18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (744)

1. mál, fjárlög 1924

Þorleifur Guðmundsson:

Jeg á eina brtt. á þskj. 369, sem jeg vona, að háttv. deild taki vel á móti. Þetta er 15000 kr. fjárveiting til nýrrar símalínu frá Þorlákshöfn að Nesi í Selvogi. Vegalengdin mun vera um 15 km. Brtt. þessi er borin fram af því, að Selvogshreppur er mjög afskektur, og eiga íbúar hans mjög erfitt með að ferðast, þar sem þangað liggja engir akvegir, og ekki er útlit fyrir, að þeir verði lagðir í náinni framtíð. Einnig er mjög örðugt um samgöngur á sjó þangað, því að svo brimasamt er þar, að engum strandferðabátum nje skipum er ætlað að koma þangað, frekar en til annara sjávarplássa austanfjalls. Ganga íbúarnir því svo að segja á mis við flest þægindi nútímans, sem ríkissjóður veitir öðrum, en borga þó í hann fult eins og aðrir, en njóta aftur einskis úr honum. Virðist því eigi aðeins sanngjarnt, heldur sjálfsagt, að unna þessum mönnum þeirra einu þæginda, sem hugsanlegt er, að þeir fái notið, án tilfinnanlegs kostnaðar fyrir ríkissjóð. Einnig vil jeg taka það fram, að ein ástæðan fyrir því, að mikil nauðsyn er að fá símalínu þessa, er sú, hversu erfitt er að ná til læknis úr Selvogi, því að það má nær því heita ógerningur, þar sem yfir mjög vondan veg er að fara og á leiðinni eru bæði sandar og stórt ferjuvatn. Væri það því mikil bót, ef hægt væri að tala við lækninn áður en farið væri af stað og fá hann á móti sjer. Gæti símalínan því í mörgum tilfellum orðið til þess að frelsa líf veikra manna í Selvogi. Þá vil jeg geta þess, að þessi símalína gæti komið til með að hafa mikla þýðingu fyrir sjávarútveginn þar eystra, því að hjá Selvogi eru fiskimið góð, og þangað róa því mótorbátar til fiskjar bæði frá Eyrarbakka og Stokkseyri. En það kemur oft fyrir, að vjelar bila hjá þeim, og veit þá enginn á Eyrarbakka, hvað af þeim er orðið. Væri því einkar hentugt að geta símað frá Selvogi til Eyrarbakka, til þess að láta vita um bátana og jafnframt fá hjálp handa þeim. Þetta gæti því í mörgum tilfellum orðið til þess að bjarga lífi margra manna.

Vona jeg því, að háttv. deild líti svo á, að vel sje verjandi 15000 krónum til þess að bjarga lífi, þó ekki væri nema 10–12 manna í hvert sinn.

Jeg hefi átt tal um línu þessa við landssímastjóra, og er hann því hlyntur, að hún komi sem fyrst, þrátt fyrir það, þó að mikið sje fyrir af línum, sem þurfi að leggja. En mjer er mikið áhugamál, að lína þessi komist inn í fjárlögin 1924, því að þær línur er í venjulega lagðar fyr, sem komnar eru inn í fjárlögin, en hinar, sem standa þar ekki. Jeg vil líka reyna eins og jeg get að greiða fyrir þessum fáu og fátæku mönnum, því að jeg veit, að það eru fáir, sem leggja sig í líma til þess að tala máli þeirra „fáu, fátæku og smáu“. Og jeg á ekki víst, að þeir eigi sæti næst á hinu háa Alþingi, sem muna eftir íbúunum í Selvoginum, því að þeir eru svo fáir, að þeir ríða lítinn baggamun á kosningarnar í Árnessýslu.

Þá vil jeg geta þess, að Selvogurinn er sjerlega vel lagaður til nýbýla, ef sú hugsjón kemst í framkvæmd, svo vel, að óvíða mun eins vel til fallið að byggja nýbýli eins og einmitt þar. Því að þar eru flest þau skilyrði fyrir höndum, sem þurfa til þess að geta lifað á slíkum smábýlum, því að þar er mikið land, sem hentugt er til túnræktar, og jafnframt heiðalönd mikil, sem eru góð til útbeitar; einnig er þar fjárbeit góð og útræði er þar gott og fiskisæld mikil, svo nýbýlingarnir geta farið rjett út fyrir landssteinana til þess að sækja sjer í soðið, þegar þeir þurfa og hafa tíma frá jarðræktarstörfum sínum.

Einnig eru þar góð skilyrði til garðræktar, því að landið er fyrst og fremst hentugt, og svo er gnægð áburðar við sjóinn. Það er því áreiðanlegt, að ef hlynt er að þessu plássi, þá á það mikla framtíð fyrir höndum og hlýtur að aukast að íbúum, sem allir geta haft skilyrði til þess að geta lifað sæmilega. Mjer finst því, að allir háttv. deildarmenn, sem fylgjandi eru nýbýlahugmyndinni, ættu að styðja þessa fjárveitingu, því að, þótt landið sje gott og öll skilyrði fyrir hendi til nýbýlaræktar, þá er þó víst, að menn snúast ekki að því ráði fyr en komið er þangað símasamband. Því eins og kunnugt er, una menn því illa nú orðið að vera útilokaðir frá öllu sambandi við umheiminn. Það er því hið allra fyrsta skilyrði til þess, hægt sje að nota hið ákjósanlegasta land, sem til er sunnanlands til nýbýlaræktunar, að koma Selvogi sem allra fyrst í símasamband.

Þá á jeg aðra mjög fallega brtt. á þskj. 369, við 16. gr. fjárlagafrv. Gengur hún í þá átt að veita Skeiðaáveitufjelaginu 16000 kr. styrk. Það er ekki að nauðsynjalausu, að jeg flyt þessa styrkbeiðni. Því eins og háttv. deildarmönnum er kunnugt, hefir Skeiðaáveitufyrirtækið mishepnast svo gersamlega, að engin von er til þess, að Skeiðamenn geti risið undir þeim mikla kostnaði, sem af því leiðir, þar sem það varð svo óumræðilega dýrt, að í stað þess, sem áætlað var eftir mælingum verkfræðings ríkisins, 107 þús. kr., mun kostnaðurinn verða um 400 þús. kr. Að vísu leggur ríkissjóður fram 14 kostnaðar, en þá eru eftir 300 þús., sem skiftast á 33 býli, sem eru á áveitusvæðinu. Þessir menn eiga því fullan rjett á því, að ríkissjóður bæti þeim þann mikla skaða, er þeir hafa orðið fyrir sökum þessarar vitlausu áætlunar; að minsta kosti það, sem kostaði að vinna klöppina, sem verkfræðingi ríkisins sást alveg yfir að finna, og tók því aldrei með í áætlunina. Og þar sem nú bændurnir á áveitusvæðinu bygðu einungis á áætlun ríkisverkfræðingsins, er auðsætt, að þeir eiga hjer enga sök á, hvernig komið er, heldur starfsmaður ríkisins, sem ríkið hlýtur að bera ábyrgð á. Eiga því bændur þessir kröfu á því, að ríkissjóður greiði þeim það, sem kostnaðurinn verður fram yfir það, sem áætlað var. Og geri ríkissjóður það ekki, verður það út úr, að menn þessir rísa ekki undir þessari miklu byrði, og má því búast við, að annaðhvort missi landið þetta hjerað eða verði að taka það upp á sína arma, og gæti það orðið meira tap fyrir landið en þó borga þyrfti þennan styrk nú.

Vona jeg því, að háttv. þm. greiði atkvæði með styrkbeiðninni, svo bændurnir þurfi ekki að hrökklast frá búum sínum og sveitin leggist ekki í eyði þar af leiðandi. Það er hart fyrir bændur landsins að verða svo illa fyrir barði vanþekkingar og vanrækslu verkfræðinga ríkisins.