19.03.1923
Neðri deild: 23. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

33. mál, verðlaun fyrir útfluttan gráðaost

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Þegar frv. þetta var til 1. umr. hjer í hv. deild, var því vísað umræðulaust til landbn. Nefndin hefir íhugað það rækilega og fallist á að ráða hv. deild til að samþykkja það.

Frá því að frv. var flutt í hv. Ed. hefir það tekið talsvert verulegum breytingum. Flm. (JJ ætlaðist til, að það gilti einungis um yfirstandandi ár, en þegar hv. fjvn. Ed. athugaði það nánar, áleit hún, að 1 ár mundi ekki verða nægilegur reynslutími, heldur yrðu lögin að gilda í 2 ár. Í 1. gr. er því ákveðið, að árin 1923 og 1924 skuli veita úr ríkissjóði alt að 50 aura verðlaun fyrir hvert kg. af úrvalsgráðaosti, sem út er fluttur, þó ekki yfir 5000 kr. alls hvort árið. Það má naumast búast við því, að meira verði framleitt af þessari vöru, að minsta kosti ekki af úrvalsvöru. heldur en svarar þessari verðlaunafúlgu. En ef svo mikið skyldi verða framleitt þessi 2 ár, að 5000 kr. hrykkju ekki til 50 aura verðlauna á kg. árlega, þá verða verðlaunin lægri á hvert kg. Þetta frv. er þannig í samræmi við lögin um verðlaun fyrir útflutt smjör, og ef jeg man rjett, voru hæstu verðlaun þar 50 aurar á kg.

2. gr. er um hin sjerstöku skilyrði fyrir því, að verðlaun verði veitt. Nefndin áleit ekki unt að ganga lengra í því efni. Þó hún sjái hins vegar, að vafasamt mun vera, hvort nokkur hafi svo fullkomna þekkingu á þessari framleiðslutegund, að hann geti fyllilega greint, hvað sje 1. flokks vara og hvað ekki. En tilbúningur þessarar vöru er svo nýlega byrjaður, að ekki virðist auðið að ganga tryggilegar frá þessu. Sennilega hefir enginn fullkomna þekkingu í þessari grein, nema sá eini maður, sem staðið hefir fyrir ostagerðinni, herra Jón Guðmundsson. En nú hefir hann þó kent nokkrum mönnum, sjerstaklega síðastliðið sumar, og mætti búast við, að þeir verði mjög bráðlega hæfir matsmenn. Annars er ákveðið, að Búnaðarfjelag Íslands velji matsmennina.

Jeg skal svo fyrir hönd nefndarinnar mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt. Það er ætlun manna, að hjer sje um atvinnurekstur að ræða, er með tíð og tíma geti orðið mjög arðvænlegur fyrir okkar landbúnað, og beri því að styðja hann allríflega, meðan hann er á tilraunastigi, því að enn er eftir að útvega markað erlendis, víðar en gert hefir verið, og marga erfiðleika er við að stríða, vont húsnæði, erfiða mjólkurflutninga o. s. frv. En þegar annars vegar er von um arðvænlegan atvinnuveg, og landbúnaðurinn hins vegar í vanda staddur, þá má óefað búast við því, að þessu framlagi og jafnframt tryggingarákvæðunum verði vel tekið.