12.04.1923
Neðri deild: 40. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

1. mál, fjárlög 1924

Stefán Stefánsson:

Jeg á 2 brtt. við þennan kafla, og víkur því svo undarlega við, að jeg býst við að taka þær báðar aftur, og geri jeg það því hjer með. Fyrri brtt. er á þskj. 292,XIII, um fjárveitingu til Siglufjarðarbryggju. Jeg hefi minst á það við háttv. form. og frsm. fjvn., hvort nefndin sje ekki fáanleg til að taka þetta mál enn betur til athugunar. Í sambandi við þær tvær bryggjur, sem fjvn. hefir nú tekið aftur brtt. sínar um. Jeg tek því þessa till. aftur í þeirri von, að það ráðist svo, að jeg hafi hv. fjvn. með henni en eigi móti við 3. umr.

Önnur brtt. er á sama þskj., tölul. XV. um sjóvarnargarðinn á Siglufirði. Jeg þarf heldur ekki að ræða um þetta atriði, enda hafa háttv. deildarmenn áður heyrt, hvernig því máli horfir við. Þar sem hæstv. stjórn hefir nú tekið þennan lið upp í fjáraukalagafrv. fyrir 1923, er hún leggur fyrir þingið, er það fremur verk hæstv. stjórnar heldur en mitt að berjast fyrir þessu máli.

Jeg vildi þá minnast á 2 brtt. hv. fjvn. Hin fyrri er nr. 82.XI. á þskj. 254. um 500 kr. styrk til Sæmundar Sæmundssonar, til viðurkenningar fyrir mannbjörg úr sjávarháska. Jeg vil leyfa mjer að mælast til, að hv. deild leggi þessari till. liðsinni. Mjer er það í minni, þegar þessi alkunni eyfirski sjógarpur kom langar leiðir norðan úr Íshafi með 12 manna skipshöfn, sem talið var eða búist við, að farist hefði, inn á Eyjafjörð. Jeg man eftir þeirri gleði og þeim fögnuði, er varð um allan Eyjafjörð, þegar það einvalalið kom aftur heilu og höldnu. Þessir menn björguðust einungis fyrir dugnað og framgöngu Sæmundar, og tók hann ekki eyris þóknun fyrir. Þessi maður hefir dvalið allan aldur sinn í Eyjafirði, en er nýfluttur til Ísafjarðar. Skömmu eftir að hann fluttist þangað, vann hann annað þrekvirki, er hann bjargaði 6 mönnum úr sjávarháska. Mig furðar á því, hve lága upphæð hv. fjvn. ætlar þessum gamla garpi. Mjer finst það næsta óviðeigandi. því að þetta getur varla heitið viðurkenning fyrir önnur eins þrekvirki eða happaverk.

Þá er brtt. 89,1 d. á þskj. 254, um að heimila stjórninni að ganga í ábyrgð fyrir 50 þús. kr. láni til bræðranna Esphólín, til þess að stofna tunnusmiðju á Siglufirði. Annar þessara bræðra. Hjalti Esphólín, er nýkominn frá Svíþjóð í þessum erindum, og fann hann mig að máli í þingbyrjun. Hafði hann keypt vjelar til verksmiðjunnar í ferðinni og fjekk kjarakaup á þeim. Var talið, að vjelarnar mundu kosta 90 þús. kr., en í kostnaðaráætlun þeirri, sem hann hefir lagt fyrir hv. fjvn., eru þær reiknaðar á 50 þús. kr. En jafnvel þó að vjelarnar fengjust með þessum mikla afslætti, er áætlað, að húsin og allar vjelar kosti alls 180 þús. kr.; er því sýnilega um miklu meiri höfuðstól að ræða en þá litlu lánsupphæð, sem farið er fram á, að ríkið ábyrgist. Þó skildist mjer á þessum manni, að hann teldi sjálfsagt, að ríkið tæki alla eignina að 1. veðrjetti fyrir þessari ábyrgð.

Jeg flutti þetta mál í sjútvn., og veitti meiri hluti hennar því samþykki sitt og sendi það álit sitt ásamt umsókn bræðranna til hv. fjvn. Sú nefnd hefir tekið svo í málið, að hún leggur til, að ríkið ábyrgist 50 þús. kr., en í umsóknarbrjefi þeirra bræðra var farið fram á, að ríkið tæki ábyrgð á 75 þús. kr. Jeg spurði hr. Esphólín, hve lágri upphæð hann gæti sætt sig við, að tekin væri ábyrgð á. Kvaðst hann verða að sætta sig við, þó ekki væri nema 40–50 þús. kr., en upphæðin mætti þó helst ekki vera lægri en 75 þús. Hjer er því allverulega dregið úr þeirri ábyrgð, sem óskað var eftir.

Til stuðnings því, hve arðvænlegt þetta fyrirtæki er, vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp kafla úr umsókn bræðranna:

„Með því að hafa verksmiðjuna í aðalsíldarstöð landsins þurfa útgerðarmenn ekki að birgja sig upp með tunnur, þar sem verksmiðjan sjálf birgir sig upp með meðalafla fyrir augum, og þar að auki getur hún altaf, ef útlit er fyrir meiri afla, framleitt tunnur svo ört, að veiðin þurfi ekki að stansa.

Það kemur oft fyrir, að þeir, sem eigi hafa af einhverjum ástæðum getað birgt sig upp með nægar tunnur, hafa orðið að selja síldina, oft og einatt útlendingum, sem nægar tunnu höfðu, með óhagkvæmum kjörum. Þetta fyrirbyggist með tunnuverksmiðju á staðnum.

Þegar tunnur eru keyptar frá útlöndum, vita menn vanalega ekkert um gæði tunnanna fyr en kaup eru afgerð og þær komnar til Íslands. En tunnur frá innlendri verksmiðju geta menn hæglega skoðað áður en þeir kaupa. Þetta tryggir gæði tunnanna og þar með síldarinnar.

Það má geta þess, að fyrir utan síldartunnur, sem auðvitað er aðalþáttur starfseminnar, ætlum við einnig að framleiða kjöttunnur eftir þörfum landsmanna.“

Fleiri ástæður nefna þeir, svo sem það, hversu mikill hagur gæti verið fyrir atvinnulítið fólk að njóta þessarar atvinnu að vetrinum til, og sýna fram á í áætlun sinni, að þeir muni greiða 90 þús. kr. í kaup árlega, og helst á þeim tíma, sem annars er um enga atvinnu að gera.

100 þúsund tómar síldartunnur álíta þeir, að þeir geti unnið, og auk þess 30 þús. tómar kjöttunnur á 260 dögum, og það þó með því að vinna aðeins að deginum, eða 10 tíma. Það er með öðrum orðum sýnilegt, að þeir geta með öllu fullnægt tunnuþörf landsmanna. Búast þeir við að geta selt síldartunnuna á 6 kr. En árið sem leið var hún seld á 8–9 krónur. Munar það 2–3 kr. á tunnu. Kjöttunnan kostaði árið sem leið 17–18 krónur, og er búist við, að hana megi nú selja að sama skapi ódýrari. Það er því ekki einasta mikilsvert fyrir sjávarútvegsmenn, að þessi tunnusmiðja sje sett á stofn, heldur og einnig fyrir landbændur. Þótt jeg sje að vísu þakklátur háttv. fjvn. fyrir að hafa lagt til, að ríkið ábyrgðist 50 þús. kr. í þessu augnamiði, þá býst jeg samt við, að hún hefði vel getað forsvarað að mæla með 75 þús. króna ábyrgð, og hefði mátt vænta þess, að háttv. deildarmenn tækju þeirri till. vel. En hvað sem því líður, er jeg þakklátur hv. nefnd fyrir að hafa ljeð þessu þarfa fyrirtæki stuðning sinn.