12.04.1923
Neðri deild: 40. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

1. mál, fjárlög 1924

Pjetur Ottesen:

Jeg skal ekki vera margorður, enda er orðið framorðið og jeg sje fáa hv. þm. í sætum sínum. En jeg vildi þó beina nokkrum orðum til hv. þm. N.-Ísf. (SSt) og hv. 2. þm. Reykv. (JB).

Hv. þm. N.-Ísf. mintist á kaup eða bygging landhelgisgæsluskips. Áleit hann, að það mundi verða afardýrt, jafnvel alt að 2 milj. kr. Þessa upphæð hefir hann fengið út með því að margfalda að minsta kosti með 3 þá upphæð, sem nægja mundi til að kaupa slíkt landhelgisgæsluskip, sem jeg hefi hugsað mjer. Jeg þykist vera þess fullviss, að slíkt skip, vel útbúið, mundi fást bygt nú og útbúið fyrir um 600 þús. kr. Jeg get nú fullvissað háttv. þm. N.-Ísf. (SSt) um, að þetta er ekki nærri eins ægilegt og hann álítur. Jeg get fullvissað háttv. þm. um, að ef það kemst í framkvæmd, þá ætti landhelgissjóðurinn, sem nú er fullar 600 þúsund kr., að duga til þess.

Ef til vill ruglar hv. þm. saman við okkar till. annari, sem fram hefir komið, þar sem framar er gengið og fleiru blandað saman við, og yrði því dýrara. En jeg get fyllilega tekið undir með hv. þm. N.-Ísf. (SSt). það sem hann sagði um meðferð fjármálaráðherra (MagnJ) á landhelgissjóðnum. Það er beinlínis vítavert, að sjóðnum skuli hafa verið eytt, og því ekki handbær, þegar þarf að nota hann.

Þá mintist háttv. 2. þm. Reykv. (JB) á styrkhækkunina til Fiskifjelagsins, en mjer virtist það þó aðeins vera leið til að ná í forseta Fiskifjelagsins, því það, sem jeg sagði hjer í dag um styrkhækkunina fyrir hönd sjávarútvegsnefndar. var sagt í nafni þessa háttv. þm. eins og okkar hinna nefndarmanna, því hann var okkur hinum alveg sammála um hana. Jeg skal ekki fara frekar út í það mál. En mjer skilst, að þingmenn ættu að líta svo á, að það væri ekki samboðið stöðu þeirra og virðingu að nota þinghelgina til þess að ráðast á fjarstadda menn, sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sjer.

Þá var sami hv. þm. (JB) að andmæla styrknum til Sláturfjelags Suðurlands til sútunarverksmiðju. Jeg skal ekki fara langt út í þau andmæli, því það er öllum ljóst, að nauðsynlegt er að veita þeim stofnunum atbeina, sem miða að því að gera framleiðsluvörurnar verðmeiri og útgengilegri. Og út af þeim orðum hans, að styrkurinn væri of hár, samanborið við aðra styrki, þá skal jeg geta þess, að ekki er minni ástæða til að styrkja þessa stofnun en ýmislegt annað, sem hefir verið styrkt í sama hlutfalli. eða með 14 stofnkostnaðar.

Sláturfjelagið fór líka fram á þann styrk, en nefndin færði það niður, í samræmi við það, sem hún varð að gera við ýmsar málaleitanir úr öðrum áttum. Þetta er þjóðnytjafyrirtæki og ekki síður þess vert að það sje styrkt en ýmislegt annað, sem til hefir verið stofnað og styrkt á síðustu árum.