12.04.1923
Neðri deild: 40. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

1. mál, fjárlög 1924

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Háttv. frsm. (MP) benti á það, að ósamræmi væri í 16. gr. 3. þar sem gert væri ráð fyrir einum 20 þús. krónum til búnaðarfjelaganna, en í athugasemdunum stæði, að greiða ætti kr. 1.50 fyrir hvert dagsverk, og þyrfti því að rjettu lagi til þessa um 120 þús. kr. Eftir þessu ósamræmi hafði áður verið tekið, og er hjer ekki um að ræða prentvillu, eins og hv. framsögumaður (MP) gat til. En svoleiðis stendur á þessum að forseti Búnaðarfjelagsins hafði lagt til, að breyta þyrfti ýmsum þeim skilyrðum, sem hjer er um að ræða, í þá átt eins og skilyrðin nú hljóða undir liðunum a. b og e. Skýrði hann þá líka frá því, að dagsverkatalan væri um 80 þús. Honum var sagt, að ekki væri unt að veita svo mikið, sem því næmi. Hins vegar bjóst jeg þá við því, að hægt yrði að veita 40 þús. í þessu skyni, en sá seinna, að ekki mundi hægt að fara hærra en í 20 þús. Þrátt fyrir þessa miklu lækkun á upphæðinni, sem stjórn Búnaðarfjelagsins hafði ætast til að fá, áleit hún, að sjerstöku skilyrðin gætu staðið, en almenna skilyrðið í upphafi átti auðvitað að falla, en það hefir gleymst.

Annars er jeg hv. nefnd mjög þakklátur fyrir meðferð þess hluta fjárlaganna, sem mig snertir sjerstaklega. T. d. vil jeg minnast á 15 þús. kr. hækkun til Fiskifjelagsins. Formaður fjelagsins hafði og átt tal um það við mig, að auka þyrfti styrkinn til fjelagsins, þar sem það hefði nú ýms ný mál með höndum, sem framkvæma þyrfti. Jeg sá mjer samt ekki fært að hækka styrkinn að krónutali frá því, sem verið hafði, heldur var hann látinn standa óbreyttur, eins og hjá Búnaðarfjelaginu. Er það í raun rjettri um hækkun að læða. saman borið við aðrar upphæðir ýmsar, sem hafa lækkað beinlínis og óbeinlínis, svo sem dýrtíðarbót. Jeg get þó fallist á hækkunina, úr því farið er út í það á annað borð að afgreiða fjárlögin með halla. Og jeg vil heldur, að fjeð fari þá til þarflegra framfarafyrirtækja en í annað.

Þá skal jeg minnast á liðinn, sem ætlaður er til þess að leita fiskmarkaðs erlendis. Jeg hafði sjálfur hugsað mjer að taka upp þennan lið og virðist nú, þegar hann er kominn fram frá hv. nefnd, að eins og hann er þar, 10 þús. kr., sje hann heldur lítill. En hv. frsm. (MP) gat þess að vísu, að þetta væri aðeins áætlunarupphæð. En ef svo er, að liðurinn verði fyrir sjáanlega hærri, er það í rauninni ekki nema til þess eins að blekkja sjálfan sig að taka ekki hærri upphæðina inn í lögin undir eins. Jeg geri heldur ekki ráð fyrir því, að unt verði í reyndinni að komast af með þessar 10 þús. kr., og hefi því leyft mjer að bera fram brtt. um hækkun upp í 20 þús. kr. Sennilega þarf að senda mann til Rússlands og til Eystrasaltslandanna, og þótt slík för ætti ekki að verða eins dýr eins og förin til Suður-Ameríku nú, má búast við allmiklum kostnaði. En, sem sagt, jeg er mjög glaður yfir því, að hv. nefnd hefir lýst yfir því, að þetta sje aðeins áætlunarupphæð, og stjórnin mun að sjálfsögðu haga sjer eftir því, ef brtt. verður feld, en meira fje þarf en tillaga nefndarinnar tilgreinir.

Hv. nefnd hefir lagt til, að feldur verði niður dálítill styrkur, 500 kr., til Dansk Kunstflidsforening, og mun þá ætlun hennar, sumpart víst í sambandi við styrkhækkunina til heimilisiðnaðarfjelagsins, að stúlkur njóti þessa hjer innanlands. En reynslan mun þó verða sú, að íslenskar stúlkur gangi eftir sem áður í slíka skóla í Kaupmannahöfn, og fara þá, ef styrkurinn verður feldur, að betla hjá Dönum um styrk, en það er óviðeigandi og óviðkunnanlegt. Annars skal jeg geta þess, að íslenskum stúlkum, sem gengið hafa í þennan skóla, hefir gengið þar mjög vel; síðast fengu t. d. 3 íslenskar stúlkur 1. verðlaun og 1 stúlka 2. verðlaun. Forstöðukona skólans hefir skýrt frá því, að skólinn hafi áður haft 1000 kr. úr sáttmálasjóði, en þeim styrk sje nú kipt burtu, en hún býðst hins vegar til þess að halda áfram að taka íslenskar stúlkur, ef hún fái þessar 500 kr. Vona jeg því, að hv. deild verði ekki svo nánasarleg að fella þetta.

Svo skal jeg minnast á 2 till. hv. nefndar enn. Önnur er um dálítinn styrk, 1000 kr., til Þórðar Flóventssonar frá Svartárkoti, til leiðbeiningar um silungaklak og til viðurkenningar fyrir það starf, sem hann hefir þegar unnið að þessu. Jeg hefi fulla ástæðu til þess að ætla, að starf hans muni bera góðan árangur, og vænti þess því, að hv. deild sýni þessum gamla heiðursmanni þá sanngirni að samþykkja þessa litlu fjárveitingu til hans. Svipað má að sumu leyti segja um smástyrk. 200 kr., til gamals pósts á Akureyri. Jeg er að vísu alls ekki sammála þeirri stefnu, að allir póstar eigi að fá eftirlaun, að minsta kosti ekki aukapóstarnir. Nokkuð öðru máli er að gegna um aðalpóstana, sem t. d. oft hafa starfað á hættulegum og erfiðum öræfaleiðum. Þeim getur verið rjett að veita viðurkenningu, ef þeir hafa starfað vel og lengi. Og mjer er það kunnugt um þann mann, sem hjer á hlut að máli, að hann hefir verið í mesta máta áreiðanlegur og dygðugur.

Jeg þarf svo eiginlega ekki að fjölyrða um fleiri einstakar brtt. En jeg vil að lokum aðeins minnast stuttlega á lánsheimildartillögur nefndarinnar alment og einstakra hv. þm. annara. Till. nefndarinnar hlaupa þar á ca. 200 þús. kr., till. minni hlutans á ca. 50 þús. og 2 aðrar till. 280 þús. kr. svo að alls verður þetta fullkomin þó miljón. En sannleikurinn er sá, að í rauninni er ekki minsta von til þess, að unt verði að lána neitt af þessu. En hins vegar er eins og mönnum sjeu gefnar góðar vonir með því að samþykkja þetta í þinginu, og stjórnin hefir vanalega ekki stundlegan frið á eftir, og er það þá tekið sem einhverskonar illvilji frá stjórnarinnar hálfu, ef hún verður að neita um lánin. Jeg fyrir mitt leyti mundi því ekki samþykkja þessar lánsheimildir, ef jeg ætti að greiða atkvæði um þær. Þó undanskil jeg lán til Gerðahrepps í Gullbringusýslu, því það er nauðsynlegt, af því að hreppurinn liggur að öðrum kosti við gjaldþroti. Skal jeg svo ljúka máli mínu.

*Fyrri partur ræðunnar hefir fallið niður hjá skrifurunum