18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (746)

1. mál, fjárlög 1924

Einar Þorgilsson:

Jeg á hjer eina brtt. á þskj. 369. Í till. þessari er farið fram á, að ekkjunni Sigríði Halldórsdóttur Jónsson verði veittur 300 kr. styrkur. Er till. þessi líklega ein af þeim, er háttv. frsm. lýsti yfir í framsöguræðu sinni, að nefndin mundi verða á móti, því að hann sagði, að hún mundi verða á móti öllum breytingartill. á því skjali, sökum þess að ástæðurnar fyrir brtt. væru henni ekki ljósar, Vil jeg nú geta þeirra ástæðna, sem liggja til grundvallar þessari brtt., og vænti, að þeim yfirveguðum, að háttv. fjárveitinganefnd, eins og aðrir háttv. þingdeildarmenn, muni geta fallist á, að þær sjeu nægar og styrkbeiðnin sanngjörn, og þá jafnframt með tilliti til þess, að flestar eldri embættismannaekkjur hafa orðið aðnjótandi samskonar styrks.

Ekkjufrú Sigríður Jónsson er ekkja eftir Janus heitinn prófast Jónsson, er andaðist síðastliðið haust.

Hann ljet af prestsskap 1908 og stundaði eftir það kenslu við Flensborgarskólann í Hafnarfirði. Í laun fyrir kenslustarfið mun hann hafa haft 1100 kr., og auk þess naut hann eftirlauna sinna, 400 kr., með dýrtíðaruppbót. Þessar tekjur munu nokkurn veginn hafa nægt heimilinu til framfærslu fram að heimsstyrjaldarárunum, en eftir það hrukku þær ekki nándar nærri til. Eyddust því efni þeirra hjóna mjög, eftir að þau fluttu til Hafnarfjarðar, og munu nú mjög til þurðar gengin.

Jeg vil taka það fram, að ekkjan á lítið íbúðarhús, sem hún býr í, og þarf því ekki að gjalda öðrum fyrir húsnæði; en hins vegar er það svo lítið, að ekki er hægt að njóta af því annara tekna.

Ekkjan er orðin mjög aldurhnigin, 71 til 72 ára, og verður því að hafa stúlka sjer til aðstoðar, en nýtur nú ekki annara tekna en eigna sinna, sem mjer er ekki kunnugt um, að sjeu miklar, og svo þeirra litlu eftirlauna, er hún lögum samkvæmt fær eftir mann sinn.

Býst jeg við, að háttv. deild líti svo á, þar sem það hefir verið nær ófávíkjanleg regla, að prófastsekkjur nytu samskonar styrks, sem með breytingartill. er farið fram á, að hjer sje um rjettmæta styrkbeiðni að ræða, og greiði vel fyrir till. Fel jeg háttv. deild hana í því trausti.