12.03.1923
Neðri deild: 18. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

57. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Frsm. (Einar Þorgilsson):

Þetta frv. er flutt af sjútvn. að tilhlutun atvinnumálaráðuneytisins og stjórnar Fiskifjelags Íslands. Saga málsins er svo ítarlega sögð í greinargerðinni fyrir frv., að engin þörf er að fara mörgum orðum um það hjer. Atvinnumálaráðuneytið hafði vísað málinu til stjórnar Fiskifjelagsins og leitað álits þess um það, hvort gerlegt væri að leyfa dragnótaveiði í landhelgi. Stjórn Fiskifjelagsins svaraði á þá leið, að varhugavert væri að banna hana með öllu að svo stöddu, en taldi hins vegar rjett að veita landsstjórninni heimild til að banna þetta, er hún teldi fulla ástæðu til þess fyrir hendi.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, en leyfi mjer að gera það að till. minni, að málinu verði vísað til 2. umr., að þessari umr. lokinni.