18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (734)

1. mál, fjárlög 1924

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg þakka fyrir síðast fyrir hönd fjvn. og bið afsökunar á því, að jeg verð stuttorður nú. Jeg vil skjóta því til hv. þdm., sem brtt. eiga, að sýna dálitla sjálfsafneitun og vera ekki alt of langorðir við þessa. umræðu.

Jeg sný mjer þá að brtt. þeim, er fjvn. á hjer á þskj. 369. Er þá fyrst fyrir 150 þús. króna hækkun, sem áætluð er á ágóða af vínversluninni. Háttv. deild kann nú að undra, að svo stórfeld breyting er gerð af nefndinni á þessum lið. En því er svo varið, að sökum ónógra upplýsinga var fyrri áætlunin sett nokkuð af handahófi, og var nefndinni þá sjerstaklega í hug að fara ekki of hátt. Nú hefir nefndin fengið ábyggilega skýrslu, og veit því, að fyllilega er óhætt að áætla svona hátt.

Þessi hækkun varð til þess, að nefndin sá ekki þörf að koma fram með neinar tillögur til tekjuauka, því þessi hækkun nemur meiru en bæst hefir við útgjaldahliðina eftir till. nefndarinnar.

Næsta breyting er aðeins fyrirkomulagsatriði, að sundurgreina hreppa þá, sem styrk fá til læknisvitjana. Nefndin taldi ekki rjett að fara í þessu efni eftir fjárlögunum 1922, því sumir af þeim hreppum, sem þar er gert ráð fyrir, hafa fallið í burtu og nýir bæst við. Þessi liður hefir lækkað um 50 krónur.

Jeg hefi tekið það fram áður, að fjvn. þætti hreppar verða hart úti með sjúklinga sína á Kleppi, í samanburði við sjúklinga í öðrum sjúkrahúsum. Leggur nefndin til, að meðgjöf með sjúklingum verði lækkuð um 50 aura á dag, úr 2 kr. niður í 1,50 kr.

Þá liggur fyrir Alþingi skýrsla nefndar, sem kosin var til þess að athuga og rannsaka mál A. L. Petersens, fyrverandi stöðvarstjóra í Vestmannaeyjum. Nefndin hefir komist að þeirri niðurstöðu, eftir því sem skjöl og skýrslur liggja fyrir í málinu, að ekki verði hjá því komist að greiða honum skaðabætur. Þó fer nefndin ekki eins hátt og hann fór upphaflega fram á, nefnilega 17000 kr., heldur ætlar hún hæfilegt að greiða 10000 kr. Fjvn. væntir, að þessu máli verði lokið nú á þinginu á þann hátt, að það samþykki þær bætur, er hún leggur til, en henni þykir ekki sanngjarnt að láta minna af hendi rakna en 10 þús. kr. í viðbót við þær 5 þús. kr., sem hann áður hefir fengið. Er það þó enn ekki eins hátt og hans krafa hljóðar um, og er hún þó studd af óhröktum reikningum. Býst jeg við, að hv. þdm. hafi lesið skýrslu nefndarinnar og komist að sömu niðurstöðu.

Nefndin hefir lagt til, að hækkaður verði skrifstofukostnaður biskups, svo að í samræmi verði við annan skrifstofukostnað. Telur nefndin þó, að ekki beri að hafa hann eins háan og hjá landlækni, þar sem störfin munu vera minni frá biskupi.

Þá er veiting til rafveitu á Hólum. Hafa áður verið veittar 5000 kr. til sama fyrirtækis og hefir verið unnið að undirbúningi. Hefir áður verið sýnt fram á hjer á Alþingi og færð rök fyrir, hver búhnykkur þetta væri fyrir ríkið, þar sem mikill sparnaður yrði við rekstur skólans. Hefir þessu máli aðeins verið frestað sökum dýrtíðar, og sjer nefndin sjer því ekki annað fært en mæla með því, að nú verði hafist handa sem fyrst. Hefir einnig nú verið lagt út í rafmagnslagningu á Hvanneyri, og verður það þó varla eins arðvænlegt fyrir ríkið nje reksturinn eins ódýr og á Hólum.

Þá er brtt. á XVII. lið, að tekið sje fram, að styrkurinn til Páls Ísólfssonar sje veittur til framhaldsnáms; er það aðeins gert til að fyrirbyggja misskilning.

Næst er till. á XIX. lið, að fella burtu alla athugasemdina við styrkveitinguna til búnaðarfjelaganna.

Nokkrum sinnum hefir verið veittur styrkur til hannyrðakenslu í Dalasýslu. Hefir þetta verið vel sótt og vel látið af þessari kenslu af þeim, sem til þekkja. Nefndin hefir því talið rjett að halda þessu uppi, enda um smáupphæð að ræða.

Þá hefir nefndin lagt til, að veitt verði til bryggjugerðar á Siglufirði alt að 18 þús. kr. Upphaflega var ætlast til af fjvn., að talsvert kæmi inn á frv. þetta af bryggjugerðum, en nefndin sá sjer þó ekki fært að leggja til, að veitt yrði fje til nýrra bryggja. Síðan voru allar þessar upphæðir fluttar yfir í fjáraukalög, og virðist því nokkuð rýmra um þessi mannvirki nú en áður. Hefir fjvn. oftast mælt með samskonar framkvæmdum sem þessari, er hjer um ræðir. Siglfirðingar hafa gert áætlun um að gera mikil hafnarvirki hjá sjer, sem búist er við að kosti 600 þús. krónur. Þetta getur þó alls ekki orðið í bráðina, og er því ráðgert, að af öllum þessum virkjum verði aðeins bygð þessi bryggja. Er mikil þörf á, að fullkomin bryggja sje sett á Siglufirði, og er nefndin því meðmælt, að þetta fje verði veitt, enda hefir sjútvn. mælt með því.

Þá er brtt. frá fjvn. um 7500 kr. fjárveitingu til lendingarbóta í Bás við Vík í Mýrdal. Jeg skal ekki fjölyrða um þennan lið, því að um hann var rætt við 2. umr. Þessi upphæð er ákveðin með rjettum útreikningi eftir kostnaðaráætlun, og er gert ráð fyrir, að veittur sje alt að helmingur kostnaðar, svo sem tekið er fram í tillögunni.

Þá er brtt. um styrk til Byggingarfjelags Reykjavíkur. Hún er því miður ekki rjett enn þá, en er leiðrjett á þskj. 385, VI. Nefndin leggur til, að fjelaginu verði sem áður veittur byggingarstyrkur, 5% af byggingarkostnaði, gegn helmingi hærra tillagi frá Reykjavíkurbæ, eða 10%. Nefndin þykist þess fullvís, að starfsemi þessa fjelags hafi gert svo mikið gagn, að rjett sje að styrkja það. Fjelagið fór fram á helmingi hærri styrk, 10% af byggingarkostnaði, en nefndin sá sjer ekki fært að samþykkja það, enda síst ástæða til að hækka styrkinn nú, þar sem gera verður ráð fyrir, að byggingarkostnaður verði minni en áður.

Brtt. á þskj. 369,XXXII,1.. styrkveiting til Einars Þorkelssonar, er tekin aftur.

Hjer var feld við 2. umr. tillaga frá fjvn. um lánsheimild til bónda eins vestur í Dölum, til þess að endurreisa býlið Svínadalssel. Nefndin gerir ráð fyrir, að það hafi stafað af misskilningi, að háttv. deild feldi þessa heimild, þar sem sá siður hefir verið að styrkja býli, sem eru nálægt fjallvegum, til þess að hýsa ferðamenn. Nefndin hefir því lækkað upphæðina og væntir þess, að hv. deild samþykki þessa litlu lánsupphæð.

Þá er tillaga frá nefndinni um að veita 30000 kr. lán til kembivjela á Húsavík. Háttv. deildarmönnum þykir ef til vill undarlegt, að fjvn. skuli sjálf bera fram till. um lán til tóvinnuvjela, eftir undirtektum hennar við síðustu umræðu. En svo er mál með vexti, að um 40 ára skeið hafa verið kembingarvjelar í Þingeyjarsýslu; hafa þær borið sig vel og verið hin mesta lyftistöng heimilisiðnaðarins í sýslunni. Klæðaverksmiðjan Gefjun á Akureyri getur hvergi nærri fullnægt þörfum nærliggjandi sýslna, og engar líkur til, að hún geti bætt við sig þeim störfum, er þessar vjelar hafa unnið áður. En vjelarnar, sem voru á Halldórsstöðum, brunnu síðastliðinn vetur, og er nú fyrirhugað að endurreisa þær á Húsavík. Nefndin mælist til, að þessu verði ekki ruglað saman við afstöðu hennar til klæðaverksmiðjanna. Hún telur, að þessar kembingarvjelar sjeu sjerstaklega heppilegar til að styrkja heimilisiðnaðinn og halda honum við. Heimilisiðnaðarfjelag Íslands hefir veitt manni styrk til utanfarar til þess að skoða slíkar vjelar, og ber það vott um, að fjelagið álítur, að hjer sje verið að fara rjetta leið. En um stofnun klæðaverksmiðju er nefndin á sömu skoðun sem fyr.

Framkvæmdastjóri Eimskipafjelagsins kom á fund nefndarinnar og ljet þess getið, að vel gæti svo farið, að mjög mikil og hörð samkepni yrði hafin gegn Eimskipafjelagi Íslands. Yrði fjelagið ef til vill neytt til að lækka fargjöld og farmgjöld meir en svo, að rekstur skipanna gæti borið sig. Það er vitanlegt, að samkepni þessi yrði hafin til þess að koma fjelaginu fyrir kattarnef, og fór framkvæmdastjórinn því fram á, að Alþingi veitti stjórninni heimild til að veita fjelaginu liðsinni, ef til kæmi. Nefndin álítur, að Alþingi ætti að vera við þessu búið. Hún treystir landsmönnum ekki svo vel, að þeir noti skip Eimskipafjelagsins, ef aðrir byðu betri kjör. Það væri óskandi, að ríkissjóður þyrfti ekki að hlaupa undir bagga með fjelaginu, en til tryggingar vill nefndin veita þessa heimild, ef til þyrfti að taka.

Fleiri brtt, ber fjvn. ekki fram. En jeg skal leyfa mjer að víkja strax nokkrum orðum að brtt. frá einstökum þm., svo að þeir viti, hvernig nefndin tekur í þær. Geta þeir þá ef til vill sparað sjer orð, ef nefndin er þeim samþykk, eða hagað orðum sínum eftir mótbárum nefndarinnar, þar sem hún er mótfallin tillögunum.

Jeg skal þá fyrst víkja að brtt. frá hv. 2. þm. N.-M. (BH), um 4000 kr. hækkun á fjárveitingunni til Hróarstunguvegar. Nefndin hefir komist að þeirri niðurstöðu, að þessi vegur hafi orðið mjög hart úti að undanförnu, og þar sem hjer er um litla upphæð að ræða, leggur hún til, að brtt. verði samþykt. Þar sem hv. þm. hefir áður talað rækilega fyrir þessari fjárveitingu, ættu þessar undirtektir nefndarinnar að geta sparað honum mörg orð um þetta mál.

Þá eru ýmsar brtt. um nýjar símalínur. Jeg ætla ekki að tala sjerstaklega um einstakar brtt. um línurnar. Það er síður en svo, að fjvn. vilji deila eða fara í reipdrátt um, hver þeirra lína sje nauðsynlegust og ætti að ganga fyrir öðrum. Nefndin efast ekki um, að þær sjeu allar nauðsynlegar og ætti að leggja þær allar einhvern tíma. En því var lýst yfir við 2. umr., að nefndin treysti sjer ekki að fara lengra í tillögum um símalagningar en hún gerði þá, og jeg býst jafnvel við, að hv. deild þyki hún hafa farið fulllangt, Nefndin treystir sjer því ekki að mæla með, að fleiri línur verði teknar upp í fjárlögin.

Þá skal jeg skjóta því til háttv. 1. þm. Reykv. (JakM), að nefndin getur ekki fallist á brtt. hans á þskj. 369,V, um uppbót á launum starfsmanna við landssímann og talsímakvenna við bæjarsímann í Reykjavík. Nefndin finnur brtt. mest til foráttu orðalagið í 1. línu tillögunnar „til uppbótar á launum starfsmanna landssímans“. Það gæti verið umtalsmál, að nefndin fjellist á hugmyndina, ef einungis væri átt við konurnar við bæjarsímann. En eins og till. er orðuð nú, veit nefndin ekki glögglega, við hvað er átt.

Um brtt. hv. þm. Ísaf. (JAJ), um að færa niður fjárveitinguna til alþýðuskólans í Þingeyjarsýslu, skal jeg geta þess, að nú er kornin fram áreiðanleg og nákvæm áætlun um kostnaðinn við að stofna þann skóla, og er þar gert ráð fyrir 95 þús. kr. kostnaði. Nefndin telur því rjettara að láta upphæð sína standa, ekki síst þar sem ekkert er í húfi fyrir ríkissjóð.

Um brtt. á þskj. 369,XIII, frá hv. 1. þm. Rang. (GunnS), um lækkun á styrknum til Dansk-islandsk Samfund, þarf jeg ekki að taka fram fyrir hönd nefndarinnar, samkvæmt tillögum hennar við 2. umr., að hún mun að sjálfsögðu fallast á hana.

Þá vill meiri hluti fjvn. eindregið mæla með tillögu meiri hluta sjávarútvegsnefndar um styrk til Bjarna Sæmundssonar, til fiskirannsókna. Loks vil jeg geta þess um brtt. á þskj. 385,1, frá hv. þm. Barð. (HK), að nefndin mælir eindregið með, að hún verði samþykt, í samræmi við það, sem nefndin hefir áður látið í ljós.

Jeg hygg, að jeg sje orðinn nægilega langorður um þessar brtt. Aðrar smærri brtt. skal jeg ekki ræða um, fyr en flm. þeirra hafa látið til sín heyra. Vona jeg, að hv. þm. verði nú snöggir og lengi umræðurnar ekki um of.