18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

1. mál, fjárlög 1924

Jakob Möller:

Jeg á nokkrar brtt, á þskj. 369, sem máske þurfa skýringar við. Fyrsta till. er undir tölulið V, og mintist hv. frsm. fjvn. (MP) á hana að nokkru. Tillaga þessi hljóðar um það að veita, samkvæmt tillögum landssímastjóra, 17700 krónur til uppbótar á launum starfsmanna landssímans og talsímakvenna við bæjarsímann í Reykjavík. Mjer skildist á hv. frsm. fjvn., að nefndin hefði ekki getað glöggvað sig svo á þeirri till., að hún gæti tekið afstöðu til hennar, og var þetta að vissu leyti eðlilegt. En hjer er átt við launauppbætur samkvæmt ákveðnum tillögum landssímastjóra til stjórnarinnar, sem eru fyrir hendi, og hygg jeg, að þær hafi legið fyrir nefndinni. Saman við þetta má ekki blanda till. landssímastjórans um ný embætti við símann; það, sem hjer er um að ræða, er aðeins uppbót á launum. Símamenn skrifuðu 12. mars til landssímastjórans og fóru fram á það, að stofnlaun lægri launaflokka yrðu hækkuð um 200 krónur, nema laun bæjarsímakvenna, sem skyldu hækka um 500 kr., en auk þess skyldu hækka aldursuppbætur lægri launaflokka um 100 kr., en fjöldi uppbótanna óbreyttur. Eftir þessum till. hefðu uppbæturnar numið 35000 krónum. Landssímastjóri skrifaði síðan til stjórnarinnar og ljet þess getið, að þó hann teldi þetta fyllilega sanngjarnt, þá gæti hann samt ekki, með tilliti til fjárhagsörðugleikanna, mælt með því, að svona langt yrði gengið, en lagði hins vegar til, að stofnlaun við bæjarsímastöðina yrðu jafnhá eins og símakvenna við landssímann, eða hækkuðu úr 900 kr. upp í 1200 kr. En auk þess lagði hann til, að aldursuppbót lægstu launaflokkanna þriggja yrði hækkuð um 100 kr., eða úr 200 kr. upp í 300. Þessar uppbætur nema samtals 17700 kr., og eftir því er mín brtt. sniðin. En þess skal getið, að ekki aðeins tillögur landssímastjóra, heldur einnig kröfur símamanna eru gerðar með hliðsjón af því, að frv. um hækkun dýrtíðaruppbótarinnar upp í 80% næði fram að ganga, Er það þá bersýnilegt, að enn brýnni þörf verður á þessari uppbót, eftir að sjeð eru forlög þess frv. Það verður víst heldur ekki um það deilt, að kjör við bæjarsímann í Reykjavík eru alveg óviðunandi. Stofnlaun kvenna eru þar 900 kr. og nema nú með dýrtíðaruppbót um 115 kr. á mánuði, en allir, sem til þekkja í Reykjavík, vita, að af því er ekki hægt að lifa fyrir nokkra manneskju. Raunar vinna þær ekki nema hálfan daginn, en vinnutímanum er þannig skift, að þær geta ekki notað frístundir sínar til að afla sjer tekna, því annan daginn vinna þær fyrri part dagsins, en hinn daginn síðari hlutann, auk þess sem vinnan er líka mjög þreytandi. Enn fremur er í ráði að skifta vinnutímanum enn meir, samkvæmt tillögum lækna hjer í bænum, með því að talsvert hefir borið á veikindum meðal stúlkna við símann. Um hina aðra starfsmenn símans er það að segja, að kjörin eru næsta ljeleg. Stofnlaunin eru eftir flokkum 2200 kr., 1800 kr., 1600 kr., 1400 kr. og 1200 kr. Hjer er samt ekki farið fram á neina uppbót nema á lægri flokkunum, sem hafa 1800 kr. laun og þar fyrir neðan, og aðeins þannig, að aldursuppbótin hækki. Símamenn þykjast ekki geta haldist við með þessum launum, enda bjóðast þeim betri kjör við margt annað, t. d. fá þeir sem loftskeytamenn á skipum alt að helmingi meiri laun en við landssímann. Afleiðingin af þessu gæti orðið sú, að síminn misti sína bestu starfsmenn, nefnilega þá, sem helst gætu aflað sjer atvinnu annarsstaðar. Enda hefir sú orðið raunin á um símastúlkurnar, að þær hafa horfið frá starfi sínu við símann, strax er þeim hefir boðist atvinna við annað, og því eru einatt viðvaningar að starfi þar, en það kemur aftur niður á þeim, sem símann nota, og er ekki að undra, þó símaafgreiðslan fari stundum í ólestri, þegar svona er í garðinn búið. Það er því ekki aðeins með hag símafólksins fyrir augum, að jeg ber fram þessa brtt., heldur einnig með tilliti til símans sjálfs og almennings, sem þarf að nota hann. Jeg sá mjer samt ekki fært að fara lengra í tillögum mínum en þetta. Jeg vildi ekki koma með þessar breytingar sem breytingar á launalögunum, því þar sem gera má ráð fyrir, að taka verði fyrir til íhugunar öll launamál landsins á næstunni, þykir mjer eðlilegt, að Alþingi vilji ekki hrófla við lögunum fyr eða gera breytingar á einstökum liðum þeirra. — Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta, en óska þess, að ef nefndin getur ekki fallist á tillögur mínar, þá gefi hún skýringar á þeirri afstöðu sinni.

Þá er brtt. undir tölulið IX, um 100000 króna styrk til byggingar barna- og alþýðuskóla í Reykjavík. Nafninu er hagað svo til að halda samræmi við aðra slíka liði í fjárlögunum. Öllum mun kunnugt, hvernig ástatt er um barnaskólann í Reykjavík. Hann er upphaflega bygður yfir 600 börn, en nú eru í bænum um 1400 börn á skólaskyldualdri. Það, að hægt hefir verið að komast af með skólann undanfarið, er vegna þess, að tvísett er og þrísett í bekkjunum á daginn, auk þess sem leigðar eru kenslustofur úti í bæ. En þar sem hjer er um 1/5 hluti landsmanna saman kominn, liggur það í augum uppi, að miklu varðar fyrir þjóðina, að bót sje á þessu ráðin, því verði misbrestur hjer á uppeldinu, getur ekki hjá því farið, að það setji merki sitt á þjóðina. Jeg hefði nú samt ekki dirfst að koma með þessa brtt., hefði ekki áður verið hjer á ferðinni samskonar tillaga, og hún samþykt, með mínu atkvæði og hv. samþm. míns, 2. þm. Reykv. (JB) m. a. Við greiddum víst báðir þeirri till. atkv. með það fyrir augum, að Reykjavík fengi að njóta sama rjettar. Og þó tölurnar sjeu eðlilega næsta misháar, þá eru tillögurnar samt sem áður sambærilegar, þegar menn athuga íbúafjöldann. Skólinn í Reykjavík er áætlað að kosti um 1000000 kr., og er samkvæmt því aðeins farið fram á 1/10 hluta af byggingarkostnaðinum. Það hefði auðvitað verið rjett að taka fram í tillögunni, við hvað væri miðað, en jeg gerði ráð fyrir 1/5, því jeg býst ekki við, að ráðist verði í dýrari byggingu í bráðina en sem kosti milj. kr. Það kann máske að þykja illgirnslegt af mjer að fara að bera fram varatillögu þess efnis, að ef þessi styrkur til skólans í Reykjavík verði feldur, þá verði einnig feldur 6000 kr. styrkurinn til hins skólans, sem samþyktur var við 2. umr. En jeg get ekki fallist á það, að einum verði veittur samskonar styrkur, sem öðrum er neitað um. Því vil jeg mælast til þess, að brtt. hv. 1. þm. N.-M. (ÞorstJ) verði borin upp á undan minni tillögu, því annars býst jeg ekki við að geta greitt atkvæði um þá tillögu.

Þá kem jeg að tillögunni um styrkinn til Bjarna Sæmundssonar yfirkennara, sem jeg á að mæla með fyrir hönd sjútvn. Vil jeg þá fyrst og fremst þakka háttv. fjárveitinganefnd fyrir góðar undirtektir í því máli. Eins og mönnum er kunnugt, fer Bjarni Sæmundsson fram á það, að hann fái lausn frá embætti sínu, en haldi launum sínum áfram, til þess að hann geti eftirleiðis gefið sig óskiftan við fiskirannsóknum. Laun hans eru nú 5000 kr., auk dýrtíðaruppbótar, sem ekki verður sagt um, hvað mikil verði. Meiri hl. sjútvn. lítur svo á, að afarmikilsvarðandi sje, að hann geti haldið áfram og gefið sig framvegis óskiftan við því starfi er hann hefir lengi unnið að með miklum dugnaði og góðum árangri.

Hann er nú hins vegar kominn það á efri ár, að þess er varla að vænta, að hann geti hjer eftir sem hingað til skift sjer á milli kenslunnar og vísindanna. Hann álítur því, að hann verði að sleppa öðruhvoru, en dregur enga dul á það, að hann kysi heldur að gefa sig við vísindastarfseminni. Það væri líka tæplega verjandi af þjóð, sem lifir mestmegnis á fiskiveiðum, að gera ekkert til þess að rannsaka fiskigöngur eða lífsskilyrði, einkenni og eðli fiska við strendur þess, þar sem aðrar þjóðir verja offjár til þessa, og það þó þær eigi minna undir fiskiveiðum en við, t. d. Danir.

Jeg geri ráð fyrir því, að jeg þurfi ekki að gera nánari grein fyrir því, hve mikið gagn þessi maður hefir unnið, bæði í vísindalegu og praktisku tilliti, t. d. með því að bæta veiðiaðferðir. Auk þess ætti hann framvegis að vera ráðunautur stjórnarinnar í þeim málum, er að þessum efnum lúta. Vil jeg í því sambandi minna á meðmæli þau, sem hann hefir frá Fiskifjelaginu og Búnaðarfjelaginu.

Þá á jeg brtt. við staflið 16, um það að hækka nokkuð styrkinn til Páls Ísólfssonar. Við 2. umr. var samþykt hjer að veita honum 3 þúsund krónur, en jeg fer nú fram á 5 þús., eða til vara 4 þús. Á síðasta þingi fór nokkuð slysalega með veitinguna til þessa manns, þó þessi hv. deild sýndi það annars, að hún vildi styrkja hann. En hv. Ed. lækkaði þann styrk um helming, úr 4 þús. í 2 þús., en þegar fjárlagafrv. kom aftur til Nd., komst ekki hækkunartillaga, sem jeg bar fram, undir atkv. Væri það því ekki nema sanngjörn uppbót fyrir það, að styrkurinn yrði hækkaður nú. Annars er maðurinn svo alkunnur hjer, að jeg þarf ekki að lýsa honum eða starfsemi hans. En nú er svo ástatt fyrir honum, að sjálfs hans sögn, að ekki er nema um tvent að velja, annaðhvort verður hann nú að hætta alveg námi sínu og láta við það sitja sem komið er, eða þá að taka síðasta sprettinn nú undir eins. Hann hefir nú um alllangan tíma ekki átt kost á því að njóta kenslu eða iðka list sína á hæfileg hljóðfæri, svo að hann kveðst heldur hafa tapað á síðasta ári en hitt. Ef Alþingi vildi stuðla að því nú með ríflegri styrkveiting, að hann næði fullkomnun í list sinni, mundi sjálfsagt ekki þurfa að óttast, að hann leitaði aftur á náðir þingsins. Í fyrra voru lesin upp hjer meðmæli þau, sem hann hefir frá kennurum sínum, og voru þau mjög lofsamleg, og get jeg látið mjer nægja að vísa til þeirra. Efast jeg ekki um, að hv. deild muni telja hann maklegan alls hins besta.

Í sambandi við þetta vil jeg einnig minnast á aðra till. sem jeg á, sem sje um dálítið framlag, 1500 kr., til hljóðfæraskólans í Reykjavík. Við 2. umr. var styrkur til þessa skóla feldur hjer, sennilega af því að hann hefir þótt of hár, en er nú farið fram á minna. En þessi hv. deild hefir við ýms önnur tækifæri sýnt það, að hún hefir áhuga á eflingu sönglistarinnar, og mun því væntanlega ekki bregðast í þetta skifti. Hljómlistarþroskinn gæti líka mjög stuðlað að því að auka þekkingu á landi okkar og þjóð erlendis og að því að koma okkur í samband við aðrar menningarþjóðir og á bekk með þeim. En þessi skóli er einmitt til þess ætlaður að auka hjer hljómlistarþekkingu og áhuga, og má mikils af honum vænta, ef hann er sæmilega styrktur, svo að hann geti starfað.

Þá á jeg einnig brtt. við staflið 18, um það að hækka styrkinn til templarareglunnar. Það hefir komið til mála að láta alt fje, sem af áfengisversluninni kæmi, renna til eflingar bindindisstarfsemi í landinu, en jeg geri ekki ráð fyrir því, að það nái fram að ganga. Hins vegar hefir starf templarafjelagsins nokkuð fallið í mola á síðustu árum, og því þörf á auknu fje til þess að koma því í fult fjör aftur, en hins vegar viðurkend nauðsyn þess, að svo sje. Ef mönnum þætti aðaltill. of há, hefi jeg haft aðra til vara og vænti þess, að hv. deild samþykki aðrahvora.

Við staflið 28 á jeg líka litla brtt., þar sem um er að ræða smávegis styrk til prestsekkju einnar. Hún er nú komin á grafarbakkann og lifir við þröngan kost, en langar til þess, eins og hún segir, að eiga fyrir útförinni sinni. Mun jeg ekki þurfa að mæla meira fram með þessu, því jeg efast ekki um, að hv. deild samþykki þetta. Jeg get þó aðeins drepið á það, að þessi kona var fyrirmyndar búkona á sinni tíð og var forvígiskona ýmsra nýmæla í sinni sveit, einkanlega garðræktar. Hún hefir nú verið ekkja í meira en 20 ár og aldrei fengið styrk umfram lögmælt eftirlaun, er munu vera eitthvað á annað hundrað króna.

Loks á jeg brtt. á þskj. 385, við 23. gr. tölulið 8, um að stjórn Landsbankans heimilist að greiða fyrverandi starfsmanni sínum, Árna Jóhannssyni, nokkur eftirlaun. Hann var eins og kunnugt er útibússtjóri bankans á Eskifirði, en gat ekki verið þar til lengdar, aðallega vegna heilsuleysis konu sinnar, og svo sjálfs sín; honum hafði verið veitt það starf einmitt vegna kunnugleika hans á Austfjörðum. Hann hafði áður en hann fór orðið að selja hús sitt hjer í Reykjavík fyrir lítið verð, en skömmu síðar hækkuðu öll hús í verði, og beið hann yfirleitt allmikið fjárhagslegt tjón við þessa hrakninga. Auk þess má geta þess, að ýmsum fanst þessi maður hafa verið órjetti beittur áður, er bókarastaðan við Landsbankann var veitt síðast. En um það skal jeg ekki dæma. Þá tókst svo slysalega til, að þegar hann slepti útibússtjórastöðunni, gat hann ekkert starf fengið hjer við bankann. Áður hafði hann haft þar allvel launaða stöðu og var talinn með færustu starfsmönnum bankans og öllu nákunnugur í bankanum. Nú hefir hann að vísu einhverja stöðu við Íslandsbanka, en við lítil laun, og er honum því bæði þörf þessara litlu launa og á sanngirniskröfu á þeim.