11.04.1923
Neðri deild: 39. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í B-deild Alþingistíðinda. (685)

1. mál, fjárlög 1924

Hákon Kristófersson:

Það var út af ummælum hæstv. forsrh. (SE) um hjeraðslækninn í Reykjavík, sem jeg vildi segja nokkur orð. Jeg býst við, að þessari kenslu hans sje þannig varið, að vont væri að missa hana. En hitt er annað mál, hvort rjett sje að borga hana sjerstaklega. Jeg býst við, að það hafi verið skilið svo, er til þessarar kenslu var stofnað og skifting varð á embættinu, að þessi upphæð fjelli niður. Jeg hefi að vísu ekki aflað mjer neinna skjallegra upplýsinga um málið, en mjer er þó kunnugt um það, að þetta var hugsun margra háttv. þm. Hvernig þessu sje háttað, þori jeg ekki að segja neitt um. En þó er mjer nær að halda, að það hafi verið þarflegra af stjórninni að láta þetta verða. Háttv. forsrh. (SE) mælti fast með upphæðinni, og færði hann það fram sem rök til stuðnings sínu máli, að ekki væri hægt að skylda núverandi hjeraðslækni til að hafa þetta starf á hendi, nema honum sje borgað sjerstaklega fyrir það. Það er þessi venjulegi skilningur hæstv. forsætisráðherra, að ekki beri að ætlast til, að embættismenn þjóðarinnar geri nokkuð í þarfir ríkisins, hversu vel sem þeir eru launaðir, án þess að fá aukaþóknun fyrir, Jeg tel það illa farið að þannig skuli vera litið á þetta. Jeg tel þá sem hjú þjóðfjelagsins, sem ætlast megi til, að vinni í þágu þess, eftir því sem kraftar leyfa, miðað við laun þau, sem þeir þiggja af opinberu fje.

Þá fór hæstv. forsrh. (SE) nokkrum orðum um launahækkun þá, upp í 1500 krónur, sem ætluð væri forstjóra yfirsetukvennaskólans. Jeg er í rauninni ekkert á móti því. Jeg vil þó taka það fram, í sambandi við það, sem minst hefir verið á skrifstofukostnað landlæknis, að jeg skil svo, sem þetta gjald skuli einmitt ganga upp í hann. Því þessu fylgir sáralítill aukakostnaður, og væri í rauninni ekki mikið, þótt sú kvöð hvíldi á þessum embættismanni, að vera forstöðumaður þess í skóla fyrir ekki neitt.

Hvað snertir þá upphæð, sem ætluð er til viðgerðar bændaskólanum á Hvanneyri., vil jeg taka það fram, að þetta má vel vera nauðsynlegt, en jeg tel þetta tilfinnanlegan kostnað, sem ríkið hefir nú orðið að standa í vegna þessa skóla upp á síðkastið. Maður skyldi þó hafa haldið, þegar skólahúsið var reist síðast, að bráðlega þyrfti ekki þar við að bæta. En það er nú komið sem komið er, og býst jeg við, að eins og nú standa sakir sje þessi kostnaður nauðsynlegur. En jeg get þó ekki stilt mig um að segja það, að það er leiðinlegt, eftir að búið er að kosta svo miklu til þessa skóla, að heyra um hann annan eins vitnisburð og einn af bestu bændunum í Húnavatnssýslu gaf honum nýlega. Hann kvaðst hafa haft fyrir skömmu 3 menn frá þessum skóla, og hefði enginn þeirra verið svo vel að sjer, að hann hefði kunnað að rista ofan af. Slíkt geta þó varla heitið alllærðir menn í búnaði. Jeg skal þó, til að girða fyrir misskilning, geta þess, að þessi mikli kostnaður við húsið var ekki að kenna núverandi skólastjóra, heldur þeim manni, sem fyrir verkinu stóð. (BH: En dýrtíðin; gerði hún ekkert að verkum?). Það hefði samt sem áður mátt gera þetta fyrir miklu minna verð. Það myndi enginn prívatmaður hafa sjeð sjer fært að ráða menn til vinnunnar frá Reykjavík með þeim kjörum. hefði hann verið að reisa hús fyrir sjálfs sín fje.

Það sje fjarri mjer að fara nú að álasa háttv. fjvn. Jeg get þvert á móti tekið undir það með öðrum háttv. þm., að hún hefir átt mjög vandasömum verkum að gegna. Og lengi má finna sjer eitthvað til að setja út á slík störf, sem hún hefir haft með höndum. Á einu verð jeg þó að furða mig, að háttv. fjvn. skuli treysta sjer til að leggja til, að veittar verði úr ríkissjóði 35 þús. krónur til unglingaskóla í Þingeyjarsýslu. Að vísu hefir hún borið það fyrir, að þetta sje aðeins hlutar kostnaðarins. En jeg fæ ekki skilið, á hvern hátt hún fær styrkt hann svo, þegar sú upphæð, sem lögð er á móti, nemur aðeins helmingi. Það væri að vísu ekkert á móti þessu, ef hægt væri að gera það sama í hinum öðrum hjeruðum landsins. En nú stendur svo á, að maður verður að vera á móti mörgum fjárveitingum, sem full þörf væri annars á, sökum fjárkreppunnar. Finst mjer og, að sýslubúum hafi verið þetta ljóst, að fara verði nokkuð eftir ástæðum ríkissjóðsins. Ber fundargerð þingmálafundarins, sem haldinn var á Húsavík 31. janúar 1923. best vitni um þetta. Skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mjer að lesa upp lítinn kafla úr henni. Hann hljóðar svo:

„Fundurinn er því meðmæltur, að Alþingi veiti, þegar fjárhagur ríkisins batnar, styrk til alþýðuskóla í Þingeyjarsýslu. Fundurinn telur ekki fært, sökum fjárkreppu og dýrtíðar, að komandi Alþingi leggi fram fje úr ríkissjóði til styrktar nýjum skólum eða nýjum skólabyggingum, og væntir þess, að styrkur úr ríkissjóði, meðan verið er að koma fjárhagnum í rjett horf, sje einungis veittur til eflingar framleiðslunni til lands og sjávar og til líknarstofnana.“

Það liggur í augum uppi, að þegar menn úr Þingeyjarsýslu mæla á móti þessu máli og vilja ekki, að fje sje lagt til þess, þá munu þeir finna til erfiðleikanna og að fjárhagurinn sje ekki sem bestur heima fyrir heldur. Jeg býst við, að þeir, sem samþykkja svona ályktun, finni, að ríkið getur ekki snúið sjer að öðru en að styrkja framleiðsluna til lands og sjávar. Háttv. frsm. (MP) sagði, að nokkur hluti af fjárframlögum innanhjeraðs væri í loforðum, sem máske væri erfitt að ná inn. Það sje fjarri mjer að vilja láta svo skiljast, að jeg sje á móti skólastyrknum, en jeg álít, að sýslan sje vel stödd menningarlega og að henni sje þetta mál máske ofvaxið efnalega. Jeg frábið mjer það, að menn álíti, að jeg sje að ráðast á þessa fjárveitingu; en jeg vildi benda á, að undarlegt er, að fjvn. skuli hafa leyft sjer að leggja þetta til, þar sem það fer í bága við þá stefnu nefndarinnar að styðja aðeins framleiðsluna og verklegar framkvæmdir, en draga sem mest úr öðrum útgjöldum. Það hlýtur því að stafa af einhverjum sjerstökum ástæðum, að nefndin fer svona langt í þessu atriði.

* Ræðumaður (HK) hefir ekki yfirlesið handrit skrifaranna að þessari ræðu.