18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (739)

1. mál, fjárlög 1924

Lárus Helgason:

Jeg á brtt. undir tölulið 10, viðkomandi styrk til alþýðu- og barnaskóla í Vík. Svo er mál með vexti, að húsið, sem notað hefir verið í þessu skyni undanfarið, er nú allsendis ófullnægjandi, enda eru nú um 12 ár síðan það var bygt og þorpið algerlega vaxið upp úr því, þó það á sínum tíma væri í alla staði myndarleg bygging og nægði þorpinu vel með þeim íbúafjölda, sem þá var. En eins og kunnugt er, er ekki altaf gott að sjá fyrir, hvað þorp eins og þetta taki fljótum vexti. Eins og nú er komið, er húsið helmingi of lítið, og því er það, að ákveðið hefir verið að byggja við það. Í þessu sama húsi hefir undanfarin ár verið haldið uppi unglingaskóla, sem notið hefir styrks úr ríkissjóði, og hefir sú fræðsla, eftir því sem best verður sjeð, komið að góðum notum. Við höfum líka verið svo hepnir að eiga völ á góðum kenslukröftum; eru að minsta kosti 3–4 menn í þorpinu, auk barnakennarans, sem þessu starfi eru prýðilega vaxnir, og því mjög leiðinlegt að geta ekki eftirleiðis notið hæfileika þeirra. Hefir skóli þessi verið mjög aðsóttur og nemendur komið alla leið austan úr Öræfum og vestan undan Eyjafjöllum. Nú er útlit fyrir, að skóli þessi geti ekki haldið áfram, vegna húsleysis, ef ekkert er að gert. Jeg ætla annars ekki frekar að orðlengja þetta og vænti, að allir hv. þm. muni sjá nauðsyn þessarar litlu fjárveitingar.

Þá á jeg aðra brtt. undir lið XXVII, ásamt hv. þm. Dala. (BJ). Eins og deildinni er kunnugt, var borin fram við 2. umr. brtt. viðvíkjandi viðbót við eftirlaun sjera Bjarna Einarssonar, þannig, að eftirlaunin yrðu alls 1000 kr., en hún var feld með jöfnum atkvæðum. En þar sem undirtektirnar voru ekki lakari en þetta, hefir okkur komið saman um að fara fram á aðeins 200 kr. hækkun, og nema eftirlaunin þá 780 kr. Áður hefir í þessari hv. deild verið lýst fjárhagsástæðum þessara hjóna, og þarf jeg því ekki að endurtaka það nú, en vænti þess, að hv. deild verði vel við þessari litlu beiðni, eins og sakir standa.

Þá er enn brtt. á lið XXXVI. um það, að stjórninni verði ekki veitt heimild til þess að greiða þeim fyrverandi bankastjórum Birni Sigurðssyni og Birni Kristjánssyni dýrtíðaruppbót á eftirlaun þeirra. Þau virðast vera svo há, að segja mætti, að hið háa Alþingi gætti ekki mikils sparnaðar, ef það ljeti ekki dýrtíðaruppbót á þeim falla niður. Það hefir sýnt sig, að þingið hefir orðið að nema við neglur sjer styrk til bláfátækra manna — og fjarri sje mjer að fara að álasa því fyrir það — en hjer er um menn að ræða sem alment eru taldir frekar vel efnum búnir. Að minsta kosti er óhætt að fullyrða, að annar þeirra eigi ekki við mikla fátækt að búa, og á jeg þar við Björn Kristjánsson. Hinn þekki jeg miður. Þessu til samanburðar vil jeg benda á það, að í fjárlögunum eru aðeins ætlaðar 600 kr. til Sigvalda Kaldalóns læknis, manns, sem lengi hefir verið í mjög erfiðu læknishjeraði, að maður minnist ekki á það, hve mjög hann hefir auðgað íslenskt sönglíf, og er nú farinn að heilsu. Jeg tala ekki um þetta af því, að jeg sje þessum manni kunnugur; jeg þekki hann ekki einu sinni í sjón, en jeg tek þetta til dæmis um það, hvað eftirlaun þeirra manna, sem jeg nefndi, eru ósæmilega há, í samanburði við þau eftirlaun, sem sumir aðrir verða að gera sjer að góðu. Og það er með slík dæmi fyrir augum, að jeg verð að álykta, að nægilegt sje að greiða þessum mönnum 4000 krónur. Og skal jeg svo ekki þreyta hv. þm. meira á þessu máli, en vænti, að þeir sjái, að hjer er ekki farið með neina ósanngirni.