30.04.1923
Efri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

1. mál, fjárlög 1924

Frsm. (Einar Árnason):

Það er vika síðan þetta frv. var til 1. umr. hjer í deildinni og var vísað til fjvn. Þegar frv. kom hingað, var það búið að vera um 9 vikur í hv. Nd. Nefndin hefir talið sjer skylt að gera sitt til þess að flýta frv., þar sem svo mjög er áliðið þingtímann og það er orðinn sterkur vilji flestra hv. þm., að þingstörfunum geti orðið lokið sem allra fyrst. Nefndin hefir þess vegna orðið að hraða mjög störfum sínum, og geta vitanlega orðið skiftar skoðanir um það, hvernig henni hefir tekist. En nefndin væntir þess, hvernig sem farið verður með hinar einstöku brtt. hennar, að hv. deild taki vel í sparnaðarviðleitni hennar. Það er skoðun nefndarinnar, að meðan þingið heldur þeirri stefnu að skila fjárlögunum með tekjuhalla, þá komist fjárhagurinn ekki í sæmilegt horf. Það er eina ráðið að ætla gjöldin gætilega og hafa einhvern afgang til þess að mæta fjáraukalögum, sem altaf hljóta að koma. Eins og frv. þetta kom frá háttv. Nd., var tekjuhalli tæpar 139 þús. krónur, en ef brtt. nefndarinna' verða samþyktar, þá verður tekjuafgangur um 100 þús. krónur. Hjer er um verulegan sparnað að ræða, og þó að háttv. þm. þyki nefndin ef til vill nokkuð harðhent á sumum sviðum, vona jeg, að þeir virði viðleitni hennar og styðji hana að því að reyna að rjetta við fjárhaginn.

Jeg vil ekki fara um frv. fleiri almennum orðum, því að jeg vil ekki tefja tímann meira en nauðsyn krefur, og þá sný jeg mjer að því að skýra brtt. nefndarinnar með örfáum orðum.

Nefndin ber aðeins fram 1 brtt. við 10. gr., og fer hún í þá átt að lækka tillagið til hagstofunnar. Í frv. er áætlað til hennar 42300 kr., en nefndin vill lækka það niður í 40000 kr. Það vakir fyrir nefndinni, að henni þykir hagstofan nokkuð dýr og að þörf væri á að reyna að takmarka það fje, sem til hennar fer. Mjer dettur ekki í hug að halda, að hagstofustjóri fari ósparlega með það fje, sem fram er lagt, en það gæti komið til mála að reyna að draga saman verksvið hagstofunnar. Jeg vil skjóta þessu til stjórnarinnar til íhugunar. hvort ekki sje hægt að minka störf hagstofunnar, án þess að bagi verði að.

Þá er önnur brtt. við 11. gr., um að hækka húsaleigu lögreglustjóra úr 6500 kr. niður í 5000 kr. í sambandi við þessa brtt. vil jeg geta þess, að nefndin fer víða fram á að lækka skrifstofukostnað hjer í Reykjavík, og er það gert með tilliti til þess, að húsaleiga lækki. sjerstaklega ef opinberar skrifstofur verða fluttar í nýja Landsbankahúsið, eins og mun vera í ráði. Jeg læt þessa skýringu nægja í þessu efni og tala ekki um það sjerstaklega við hinar einstöku brtt. í þessa átt.

Þá vil jeg vísa til þess, sem segir í nál. um brtt. um embættisskeyti.

Næst er brtt. um, að fjárveiting til aðstoðarlæknis á Ísafirði verði feld niður. Þetta embætti var stofnað meðan læknislaust var í Bolungarvík, og þá var líka settur aðstoðarlæknir á Akureyri. Það embætti er nú lagt niður, því reynslan hefir sýnt, að þess var ekki þörf. Jeg held reyndar, að það sje ekki formlega lagt niður enn; það mun hafa lagst niður af sjálfu sjer, og á ríkissjóðslaunum er enginn læknir á Akureyri nema hjeraðslæknirinn. En hins vegar eru þar 3 „praktiserandi“ læknar, og er ekki annað að sjá en að þeir lifi þar góðu lífi. Af þessum sökum virðist engin ástæða til að launa aðstoðarlækni á Ísafirði, sjerstaklega þegar búið er að setja lækni í Bolungarvík.

Þá er brtt. við 12. gr., um að veita 2000 kr. styrk til Skúla læknis Guðjónssonar til þess að nema heilbrigðisfræði. Þessi maður er nýlega útskrifaður frá háskólanum með mjög góðri einkunn. Hann hefir góð og ákveðin meðmæli frá Guðmundi prófessor Hannessyni og ýmsum helstu læknum Reykjavíkur, og auk þess frá 3 læknum utan af landi. Þessi maður hefir í hyggju að nema heilbrigðisfræði, og veit jeg ekki til, að nokkur læknir hjer hafi numið þá fræðigrein til fullnustu fyr, en hún er sögð mjög nauðsynleg. Nefndin hefir viljað styðja þennan unga og efnilega mann og vonar, að þessi liður verði samþyktur.

Þá er nýr liður, 1200 kr. styrkur til Guðrúnar Gísladóttur, til hjúkrunarnáms í Danmörku. Hún hefir góð meðmæli og nú er hún á Kommunehospitalet í Kaupmannahöfn, og sýnir það, að hún er í talsverðu áliti, því aðrar hjúkrunarkonur eru ekki teknar þangað. Nefndin vill því styrkja þessa stúlku; okkur er mikil þörf á lærðum hjúkrunarkonum, en námið er nú orðið langt og dýrt og ókleift efnalausum stúlkum, nema þær sjeu styrktar að einhverju leyti.

Þá er 7. brtt., um að styrkur til Kristjáns gestgjafa Jónassonar í Borgarnesi falli niður. Þessi maður hefir krafist skaðabóta fyrir það, að hann hafi orðið að taka mann með smitandi veiki í hús sitt og beðið við það atvinnutjón. Nefndin hefir fengið umsögn landlæknis um þetta efni, og telur hann manninn ekki eiga neinn lagalegan rjett til þess að fá þessa fjárupphæð, því alt hafi þar farið fram samkvæmt lögum. Annars get jeg vísað til nál. og umsagnar landlæknis um þetta efni.

Þá kem jeg að 8. brtt. Það, sem segja má um þessa brtt., gildir einnig um 9. til 15. brtt. Þessar 8 brtt. fara allar fram á að fella niður símalagningar og byggingu loftskeytastöðva. Nefndin neitar því ekki, að þarft verk væri að koma öllu því í framkvæmd, sem hjer ræðir um, en hins vegar lítur hún svo á, að margt verði að bíða vegna fjárskorts og þessu sje þannig varið, að það geti að skaðlitlu beðið. Jeg ætla ekki fyrirfram að deila um þessar brtt.; aðeins vil jeg taka það fram, að nefndin skoðar, að allir þessir liðir eigi að fylgjast að, og leggur til, að þeir sjeu bornir upp í einu lagi.

Þá er 16. brtt., um uppbót til stúlknanna við bæjarsímann í Reykjavík. Nefndin gat ekki fallist á fjárhæð þá, sem hv. Nd. ákvað í þessu skyni. Ekki svo að skilja, að nefndin telji í rauninni, að með því hefði stúlkunum verið oflaunað. Síður en svo. Heldur sá nefndin, að ef svo langt ætti að ganga í þessu efni, þá kæmu fleiri stjettir, sem líku máli væri að gegna um, og krefðust sömu uppbótar, t. d. póstmenn. Nefndin viðurkennir fúslega, að sumar símameyjarnar hafi svo lág laun, að þær geti ekki framfleytt sjer á þeim, og því leggur hún til, að þeim lægst launuðu sje veitt sú uppbót, að samanlögð laun og dýrtíðaruppbót nemi ekki minna en 1800 kr. Mun sú fjárhæð, er nefndin ætlar til þessa, vera mjög hæfileg til að bæta úr brýnustu þörfum. Sá nefndin sjer ekki fært að fara lengra, og þar sem hún er ófáanleg til þess að breyta launalögunum, vill hún ekki breyta launakjörum þessarar stjettar sjerstaklega, þar sem svo líkt stendur á um aðrar.

17. brtt. nefndarinnar er aðeins orðabreyting, „fullnaðaruppbót“ í stað „uppbót“. Meinar nefndin með því, að þessu svokallaða Petersensmáli, sem er svo alþekt hjer í þinginu, sje þar með lokið.

Jeg hefi áður minst á 18. brtt., og get því hlaupið yfir hana.

19. brtt. fer fram á að hækka skrifstofukostnað biskups upp í 2000 kr., svo að hann verði jafn landlækni. Nefndin sjer enga ástæðu til, að biskupi sje ætlað minna til skrifstofuhalds en landlækni.

Þá leggur nefndin til, að feld sjeu úr athugasemdinni við styrktarfje háskólans þau ákvæði, að eigi megi veita meira en 175 kr. á ári í húsaleigustyrk og 560 kr. í námsstyrk. Stafar þetta m. a. af því, að hv. Nd. hefir hækkað um þriðjung húsaleigustyrk stúdenta, og virtist nefndinni því rjett að breyta gamla ákvæðinu. Auk þess taldi hún rjettast að gefa það í vald þeirra, sem með styrkveitingarnar fara, hversu mikið hver fengi. Er og hugsanlegt, að óþægilegt sje fyrir þá að vera bundnir af takmörkunum, sem kynnu að vera gerðar af ágiskunum að meira eða minna leyti.

21. brtt. er aðeins skýring, sem ekki þarf a orðlengja um.

Þá kem jeg að kenslubókastyrk til mentaskólans, sem nefndin leggur til, að hækkaður sje úr 800 upp í 2400 kr., með það fyrir augum, að sögukennararnir Þorleifur. H. Bjarnason og Árni Pálsson hafa í hyggju að semja kenslubækur í miðaldasögu og sögu nýja tímans, og hafa þeir sótt um styrk í því skyni. Telur nefndin það gott verk og nauðsynlegt, og er mál til komið, að hætt sje að nota erlendar kenslubækur í þessum greinum.

Nefndin hefir lagt til, að veittar sjeu 5500 kr. til þess að girða blett umhverfis kennaraskólann og yfir höfuð lagfæra lóðina umhverfis hús þetta, svo sem hægt er fyrir þessa upphæð. Telur nefndin varla vansalaust, að þetta sje dregið lengur, því að stöðugt vatnsrensli er að húsinu og skemmir það að mun. Er því mikil nauðsyn að bjarga húsinu í tíma, enda hefir þess oft verið beiðst.

Þá kem jeg að 24. brtt., hækkun launa Einars Jónssonar kennara við stýrimannaskólann í Reykjavík. Eins og menn muna, var flutt frv. um þetta efni í þingbyrjun, en nefndin vildi ekki afgreiða það, vildi ekki breyta launalögunum, en þar sem krafan virðist á allri sanngirni bygð, taldi nefndin rjett að taka hana til greina í fjárlögum.

Í 25. brtt. er lítillega breytt orðalagi aths. um skólagjaldið. Virtist nefndinni mega misskilja orðalag aths. Ber þess að gæta, að ekki má vera sama orðalag nú og í fyrra, þar sem nú er um 2 árganga nemenda að ræða, en í fyrra aðeins um einn. Breyting þessi er því nauðsynleg og þarf ekki að fara um hana fleiri orðum.

Þá leggur nefndin til, að rafmagnsveitan á Hólum sje látin bíða, — og er það einungis af sparnaðarástæðum, að nefndin treysti sjer ekki til að mæla með þessari fjárveitingu í ár.

Jeg get verið fáorður um forstöðumannslaun yfirsetukvennaskólans. Hann hefir farið fram á, að hann fengi að halda þeirri upphæð, er hann hefir haft áður, og getur nefndin mælt með því.

Nefndin leggur til, að styrkur til nemenda yfirsetukvennaskólans lækki um 1000 kr., og auk þess, að takmörkuð sje tala þeirra við tólf, og sje styrkurinn 500 kr. til hverrar. Hækkunin á húsaleigustyrk til sömu nemenda er aðeins leiðrjetting, áttu að vera 1200 kr. í stað 600 kr., sem nú standa í frv.

Þá leggur nefndin og til, að námsstyrkur kvennaskólans í Reykjavík sje hækkaður úr 800 kr. upp í 1000 kr., og enn fremur skrifstofukostnaður fræðslumálastjóra úr 900 upp í 1200 kr.

Því næst koma tveir nýir liðir. Hinn fyrri er utanfararstyrkur barnakennara, 2000 kr. Þessi liður hefir um mörg ár staðið í fjárlögum, en mun hafa fallið niður í fyrra. Áleit nefndin það ekki rjettmætt, þar sem styrks þessa hafa notið ýmsir mjög efnilegir kennarar með ágætum árangri, og má því fullyrða, að hann hafi komið að miklu liði. Hinn síðari liðurinn er 15000 kr. til styrktar barnaskólabyggingum. Þessi liður hafði einnig verið feldur niður í fyrra, en staðið áður um hríð. Nú lá fyrir fjöldi beiðna um slíkan styrk, sem nefndin sá sjer engan veginn fært að sinna hverri um sig, enda hefði það orðið mikið hærri upphæð en hjer er farið fram á.

Vildi nefndin því takmarka sig og ákveða eina upphæð í þessu skyni og taldi hæfilegt, að hún væri jafnhá þeirri, sem ákveðin er til húsabóta á prestssetrum. Nefndin telur að sjálfsögðu, að styrkur þessi komi jafnt til greina, þó að húsin sjeu notuð og áður bygð í öðru skyni, en síðan keypt til skólahalds. ef fræðslumálastjóri tekur húsið gilt sem skólahús.

33. brtt. er aðeins önnur röðun, og þarf ekki að ræða hana.

Þá hefir nefndin sett þá athugasemd við styrkinn til Flensborgarskólans, að hann verði bundinn því skilyrði, að Hafnfirðingar greiði skólagjald eftir sömu regluni og aðrir skólar, sem njóta samskonar styrks. Þó hefir nefndin ekki lagt til, að styrkurinn sje lækkaður, en gerir ráð fyrir, að skólanum sje nauðsynlegur sá tekjuauki, sem skólagjald gæfi.

Loks hefir nefndin lagt til, að styrkurinn til Stefáns Eiríkssonar trjeskera hækki um 900 kr., upp í 2400 kr. Nægir í þessu efni a vísa til nál. Þessi merki maður er nú þungt haldinn af veikindum og á við þröngan efnahag að búa, og væntir nefndin því, að hv. deild sjái sjer fært að rjetta honum hjálparhönd.

Jeg sje ekki ástæðu til að svo komnu að fara út í brtt. einstakra þingmanna, enda fæ jeg efalaust tækifæri til þess síðar.