12.04.1923
Neðri deild: 40. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (708)

1. mál, fjárlög 1924

Pjetur Þórðarson:

Samkvæmt þingvenju ætla jeg að gera stutta grein fyrir dálítilli brtt. við 16. gr., sem jeg á á þskj. 292. Maðurinn, sem þar á hlut að máli, er fátækur maður á afskektu fjallakoti. Eru hús hans fallin mjög og fornleg og nauðsyn hin mesta að endurbyggja þau. Sendi hann erindi um þetta áður, eða á síðasta þingi, en það náði þá ekki samþykki hv. deildar. Nú hefir hann sent erindi aftur, ekki beint til þingsins, heldur til mín, og jeg seldi málið svo í hendur háttv. fjvn Jeg skal ekki fjölyrða um þetta, en aðeins benda á það, að þar sem þetta býli er ríkiseign — það er kirkjukot — er mjög sanngjarnt að verða við þessu, og einnig af því, að eins og nú stendur það, er mjög erfitt þar um gistingu fyrir ferðamenn. Þessi beiðni kemur heldur ekki aftur, ef hún verður nú samþykt, svo að ekki þarf að óttast það hjer, eins og um sumt annað sömu tegundar í þessari gr.; en hins má vænta, að ef hún yrði ekki samþykt, kæmi hún fram seinna, eins og reynslan nú hefir sýnt. Annars skal jeg ekki eyða hinum dýrmæta tíma þingins nú fremur en áður við þessar umr.