11.04.1923
Neðri deild: 39. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (697)

1. mál, fjárlög 1924

Jón Þorláksson:

Það voru aðeins örfá orð út af 48. brtt. háttv. fjvn., á þskj. 254, um 1500 kr. til hjeraðslæknisins í Reykjavík fyrir kenslu við háskólaun. Síðast þegar rætt var um læknaskipunina í Reykjavík, þá kom þetta til tals, að láta annanhvorn föstu læknanna hafa kensluna á hendi sem hluta af embættinu. Jeg var á móti því þá, og mjer kom það eigi til hugar, er jeg mælti með tillögu um bæjarlækninn. Áleit jeg þá og álít enn, að launakjör þessara manna sjeu þannig, að útilokað sje, að þeir geti tekið að sjer þessa kenslu án sjerstakrar borgunar. Eins og háttv. þingdeildarmönnum mun kunnugt, þá er hjeraðslæknirinn í Reykjavík í 3. launaflokki; er það lægsti flokkurinn, því að það er álitið, að þar sem fjölmennið er mest hafi læknirinn mestar tekjur .af læknisstörfum. Af þessu er auðsætt, þegar tekið er tillit til, hve margir praktiserandi læknar eru hjer í bæ, auk hjeraðslæknisins, að það er frágangssök að leggja á þann lækninn, sem er í lægsta launaflokki, þá kvöð, að hann verði að bæta við sig jafnumsvifamiklu starfi og kenslan í þessum greinum við háskólann er, endurgjaldslaust. Þetta er eitt af aðalnámsgreinum læknisfræðinnar og krefur engu minna starf af þeim, sem kennir það, en prófessorarnir með fullum embættislaunum inna af hendi við aðrar deildir háskólans; og þessar 1500 kr., án dýrtíðaruppbótar, eru vafalaust hin ódýrustu kenslulaun, sem landssjóður greiðir við háskólann. Starf þetta er svo vandasamt, að jeg álít, að það hefði verið óforsvaranlegt af hæstv. landsstjórn að taka annan mann til þess að annast það meðan kostur var á að halda þessum reynda kennara. Og að bæjarlækninum ólöstuðum, þá verður því eigi neitað, að hann er óreyndur í þessu efni. Enda er bæjarlæknirinn einnig hliðstæður hjeraðslækninum hvað launaflokk snertir, og hefði því eigi frekar getað tekið starfið að sjer endurgjaldslaust, með þeim launum, sem lögin gera ráð fyrir, að hann hafi.

Þá vildi jeg leyfa mjer að mæla með þessum litla styrk til Dansk-islandsk Samfund. Er það eigi rjett að setja málið svo fram, að velja þurfi á milli þess og Norræna fjelagsins. Geta þessi tvö fjelög sem best staðið saman. Hvort þeirra geri meira gagn, — það er óreynt enn sem komið er. Ef öll norrænu ríkin veita hinu síðarnefnda fjelagi lið sitt, þá skal jeg taka það fram, að jeg álít eigi rjett að við höldum okkur til baka, enda þótt jeg geri mjer eigi von um mikinn árangur fyrir okkur af því. Eins álít jeg eigi rjett af okkur að veita eigi Dansk-islandsk Samfund þennan styrk, þar sem Danir hafa veitt því 10 þúsund kr. Jeg skal láta ósagt um það hversu mikill árangurinn af starfi fjelagsins verður, en mjer er kunnugt um það, að menn starfa þar að viðfangsefnum fjelagsins með óskiftum áhuga. Jeg mun því greiða atkvæði með því, að styrkurinn verði látinn standa eins og hann er ákveðinn í frv. stjórnarinnar.

Jeg hefi nú verið að verja till. hæstv. stjórnar, enda þótt hæstv. forsrh. (SE) hefði átt að segja það, sem jeg hefi sagt; en jeg hefi gert það af því, að mjer var ljúft að styðja að framgangi þessarar till.