18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

1. mál, fjárlög 1924

Þórarinn Jónsson:

Það á þá best við að þakka hæstv. forseta og óska honum hins sama.

Það skal ekki vera langt liðið af þessu sumri, er jeg lýk máli mínu. Jeg vildi aðeins segja nokkur orð við samgöngumálanefndina, því að framkoma hennar hefir verið óvenjuleg og óæskileg á þessu þingi. Það virðist svo, svo hún hafi skoðað sig sem ráðgefandi nefnd fyrir stjórnina. En þessu á þó ekki að vera þannig varið. Tillögur hennar hafa á undanförnum þingum legið fyrir þingmönnum til samþyktar. En nú hefir hún upp á eigin spýtur samið áætlun fyrir Esju, án þess að þm. hafi gefist kostur á að sjá hana og gera sínar athugasemdir. Þetta hefir þó verið venja, þó þetta hafi ekki getað fallið undir atkvæði deildarinnar. En svo er annað atriði, sem hv. samgmn. hefir algerlega vanrækt, og það eru tillögur um, hvernig styrknum í 13. gr. C 2 sje varið. Það er nú með öllu dulið fyrir þinginu, hvernig bátastyrknum er varið, og má þar jafnt hafa ráðið hlutdrægni sem annað hjá hv. nefnd. Þar verður ekkert undan kvartað og má vel vera, að hún leggi þessa dul á þetta af því að ekki sje hreint inni við beinið. Annars tel jeg rjettast, að samgöngumál á sjó eða fjárhagshlið þeirra væri ekki lengur dregin undan fjárveitinganefnd. Það er eðlilegast, að hún hafi alt fjárlagafrv. Og eins og hún er nú búin að yfirtaka fjárhagshliðina, ætti hún að fá þetta líka. Og fjárhagsnefnd hefir ekkert kvartað undan því. Frá hendi fjvn. mundi þetta atriði eins og önnur liggja greinilega fyrir deildinni. Og eins og nefndin hefir nú hagað sjer, tel jeg þetta alveg sjálfsagt.