18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í B-deild Alþingistíðinda. (752)

1. mál, fjárlög 1924

Sigurður Stefánsson:

* Jeg á hjer eina brtt., á þskj. 365, um að hækka útgjöld ríkisins um 100 kr. Hefði jeg ekki vitað, að þetta var sú allraminsta styrkveiting sem nú er farið fram á, og engan veginn sú óþarflegasta, þá hefði jeg ekki þorað að koma fram með þessa brtt. Mjer lætur illa að koma með svona tillögur. Jeg ætla ekki að byrja meðmæli mín með þeim manni, er hjer á hlut að máli, með því að segja, að hann sje ungur og efnilegur og mikið í húfi fyrir Alþingi, ef það synjaði honum um styrk. Þessi styrkur byggist ekki á björtum framtíðarvonum, heldur á 60 ára erfiðu æfistarfi, sem þessi maður hefir unnið. Hann er nú háaldraður, 83 ára, og hefir varið allri sinni æfi til ritstarfa, til að skrifa upp ættartölur og prestaæfir. Að því hefir hann unnið í hrörlegum kofa, við hin aumlegustu efni, því að alla tíð hefir maðurinn barist við fátæktina, og loks hefir baslið gengið af honum hálfdauðum. Þótt hann sje orðinn andlega nokkuð hrumur, þá er hin líkamlega heilsa hans mun verri. Eftir aldri hans að dæma, má segja, að sálarkraftar hans sjeu mjög góðir. Rithönd hans er enn þá góð, og get jeg synt dæmi upp á það í háttv. deild, ef þess verður óskað. Hann byrjaði þetta ritstarf sitt, er hann var um tvítugt. Síðan hefir hann skrifað ósköpin öll, og mestalt af því á knje sjer, á milli sjóróðra í frostköldum verbúðum. Því miður hefi jeg ekki getað kynt mjer ritverk hans, en aðeins sjeð þau í svip, og er jeg því ekki fær um að dæma um gildi þeirra. Það kann að vera, að verk hans sjeu ekki mjög „kritisk“, en hitt er víst, að þau innihalda mikinn fróðleik og eiga að verða eign landsins eftir hans dag, eftir því sem jeg hefi sannast heyrt. Undanfarin ár hefir maður þessi notið styrks úr ríkissjóði, en sá styrkur var lækkaður í sparsemdaruppþotinu í fyrra. Nú er ekki farið fram á annað en að þessi fátæklingur megi fá sama styrkinn aftur. Jeg veit, að það eru tveir aðrir heiðursmenn, sem stendur líkt á með og um þennan mann, en hvorki eru ástæður þeirra eins illar og hans nje verk þeirra svo mikil að vöxtunum sem hans. Hann hefir nú ekkert til að lifa af, nema þennan styrk, sem allir sjá, að er mjög lítill. Hins vegar verður hann varla til að skapa ríkissjóði löng útgjöld, því að hann er nú eðlilega farinn að búast við dauða sínum þá og þegar. Þessi gamli maður hefir upp á síðkastið átt bágast með að ná í ýms hjálparmeðul til iðju sinnar, t. d. ritföng, tímarit og bækur, sem er honum alt nauðsynlegt. Jeg vona fastlega, að deildin setji ekki fyrir sig svona lítil útgjöld, þar sem hjer er viðbúið um svo stuttan tíma að ræða, er maðurinn á eftir ólifað. Jeg skal ekki meira tefja umræður um þetta mál, en hvað snertir aðrar brtt., sem hjer hafa fram komið, þá mun jeg aðeins sýna afstöðu mína til þeirra með atkvæði mínu. Þó skal jeg taka það fram um brtt. háttv. þm. Dala. (BJ) um hækkun á styrk til Sveinbjarnar tónskálds, að jeg mun óhikað greiða atkvæði með henni og teldi það þjóðarminkun, ef við ljetum ekki fara sæmilega vel um þennan nafnkunna gest okkar meðan hann gleður okkur með hjerveru sinni.

*Ræðan óyfirlesin af þm (SSt).