18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (742)

1. mál, fjárlög 1924

Forsætisráðherra (SE):

Það var ekki til að spilla fyrir málinu, er jeg, þegar háttv. frsm. (MP) talaði um lán handa efnismönnum til lokanáms, skaut að honum ákvæðinu um tryggingarnar. Ef fylgja á sömu reglu með þessi lán og önnur, og það mundi stjórnin gera, ef henni kæmi ekki heimild til annars, sem sje að heimta veð í fasteign, þá kemur lánsheimildin að litlu gagni. Þeim, sem eiga slíkar eignir, verður sjaldan vant til fjár í öðrum peningastofnunum landsins. Jeg leyfi mjer að benda hv. fjvn. á þetta.

Þá vil jeg minnast á örfáar brtt. og er þá fyrst brtt. nr. VII á þskj. 369, frá hv. 1. þm. N.-M. (ÞorstJ), um utanfararstyrk til barnakennara. Jeg vil mæla með þessari brtt. Mjer er kunnugt um, að kennarar hafa notað sjer styrk þennan mjög vel undanfarið og haft mikið gagn af, enda er þeim bráðnauðsynlegt að fylgjast með andlegum straumum í hinum mentaða heimi.

Þá kem jeg að XXXVI. brtt. á sama þskj., frá háttv. þm. V.-Sk. (LH), um að dýrtíðaruppbót Björns Sigurðssonar fyrrum bankastjóra falli niður. Eins og kunnugt er, gegndi hann bankastjórastöðunni fram að ófriðarárunum, þá er hann var tekinn frá því starfi og varð sendimaður stjórnarinnar í London. Vann hann það starf sem önnur með stakri samviskusemi, og munu kunnugir votta, að dugnaður hans hafi verið landinu drjúgur í ýmsum málum, þótt ekki sje það í hámælum haft. Um það leyti, sem hann dvaldi í London, var þar alt annað en skemtilegt. Sífeldar loftárásir og hernaðarráðstafanir hrjáðu fólkið á allar lundir. Enda hrakaði heilsu hans svo á þessum árum, að hann er nú svo að segja gersamlega heilsulaus maður, og þar að auki fjelaus. Hefir hann bygt á því að halda þessum launum óbreyttum og spurði hann mig, áður en hann fór hjeðan, hvort sjer væri það ekki óhætt. Taldi jeg engan efa á því og tel ekki enn, því jeg veit, að hið háa Alþingi skerðir í engu eftirlaun þessa mæta manns, ekki síst þegar þess er gætt, að vegna veru sinnar í London misti hann heilsuna; annars væri hann líklega bankastjóri enn.

Þá eru nokkrar brtt. minni hl. fjvn. Fyrst er að hækka styrkinn til listaverkakaupa úr 4000 kr. upp í 6000. Vil jeg mæla með þessari till., en annars talaði hv. flm. (BJ) svo vel fyrir þessu máli, að jeg get þar engu við bætt. Jeg hefi aldrei sjeð betur en nú, hversu örðugt er að úthluta styrknum til listamanna. Stjórninni barst fjöldi umsókna með ágætustu meðmælum, en — fjeð var svo lítið. Mörgum varð að sleppa, og þó fjekk enginn meira en hann átti skilið. Miklu fremur hið gagnstæða.

Sömuleiðis vil jeg mæla með fjárstyrk til að gefa út Lög Íslands. Kæmi sjer mjög vel að því verki væri haldið áfram.