18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

1. mál, fjárlög 1924

Jón Þorláksson:

Háttv. 1. þm. Árn. (EE) gerði deildinni þann greiða að taka upp aftur brtt. mína um byggingu á Geysishúsinu, svo hún er þá enn til umræðu. Jeg vil þá fyrst halda uppi vörn fyrir Geysi gamla. Háttv. þm. (EE) taldi hann ekki hafa annað til gildis en forna frægð og að hún mundi visna undan tímans tönn, eins og gengur um frægðina. En það er nú svo um Geysi og hverina umhverfis hann undir Laugafjalli, að þeir eru ennþá einsdæmi í Norðurálfunni utan Íslands. Og ferðamenn hjer í álfu, sem vilja sjá slík náttúruundur, sækja því auðvitað hingað í þeim erindum. Það má óhætt gera ráð fyrir, að þessir hverir haldi áfram um okkar daga að draga hingað ferðamenn.

Þá talaði háttv. þm. um, að húsið hefði ekki verið notað sem gistihús upp á síðkastið. Jeg hefi sjálfur gist í húsinu og fengið frá öðrum mönnum hjer í bæ staðfestar umsagnir og upplýsingar, síðan þm. hjelt ræðu sína, um, að þeir hafi einnig gist þar. Það er að vísu satt, að eldhús vantaði í húsið, svo að gestir urðu að sjá um sig sjálfir að því er nesti og útbúnað snerti, eða fá aðstoð til þess hjá bóndanum á Laug, þar sem gestir gátu keypt greiða, en engin húsakynni voru til gistingar. Þó vil jeg ekki fullyrða, hvort fólkið þar hafi á hverju sumri treyst sjer til þess að veita gestum beina; en venjulega hefir það verið svo. Um þörf fyrir gistihús á þessum stað má segja, að fyrir stríðið var hún mikil. Þá var mikill ferðamannastraumur, og fóru flestir til Þingvalla. Gullfoss og Geysis og þaðan til Heklu eða niður á undirlendið, og fóru þá fleiri niður á Skeiðin en austur í Hreppa. Tilhögun þessara ferða var venjulega þannig, að ferðamenn gistu tvær nætur við Geysi og var dagurinn á milli notaður til þess að skoða Gullfoss. Enda er vegalengdin þangað ekki meiri en svo, að þægilegt er að fara það á stuttri dagstund.

Eins og menn vita, þá er verið að leggja flutningabraut eða akfæran bílveg frá aðalveginum hjá Ingólfsfjalli upp Grímsnesið til Geysis, og má búast við, að þá aukist mjög ferðamannastraumurinn, þegar hann er kominn á. Hjer við bætist, að vegamálastjóri landsins hefir verið að undirbúa framkvæmdir í þá átt að gera ferðafólki mögulegt að ferðast með litlum kostnaði um óbygðir hjer sunnan- og vestanlands. Hann hefir látið varða leiðina frá Geysi upp að Hvítárvatni og norður til Hveravalla, þaðan fyrir norðan Langjökul til Arnarvatns, en þaðan var áður varðað niður í Hvítársíðu í Borgarfirði. Sæluhús eru svo gerð eða fyrirhuguð við Hvítárvatn. á Hveravöllum og við Arnarvatn. Tilætlunin er sú, að gera gangandi mönnum kleift að fara hringferðina frá Þingvöllum til Geysis og þaðan upp á fjöllin og svo niður í Borgarfjörð. Unga fólkið sækir í það að komast út úr bænum og upp til fjalla, þar sem er stórfengleg náttúrufegurð. Á stríðsárunum stöðvaðist ferðamannastraumurinn hingað til landsins, en full ástæða er til að halda, að hann muni aukast aftur. En ekki verður því neitað, að skilyrðin fyrir því frá okkar hendi eru næsta ljeleg. Gistihúsin eru fá og ferðamönnum er illa við það að troða sjer inn á bændabýli, sökum þeirra óþæginda, sem það hlýtur að valda fólkinu, þó gistingin sje að öðru leyti viðunandi. Til þess því að ferðamenn geti haft nokkra viðdvöl í sumarferðum sínum, þarf fyrst og fremst að koma upp boðlegum gistihúsum á Þingvöllum, við Geysi og svo nálægt Ölfusá. Með því væri hægt að fara í hæfilega stóran hring, með viðdvöl í þessum gistihúsum eftir vild. Og þó menn annars hafi löngum gert lítið úr þeim hagnaði, sem ferðamannastraumurinn frá útlöndum hefir í för með sjer, þá verður því samt ekki neitað, að hann veitir afarmikla atvinnu fólki, sem á erfitt með að stunda önnur störf, svo sem námsfólki, sem annaðhvort hefir ekki þrek til eða kann ekki til sveitavinnu, auk þess sem það gefur mikla atvinnu fyrir hesta. Þá er það heldur ekki þýðingarlaust á þessum tímum, að hann flytur talsvert af erlendum gjaldeyri til landsins. Alt þetta var án efa vegamálastjóra ljóst, og þess vegna vildi hann bæta úr því, sem áfátt var með gistihúsið við Geysi. Var það endurbætt svo konungskomusumarið, að það gat komið að tilætluðum notum.

Fyrst svo mikið er búið að tala um þetta hús og aðgerðir stjórnarinnar í því máli, þá er rjett að geta um það, sem gert Var til að afstýra því, að húsið yrði selt og rifið niður. Þegar fyrst frjettist, að haft væri í hyggju að selja húsið til niðurrifs, þá leitaði vegamálastjóri til nokkurra manna hjer í bænum, hvort þeir vildu ekki eitthvað á sig leggja til þess að halda gistihúsinu uppi. Þessu var vel tekið, nægilegt fje bauðst og var gert tilboð í húsið, sem var hærra en það verð, sem það var síðar selt fyrir. Þá var sú ástæða fram borin, að selja þyrfti húsið nefnd, sem sjá átti um að koma upp læknisbústað í Laugarási, af því að annar trjáviður fengist ekki til byggingarinnar. Þá upplýstist það, að trjáviður var fáanlegur á Eyrarbakka, en þá var því borið við, að nefndin hefði ekki handbært fje, en gæti hins vegar ekki fengið timbrið að láni, en fengi húsið aftur á móti til láns. Þá var leitað til annars bankans hjer, til að vita, hvort hann væri ekki fáanlegur til að lána það fje, sem þyrfti til trjáviðarkaupa í húsið á Laugarási, til þess að bjarga Geysishúsinu. Bankinn tjáði sig fúsan til þess, en alt kom fyrir ekki.

Svona er þá gangur málsins. Jeg ætla mjer ekki að fara að koma með neinar ásakanir í garð hæstv. fráfarandi ráðherra, sem ekki getur nú svarað til saka, en viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. Árn. (EE) sagði, þá skal jeg geta þess, að mjer fundust ummæli hans benda á það, að samviska hans segði honum, að hann væri ekki alveg óviðriðinn þetta mál. En það leiðinlegasta við þetta alt saman er, hvað hagnaðurinn fyrir sýsluna hefir hlotið að vera lítill, í samanburði við tjón það, sem af því leiddi að taka húsið í burtu og rífa það, því þó það gæti komið að gagni þar, sem það stóð, sem gistihús að sumarlagi, þá er það víst, að viðurinn úr því, sem var 16 ára gamall, hefir hlotið að vera ljelegt efni í nýtt hús. Svo hafi hjer verið um styrk að ræða, þá hefir hann verið næsta óheppilegur.

Jeg vona nú, að jeg hafi stilt svo orðum mínum í hóf, að þau þurfi ekki að gefa tilefni til langra ræðuhalda, hvorki hv. 1. þm. Árn. (EE) nje öðrum. Hins vegar vænti jeg þess, að mál þetta hafi nokkuð skýrst við það, sem jeg nú hefi sagt.