18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (763)

1. mál, fjárlög 1924

Gunnar Sigurðsson:

Til þess að tefja eigi tímann, er rjett, að jeg haldi mjer eingöngu að mínum eigin tillögum. Jeg þakka hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) fyrir málrjettingu hans. Það er ávalt mjög leiðinlegt að sjá orðskrípi og málleysur í lögum, og vonast jeg eftir, að háttv. Alþingi taki sjer fram í þessu efni, því frágangur fyrirfarandi þinga hefir oft verið blöskranlegur hvað þetta snertir. Jeg er hræddur um, að sumir hv. þingmenn hafi misskilið það, sem jeg sagði í fyrri ræðu minni viðvíkjandi því, að styrkbeiðnin til Dýraverndunarfjelagsins væri ekki borin fram að tilhlutun þess. Það er nú að vísu svo, en hins vegar er styrkbeiðnin í fullu samræmi við vilja fjelagsmanna. Jeg hefi talað við formanninn, og hefir hann skýrt mjer frá, að fjelagið væri algerlega fjevana, en hefði hins vegar mikinn hug á að ráðast í meiri framkvæmdir, t. d. að koma upp sjúkraskýli, þar sem dýr væru undir læknishendi.

Hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) mælti á móti tillögu minni um niðurfærslu á styrk til Dansk-islandsk Samfund, en þar sem hann talaði mjög hóflega um málið, skal jeg gera honum sömu skil. Það þýðir ekki að tala um þjóðernisþýðingu þessa máls. Það er öllum kunnugt, að skoðanir okkar á því máli eru fjarskyldar. En styrkur fjelagsins til Dansk Kunstflidsforening sýnir, að það er ekki sjerlega kræsið hvað þjóðerni viðvíkur.

Það kann að mega segja, að fjelagið láti eitthvað gott af sjer leiða, en ef Danir vilja vinna að nánari samvinnu við okkur, þá verða þeir sjálfir að annast um það. Jeg skoða þetta dansk-íslenska fjelag að miklu leyti svipað frá Dana hálfu eins og Anglia og Alliance francaise eru frá hálfu Englendinga og Frakka.

Jeg vænti þess fastlega, að styrkurinn verði ekki látinn vera hlutfallslega hærri frá hendi Íslendinga en Dana.