11.04.1923
Neðri deild: 39. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

1. mál, fjárlög 1924

Björn Hallsson:

Jeg vil aðeins koma með stutta athugasemd, til að leiðrjetta þann misskilning hjá hv. þm. S.-Þ. (IngB), að jeg væri mótfallinn skólastofnuninni í Þingeyjarsýslu sökum þess, að jeg hjeldi, að sá skóli mundi kasta rýrð á Eiðaskólann. Það hefir aldrei verið mín skoðun, enda hefi jeg áður skýrt frá ástæðum mínum fyrir því, að jeg get ekki greitt þessari till. atkvæði. Það er ekki af neinu öðru en því, að jeg fylgi ekki till., að mjer finst kostnaðurinn mikill og spursmál, hvort okkur og Þingeyingum dygði ekki Eiðaskólinn og svo gagnfræðaskólinn á Akureyri. Það er stór baggi fyrir sýslufjelag Þingeyinga að leggja fram til þessa skóla 50–60 þús. kr., og er athugavert, ef skólarnir verða settir of þjett. Mjer finst því rjett, að þetta sje athugað áður en lengra er gengið. Nefndin mælir með 35 þús. kr. styrk til skólans, miðað við 2/5 kostnaðar. Þá ætti skólinn að kosta eftir því alls um 90 þús. kr. En þó Eiðaskóli enn sem komið er geti ekki fullnægt þörfinni, þá er þess að gæta, að hann er enn þá ekki kominn í það lag, sem honum er ætlað. Hann tekur núna aðeins 40 nemendur, en hefir rúm fyrir 100, þegar búið er að reisa nýtt hús handa honum. Því var það, að mjer fanst heppilegt að reyna að sameinast um skólann. Mjer hefir líka skilist svo, að Þingeyingar sjálfir væru ekki nærri sammála um skólann, og er því síður tímabært að hugsa um hann nú, ein og alt er erfitt viðfangs á viðskiftasviðinu. Fleira hefi jeg ekki að segja í þessu máli að sinni; en jeg vildi taka þetta fram, til að fyrirbyggja frekari misskilning á afstöðu minni til skólans.