18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í B-deild Alþingistíðinda. (753)

1. mál, fjárlög 1924

Jón Þorláksson:

Jeg á eina brtt. við 13. gr. B, þess efnis að veita 20 þús. kr. til að endurreisa gistihús við Geysi. Það var minst á sölu og niðurrif gistihúss þessa við framhald 1. umr. fjárlaganna, en þá var ekki gerð fullnægjandi grein fyrir því, hvaða ástæða hefði verið til þess að rífa húsið niður. Það hefir hins vegar verið bent á, hvílík þörf væri að hafa gistihús á þessum stað. Nú er sá ráðherra, sem mesta ábyrgð ber á þessu tiltæki, búinn að sækja um lausn, og þess vegna er ekki rjett að rekja málið jafnrækilega og ella hefði verið ástæða til að gera. Þó er eitt atriði í þessu máli, sem er þannig vaxið, að það má ekki vera óumtalað vegna síðari tíma. Hjer var seld og eyðilögð fasteign, sem landið átti, án nokkurs leyfis eða lagalegrar heimildar; en stjórnarskráin mælir svo fyrir, að enga slíka fasteign megi láta af hendi án sjerstakrar lagaheimildar. Þetta hús var bygt 1907 á landsins kostnað. Jeg álít, að eftirleiðis verði að ganga ríkt eftir því, að stjórnarskránni sje fylgt í þessum efnum, svo að enginn einstakur ráðherra gerist svo djarfur að ganga í berhögg við það, sem í henni stendur.

Jeg vil þá fyrst gera háttv. deild grein fyrir því, hvers vegna jeg hefi borið þessa brtt. fram sem viðaukatillögu við vegamálastaflið 13. gr. fjárlaganna. Það er af því, að jeg álít, að hvert gistihús, sem bygt er á landsins kostnað, eigin eins og sæluhús og önnur slík skýli fyrir ferðamenn, að vera undir umsjón vegamálastjóra. Þetta gistihús við Geysi á því einmitt heima undir þessum lið. Landið á ýms slík gistihús. t. d. á Kolviðarhóli og víðar, og lúta þau undir stjórn vegamálastjóra. Þar sem nú er ekkert gistihús eða neitt skýli við Geysi, verða gestir, er þangað koma, að gista víðsvegar og langt á braut þaðan. En búendur í nágrenni við Geysi hafa margir, vegna ánauðar, orðið að auglýsa, að þeir úthýstu ferðamönnum. Hverirnir þarna eru sú þjóðargersemi, sem verður að sýna sóma, og þarna verður því að vera gistihús. Er engum öðrum til að dreifa en landssjóði að byggja það. Jeg get skilið, að ýmsir háttv. þm. leggist á móti þessu og beri fyrir sig í því efni illar fjárhagsástæður landsins, og að þing og stjórn vilji því ef til vill skjóta máli þessu á frest; en jeg skil ekki framkomu háttv. 1. þm. Árn. (EE) í þessu máli, er hann ber fram brtt. um fjárveitingu til einhvers óákveðins staðar í Gnúpverjahreppi, til að reisa þar gistihús. Slíka brtt. er hreinasta fjarstæða að bera fram. Það mætti alveg eins bera fram till. um að byggja gistihús í hverjum einasta hinna 200 hreppa landsins. því landssjóði bæri þá alveg eins skylda til þess. Hann hefir alveg jafnar skyldur við þá alla. Að öðru leyti þarf jeg ekki að eyða frekari orðum að þessari tilraun hans til þess að spilla fyrir gistihúsbyggingu við Geysi, en lýk orðum mínum með því, að bæði af því að jeg sje erfiðar ástæður landssjóðs og finn mótstöðu þm. þessa kjördæmis, sem gistihúsið verður í, þá tek jeg þessa brtt. mína aftur.

En svo ætla jeg að vona, að háttv þm. gjaldi mjer þennan verkaljetti með því að hjálpa mjer og öllum góðum mönnum til þess að fella brtt. háttv. 1. þm. Rang. (GunnS) um að færa styrkinn til „Dansk- islandsk Samfund“ niður, úr 1000 kr. niður í 300 kr. Jeg færði fram ástæður mínar fyrir þessari styrkveitingu við 2. umr., og mælti þá enginn verulega á móti þeim, nema hann, og nú reynir hann að setja þetta fjelag við hlið ýmsra fjelaga hjer í bænum, svo sem „Alliance francaiee“, „Anglia“ og „Germania“ o. s. frv., sem alls ekki eru sambærileg. Eru þetta samkvæmisfjelög þeirra þjóða manna, sem hjer dvelja, og starfa aðallega til þess að halda uppi fjelagslífi meðal þeirra og þeirra manna, sem þeir hafa saman við að sælda eða eru í vinfengi við. Vona jeg, að háttv. þm. hafi, af því, sem jeg þá sagði, sannfærst um, að starfsemi og afköst þessa fjelags eru svo mikil, að enginn samanburður á því og áðurefndum samkvæmisfjelögum kemst að. Fjelagið hefir auk þess tvær deildir, og starfar önnur í Danmörku, en hin hjer, og er starfsemi deildarinnar í Danmörku af engu minna krafti rekin en þeirrar, er hjer starfar.

Háttv. 1. þm. Rang. vildi miða styrkinn við fólksfjölda landanna; en það á alls ekki við. Fjelagið vinnur meira í þágu Íslands en Danmerkur. Það lætur mörgum Íslendingi, sem til Kaupmannahafnar kemur, nauðsynlegar upplýsingar og ýmiskonar aðstoð í tje, og satt að segja, ef fara skal í metnað um þetta mál, þá ættu bæði löndin að leggja fram sömu upphæð; en hjer er aðeins beðið um 1/10 af því, sem Danir leggja fram.

Þá vil jeg minnast á aðra brtt., sem jeg á, og jeg vona, að allir góðir Íslendingar í háttv. deild hjálpi til að afstýra því, að bögumæli komist inn og nái festu í máli, eins og rafveita, raftæki o. s. frv. Menn ættu ekki að venja sig á að telja eftir sjer að taka miðhluta orðanna með; þetta enn tæki til þess að veita rafmagni, en ekki rafi. Vænti jeg, ef brtt. nær samþykki þingsins, að sama málrjetting verði færð alstaðar inn í fjárlögin, þar sem þetta latmæli kemur fyrir.