12.04.1923
Neðri deild: 40. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

1. mál, fjárlög 1924

Þorsteinn Jónsson:

Háttv. 2. þm. Reykv. (JB) hjelt því fram, að vjelrituð till., er jeg bar hjer fram, gæti ekki komið til atkvæða, vegna þess að hún væri skrifuð, en ekki prentuð.

Jeg verð þá að segja, að ýmislegt fleira hefir verið ólöglegt af þessari ástæðu hjer í vetur, svo sem er með allar dagskrár og sum stjórnarfrv.

Þá skal jeg svara háttv. frsm. fjvn. (MP) viðvíkjandi því, er hann sagði um brtt. mína. Taldi hann það varhugavert fordæmi, að kennarar væru settir á eftirlaun. Til hvers er þá eftirlaunasjóður fyrir kennara stofnaður? Eftir gildandi lögum nú geta fleiri kennarar notið styrks úr þessum sjóði en áður. En ef á að gera breyting á fyrirkomulaginu, er spursmál, hvort sjóðurinn getur starfað á sama hátt og áður. Það er ekki nema sanngjarnt, að kennarar njóti þess fjár, sem þeir hafa áður sjálfir lagt fram.

Hv. þm. Ísaf. mælti á móti því, að landsfjórðungarnir öfluðu sjer jarðvöðuls. Jeg er honum ekki samdóma í því, því að það er nauðsynlegt áhald fyrir bændur, en vitanlega svo dýrt, að enginn einstakur maður er fær um að afla sjer þess. Jeg vil ekki undanskilja Austurland, þegar um þetta er talað, því að jeg get ekki fallist á, að það sje illa fallið til ræktunar, allra síst ver en aðrir landsfjórðungar. Fljótsdalshjerað mun einmitt vera með gróðursælustu svæðum á landinu. Annars er óþarfi að gefa aðrar upplýsingar en þær, að áskoranir þess efnis að fá jarðvöðul eru einróma frá þingmálafundum eystra, og vona jeg, að hv. þm. taki þær til greina.