er fjelaginu velviljað og mælir fastlega með því, að fjelaginu verði veittur þessi styrkur.

Nefndin leggur til, að styrkirnir til dr. Helga Jónssonar og Guðmundar Bárðarsonar kennara verði hækkaðir lítið eitt. Sumum kann máske að þykja einkennilegt, að Bjarni Sæmundsson, sem samskonar styrks hefir notið undanfarið, skuli ekki vera látinn fylgjast með hinum við styrkhækkunina. En því veldur, að hann hefir nú sent til Alþingis beiðni um lausn frá kenslustörfum og að hann verði eingöngu styrktur til rannsóknastarfsemi; því vill nefndin ekki gera neinar tillögur nú viðvíkjandi honum, fyr en sjeð verður, hvernig máli hans verður tekið hjer í þinginu.

Nefndin hefir ekki enn getað fundið skýringu á því, að það mikla fje, sem veðurathugunarstofunni er ætlað, þurfi að haldast óbreytt. Finst oss, að kostnaður við þessa stofnun ætti að geta minkað að nokkru, líkt og með aðrar stofnanir, t. d. hagstofuna, enda hefir ekkert komið fram, sem bendi til, að neinn nýr kostnaður komi til við veðurathuganirnar.

Um tvo næstu liðina, styrk til Páls Ísólfssonar og fjárveitingu til að kaupa grasasafn Stefáns heitins Stefánssonar skólameistara, nægir að vísa til nál. Páll er öllum að svo góðu kunnur, að háttv. þm. munu ekki hika við að greiða atkv. sitt með þessari fjárhæð, sem nefndin leggur til, að honum verði veitt. Um grasasafnið skal jeg geta þess, að ágreiningur var innan nefndarinnar fyrst, hvort safnið skyldi borgast á einu eða tveimur árum, en úr því að ekki var um hærri upphæð að ræða, varð niðurstaðan sú, að leggja til, að alt yrði greitt í einu.

Jeg vænti, að þessar skýringar, sem jeg nú hefi gert, nægi í svipinn. Um brtt. einstakra háttv. þm. ætla jeg ekki að tala, fyr en þeir hafa gert grein fyrir þeim.