30.04.1923
Efri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

1. mál, fjárlög 1924

Forsætisráðherra (SE):

Það eru aðeins nokkrar brtt., sem jeg vildi minnast á. Fyrst er lækkun á húsaleigu lögreglustjórans í Reykjavík. Jeg vil taka það fram, að hún var ákveðin eftir mati dómkvaddra, óvilhallra manna.

Það má vel vera, að hægt verði að fá ódýrari skrifstofu í nýja Landsbankahúsinu t. d., en þess ber að gæta, að þessi embættismaður þarf mjög margar og miklar skrifstofur, þar eð starf hans er svo umfangsmikið og mannfrekt.

Ef ekki verður hægt að fá húsnæði, sem una má við, fyrir þetta verð, þá skoðar stjórnin sig hafa rjett til að ráðstafa máli þessu sem best hún má, þó að till. þessi nái fram að ganga.

Þá er 4. brtt. nefndarinnar, við 12. gr„ að fella niður styrkinn til aðstoðarlæknisins á Ísafirði. Þó að þetta megi gera, þá er samt dálítið hart að fara svo að. Maður sá, er gegnir þessu starfi, er ekki lengur ungur maður. Hefir hann og haft ástæðu til að ætla, að hann fengi að halda styrk þessum, og því ekki sótt um neitt hjerað, sem hann þó eflaust hefði getað fengið. Jeg mun því greiða atkvæði á njóti þessari brtt.

Í sambandi við styrkveitingu til Skúla V. Guðjónssonar læknis, til að nema heilbrigðisfræði erlendis, vil jeg geta þess, að margir hafa talið þess þörf, að sendur yrði að minsta kosti einn maður til augnlæknisnáms. Að vísu er hjer einn augnlæknir, en það er hætt einu auga, ef illa fer. Þessi eini læknir verður að vera á ferðalögum langan tíma á hverju sumri, og er þá Reykjavík augnlæknislaus hvernig sem fer. Mun jeg minnast á þetta við háttv. fjvn.

Um 20. brtt. nefndarinnar, athuga semdina um styrktarfje háskólans, skal jeg taka það fram, að jeg lit svo á, að hún sje rjett.

Með 23. brtt. get jeg mælt eindregið. Skólastjórinn, sem er mjög gætinn maður og hinn ágætasti embættismaður, hefir oft komið að máli við mig um styrk til þessara framkvæmda, en jeg ekki sjeð mjer fært að veita hann án heimildar. Er jeg því þakklátur háttv. fjvn. fyrir að hafa tekið þennan lið upp.

27. brtt. nefndarinnar, um laun forstöðumanns yfirsetukvennaskólans, er að vísu ekkert stórmál. Þó fæ jeg ekki sjeð neina ástæðu til að hækka laun hans. Hann á að vísu heimtingu á launum, samkvæmt samningi frá því hann tók við landlæknisembættinu, en ef starf þetta væri falið nýjum manni, sem verður þegar til kemur sennilega prófessor við háskólann, þá mun hann vafalaust engin laun fá. Annars skiftir þetta ekki svo mjög máli.

Þá er 28. brtt., um styrk til kvenna til að læra yfirsetukvennafræði. Samkvæmt gildandi lögum frá 20. okt. 1912, 4. gr., á hver slík námskona að fá 45 kr. á mánuði. En í dýrtíðinni sýndi það sig brátt, að ómögulegt var að halda sjer við þá upphæð. Þess vegna hækkaði fyrv. stjórn styrkinn upp í það, sem talið var, að komast mætti af með minst, og það með ítrustu sparsemi. Síðasta ár voru greiddar 120 kr. á mánuði. Landlæknir hefir skýrt mjer frá, að 500 kr. væri fulllítil upphæð, mætti varla minni vera en 600 kr., sem mætti svo lækka, ef tímarnir breyttust til batnaðar. Ennfremur skýrir hann svo frá, að órjett sje að takmarka tölu nemenda skólans við 12. Segir hann svo frá, að meðan dýrtíðin stóð sem hæst hafi fáar sótt skólann, vegna erfiðleika. Væri því hörgull á yfirsetukonum, og hafi þær allar átt vísar stöður, sem útskrifast hefðu síðustu árin. Þess vegna telur hann ekki rjett að takmarka tölu nemenda fyrst um sinn, og fæ jeg ekki betur sjeð en þetta sje rjett röksemdaleiðsla. Má öllum vera ljóst, hversu óheppilegt það væri, ef eigi væru nægilega margar yfirsetukonur.

31. brtt. er um hækkun á skrifstofukostnaði fræðslumálastjóra. Get jeg vel fallist á þessa brtt. Þessi embættismaður hefir gert litlar kröfur og yfirleitt kostað landið lítið, og þó hefir hann haft mjög mikið að gera.

Þá vil jeg mæla mjög ákveðið með 32. brtt. Jeg hefi fengið upplýsingar um, að kennarar hafa haft óvenjulega mikil not af þessum utanfararstyrk, enda má öllum vera það ljóst, hversu mikla þýðingu það hefir, að þeir, sem kenna eiga uppvaxandi börnum þjóðarinnar, eigi að einhverju leyti kost á að fylgjast með nýjum straumum og verða fyrir nýjum áhrifum í uppeldis- og menningarmálum.

Sömuleiðis vil jeg mæla með b-lið sömu brtt. Kæmi hið nýja kennaraskipulag að litlu liði, ef ekkert væri aðhafst í því efni að koma upp viðunandi skólahúsum sem víðast á landinu.