11.04.1923
Neðri deild: 39. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

1. mál, fjárlög 1924

Magnús Jónsson:

Jeg vil ekki þreyta háttv. deild með nokkrum skraddaraþönkum um fjárhaginn, en vildi leyfa mjer að minnast örfáum orðum á þrjár brtt. hv. fjvn. við fjárlögin.

Það er þá fyrst 65. brtt., um textaútgáfu Fornbrjefasafnsins, þar sem nefndin leggur til, að athugasemdin við liðinn falli burt. Jeg skal geta þess, að jeg var á mínum tíma þess fýsandi, að athugasemdin fjelli niður eða henni yrði breytt, en þess er að gæta, að þá var hún öðruvísi orðuð; registrið átti þá að koma jafnóðum. Vjer höfum nú mann, sem, ágætlega er til þess hæfur að sjá um þessa vandasömu útgáfu, og verður að kallast hart að tefja hann frá henni með því að vinna að registursstörfum, en hins vegar vil jeg ómögulega, að safnið verði registurslaust. Eins og athugasemdin er nú, þá sje jeg ekkert á móti því, að hún haldist, og býst því við að greiða atkvæði móti brtt. og vil halda fast við það, að registur komi.

Þá kem jeg að 56. brtt. nefndarinnar, um 35 þús. kr. fjárstyrk til alþýðuskólahússbyggingar í Þingeyjarsýslu. Jeg vil strax taka það fram, að jeg verð eindregið fylgjandi þessari fjárveitingu. En þegar fjvn. gerir ráð fyrir, að þingið með þessu gangi inn á þá braut að styrkja slíkar skólabyggingar eftirleiðis að 2/5, og byggingarkostnaðurinn við þennan skóla er áætlaður 70 þús. kr., þá kemur mjer kynlega fyrir sjónir, að hún skuli leggja til, að 35 þús. kr. skuli veittar til þessa skóla nú. Það ætti að rjettu lagi að vera ca. 28 þús. kr., og þeirri fjárveitingu mun jeg verða hlyntur. Þess er að gæta, að við áætlanir um kostnað við fyrirtæki sem þessi eru menn vanir að taka munninn nokkuð fullan, og þó fjvn. orði tillöguna svo, að veitt skuli verða alt að 35 þús., þá er samt með þessu gefið undir fótinn með að byggja dýrara en ella.

Þá hefir háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ) tekið af mjer ómakið að mæla með styrkveitingunni til Dansk-islandsk Samfund, og þó jeg beri raunar ekki þann fjelagsskap neitt sjerstaklega fyrir brjósti, finst mjer samt harla óviðeigandi að fella niður styrkinn til þess, þar sem það er eitt af fáum starfsömum og áhugasömum fjelögum vor á meðal. Og í stjórn þess eru að minsta kosti sumir ágætustu vinir Íslands, svo sem Aage M. Benedietsen og sjera Arne Möller, menn, sem hafa gert landi voru og þjóð mesta gagn og greiða. Sömuleiðis get jeg vel felt mig við það, að Norræna fjelagið fái líka styrk, því þó það sje ungt enn þá og hafi lítið sýnt sig, er engin ástæða til annars en vænta hins besta af því í framtíðinni, því góðir menn standa að því, sumir hverjir.

Þá vildi jeg að lokum leggja liðsyrði einni brtt. minni hl. nefndarinnar, þar sem lagt er til, að styrkur verði veittur til hljóðfæraskólans í Reykjavík. Háttv. flm. brtt. (BJ) hefir þegar lýst starfi þessa skóla og nauðsyn hans fyrir háttv. deild, og hygg jeg þá skýrslu hans rjetta í alla staði, enda tvímælalaust, að þessi skóli ætti að geta komið að góðu liði og bætt mikið úr þeirri vöntun, sem verið hefir á góðri kenslu í meðferð ýmsra hljóðfæra. Hefi jeg átt tal um þetta við forstöðumann skólans, hr. O. Böttcher, og var það hans álit, að okkar þjóð ætti síst að þurfa að standa að baki öðrum þjóðum á þessu sviði, ef henni gæfist kostur á góðri söngmentun. Og framfarirnar hafa verið alveg ótrúlega miklar á stuttum tíma. Jeg vil því vona, að hv. deild telji það sóma sinn að greiða fyrir þessum litla en fallega vísi til hljómlistarskóla hjer á landi.

Þá vil jeg spyrjast fyrir um það hjá hv. fjvn., hvort hún hafi athugað skrifstofukostnað biskups í sambandi við brtt. um að hækka skrifstofufje landlæknis. Þetta eru sambærileg embætti, og ættu því að fylgjast að hvað það snertir. Annars býst jeg við, að það sje af vangá hjá nefndinni, að hún leggur ekki til, að fjárveitingin til skrifstofuhalds biskups skuli hækka jafnt skrifstofukostnaði landlæknis, og má þá gera ráð fyrir, að hún lagi þann ágalla sjálf. Að öðrum kosti mun jeg koma með brtt. til 3. umr.