18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (750)

1. mál, fjárlög 1924

Stefán Stefánsson:

Þótt nafn mitt standi hjer ekki á neinni brtt., þá langar mig til að lýsa ánægju minni yfir því, að háttv. fjvn. hefir tekið upp till. mína, þótt seint sje, um að ríkið veiti styrk til hafskipabryggjugerðar á Siglufirði. Enda er það svo, að eins og við horfir, þá er með öllu óforsvaranlegt, að á Siglufirði, þar sem eru svo afarmargar skipaviðkomur og ein besta og öruggasta höfnin á Norðurlandi, skuli ekki vera til ein hafskipabryggja, sem gæti verið almenningi til nota. Og þegar litið er til þessa framlags frá ríkinu, má líka minnast þess, hvað Siglufjörður lætur af mörkum til ríkisþarfa, að þessi upphæð er þar alveg hverfandi. Jeg hygg, að þessi upphæð fari ekki yfir 4% af því fje. Annars hefir þetta mál verið til meðferðar hjá Siglfirðingum um mörg ár. 1918 var gerð áætlun af verkfræðingi ríkisins um byggingu hafskipabryggju, og nam sú kostnaðaráætlun alt að 600 þús. kr., og vegna þess, að áætlunarupphæðin var svo gífurlega há, þá sáu Siglfirðingar sjer engan veginn fært að ráðast í svo stórvaxið mannvirki. Síðan eru nú liðin 5 ár, og þar sem bæði efni og vinna haldast enn í háu verði, þá hafa þeir nú ráðið það af að byggja aðeins nokkurn part bryggjunnar, sem hafskip eiga að geta lagst við, og kemur því að mjög miklum notum. Er áætlað, að sú bryggja kosti 52 þús. kr., og af því er aðeins óskað eftir tæpum 1/3 parti úr ríkissjóði. Jeg vona, að háttv. þm. sjái nauðsyn þessa máls, enda er hin fylsta sönnun fyrir henni það, að Siglfirðingar vilja leggja á sig 2/3 kostnaðarins, sem verður að minsta kosti 36000 kr.