18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (760)

1. mál, fjárlög 1924

Frsm. samgmn. (Þorsteinn Jónsson):

Mjer láðist í fyrri ræðu minni að minnast á eina breytingartill. mína, sem sje tillöguna um utanfararstyrk barnakennara. Jeg þarf ekki að fjölyrða um hana. Eins og háttv. þingmönnum er kunnugt, hefir þessi styrkur verið veittur í fjárlögum síðan 1914; en þingið í fyrra feldi hann niður í sambandi við vonsku sína við alt, er að barnafræðslu laut. Jeg get þakkað hæstv. forsætisráðherra (SE) fyrir að hann veitti þessu máli stuðning og meðmæli. Allir háttv. þm. ættu að sjá nauðsyn þessarar fjárveitingar. Það er ekki vanþörf á, að einn maður úr hinni fjölmennu kennarastjett færi utan á hverju ári, til þess að afla sjer fyllri mentunar og kynnast nýungum í kenslumálum. Við erum svo mikið út úr menningarstraumnum og nógu langt á eftir öðrum þjóðum samt. Enda veitir ekki af þessu, eftir þeim anda, sem nú ríkir hjer hjá þingmönnum í þessum efnum, og skilningsleysi sumra þeirra á barnafræðslunni.

Þá þarf jeg sem frsm. samgmn. að svara aðfinslum nokkurra þingmanna í garð samgmn. út af ferðaáætlunaruppkasti, sem hún hefir samið fyrir Esju. Háttv. frsm. fjvn. vítti samgmn. fyrir það, að áætlunin hefði ekki gengið á milli þingmanna; það hefði áður verið föst venja. Þetta er ekki rjett; það hefir ekki verið venja, heldur hafa þeir þingmenn, sem óskað hafa eftir því, fengið að sjá hana hjá nefndinni. Annars fæ jeg ekki sjeð, að ferðaáætlun Esju geti verið hjer til umræðu. Hjer í umræðum um fjárlögin þarf aðeins að tala um styrk til strandferðanna. Og í sambandi við strandferðastyrkinn hefi jeg tekið það fram, að samgöngumálanefnd ætlast til, að önnur tilhögun verði á strandferðunum en áður hefir tíðkast. Samgöngumálanefndir heggja deilda sendu sitt uppkastið hvor að áætlun fyrir Esju til framkvæmdarstjóra Eimskipafjelagsins, án samvinnu milli nefndanna, og jeg veit, að tillögur þeirra hafa ekki verið samhljóða að öllu leyti. Jeg býst við, að þeir þm., sem það vildu, hafi getað fengið að sjá áætlunaruppkastið hjá formanni nefndarinnar. (MG: En sú náð!) Að það var sent svo fljótt, stafaði af því, að Nielsen framkvæmdarstjóri bað um að fá tillögur nefndarinnar áður en Esja færi frá Kaupmannahöfn.

Svo skal jeg taka það fram, að það ber alls ekki að líta á þetta uppkast sem fullnaðaráætlun; það er samið eftir tilmælum framkvæmdarstjóra Eimskipafjelagsins; en það er aftur hans verk og landsstjórnarinnar að semja fullnaðaráætlun. Verk samgöngumálanefndar er aðeins að marka fyrir aðalatriðunum. Annars er rjettast fyrir þingmenn að snúa sjer til framkvæmdarstjórans með sínar athugasemdir og breytingar, ef þeir álíta, að samgöngumálanefnd hafi ekki gengið nógu vel frá tillögunum.

Háttv. 2. þm. Skagf. taldi eðlilegast, að Esja kæmi við á sem flestum smáhöfnum, sem flóabátar koma ekki á. Ef einstakir þingmenn gætu togað ferðaáætlunina á milli sín, þá yrði sennilega raskað þeim grundvelli, sem nefndin hefir hugsað sjer. Eins og jeg tók fram. hefir hún og útgerðarstjóri einmitt ætlast til, að strandferðirnar yrðu öðruvísi en áður, þannig að skipið kæmi fremur sjaldan á smáhafnir, til þess að það geti farið sem hraðastar og flestar ferðir.

Jeg álít ekki rjett, að samgöngumálanefndin eða þingið geri þessa ferðaáætlun, heldur framkvæmdarstjórinn. Það lendir jafnan í reiptog meðal þingmanna utan og innan nefndarinar; en hitt er rjett, að þingið gefi bendingar um aðaltilhögun ferðanna.

Háttv. 2. þm. Skagf. taldi hlut Skagafjarðar borinn fyrir borð, samanborið við Eyjafjörð, eftir uppkasti nefndarinnar, og kendi því um, að enginn Norðlendingur hefði verið í nefndinni. Í Ed.-nefndinni er þó einn Norðlendingur. En nefndin hefði þó ekki fremur fyrir það átt að hafa hvöt til að taka Eyjafjörð fram yfir Skagafjörð.

Háttv. 2. þm. Skagf. (JS) var að bera saman Ólafsfjörð og Hofsós, og þótti hinn síðarnefndi vera misrjetti beittur um viðkomur strandferðaskipsins. En þessar hafnir eru ekki saman berandi; það er svo miklu fleira fólk í Ólafsfirði en á Hofsósi. Þar að auki er mikil útgerð á Ólafsfirði, en jeg held engin á Hofsósi. Sama er að segja um Haganesvík og Dalvík; hin síðarnefnda er miklu fólksfleiri.

Þá gat háttv. þm. um flóabát á Eyjafirði; en hann er enginn; þar er aðeins póstbátur, með styrk úr ríkissjóði til póstflutninga. Hv. sami þm. talaði um, að það væri komið í ljós, að Esja væri svo dýrt skip, að hún mundi verða ein af vandræðaeignum ríkisins.

Það er leitt að heyra þennan hrakspádóm einu dægri áður en skipið kemur til landsins. Það væri eðlilegra, að öllum landsmönnum væri það gleðiefni, að landið hefir eignast svo gott og vel útbúið strandferðaskip, og jeg veit ekki, á hverju þessi spádómur er bygður. Jeg álít, að það sje betra fyrir menn að fara eina dagleið eða svo landveg af smærri höfnum til þeirra stærri, svo að þeir fái fljótari sjóferð og um leið miklu ódýrari. Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta meira, en vil benda háttv. 2. þm. Skagf. og öðrum, sem eru óánægðir með till. samgöngumálanefndar, að fara til framkvæmdarstjóra Eimskipafjelagsins, ef þeir vilja fá bót á þeim.