30.04.1923
Efri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

1. mál, fjárlög 1924

Frsm. (Einar Árnason):

Fjárveitinganefnd hefir gert nokkrar breytingar við þennan kafla fjárlaganna. Það er þá fyrst um handritaskrá Landsbókasafnsins. Nefndin leggur til, að styrkurinn sje hækkaður um 500 kr. Sá, sem hefir haft þetta verk á hendi, það er próf. Páll E. Ólason, hefir sýnt lofsverðan áhuga og dugnað við það starf. Nefndin vill því ekki, að hann leggi starfið frá sjer, þar sem ekki er völ á hæfari eða jafnhæfum manni í hans stað. Meiri hluti nefndarinnar leggur til, að laun aðstoðarkvenna við Þjóðmenjasafnið sjeu færð upp úr 1800 kr. í 2400 kr; þær eru nú 4, og myndu því fá 600 kr. hver. Það hefir komið til þingsins sjerstök málaleitun frá Bókasafni Austurlands, um að hækkaður yrði styrkurinn til kaupstaðabókasafna. Nefndin hefir viljað verða við þeirri beiðni, þar sem komið hefir í ljós, að Seyðisfjarðarkaupstaður og Múlasýslur ætla að leggja fram allríflega fjárupphæð í því skyni að koma þessu safni í betra horf. Það hefir ekki enn verið hægt að prenta skrá yfir safnið, en það mun kosta allmikið fje. Nefndin vill því mæla með, að styrkurinn til kaupstaðabókasafna verði hækkaður um 1000 kr., með sjerstöku tilliti til þess, að Bókasafn Austurlands hljóti hærri styrk en ella.

Þá leggur nefndin til, að styrkurinn til Bókmentafjelagsins verði hækkaður um 1000 kr., til þess að það geti gefið út Íslenskt fornbrjefasafn; þó með því skilyrði, að það gefi út jafnóðum samskonar registur og fylgdi fyrsta bindi safnsins, því að án þess væri naumast hægt að notfæra sjer safnið.

40. brtt. ætlar nefndin að taka aftur, því að hún hefir fengið nýjar upplýsingar í málinu. Það er um Lög Íslands, og sjer nefndin ekki lengur ástæðu til að fella þann lið niður.

45. brtt. er um hækkun á styrk til Dansk-islandsk Samfund, úr 300 kr. upp í 1000 kr. Nefndinni virðist varla vansalaust fyrir þingið að hafa styrkinn svo lítinn sem í frv. stendur. Hins vegar hefir fjelagið sýnt, að það á skilið aðstoð og hjálp hjeðan, eftir því sem unt er, með því að gefa út ýmsar þarflegar bækur. Nefndinni hefir borist skrá yfir þær — þær eru 20 talsins og vill hún, að reynt sje að hlynna að fjelagi þessu.

Styrkur til skálda og listamanna hefir lækkað töluvert. En það stafar af því, að nefndinni þótti rjett að taka Einar skáld Kvaran út af þeim lið og setja laun hans í 18. grein. Nefndinni virtist, að þessi viðurkendi rithöfundur, sem þegar er hníginn á efri ár, eigi skilið, að honum sje meiri sómi sýndur en verið hefir, með því að tryggja laun hans samkvæmt 18. gr.

Þá er brtt. um ferðastyrk til Bjarna Sæmundssonar, sem nefndin fann ekki ástæðu til að hafa minni en samskonar styrk til dr. Helga Jónssonar. Þá hefir nefndin hækkað styrkinn til Guðmundar Bárðarsonar um 500 kr., þar eð starfi hans er svo háttað, að hann verður að leggja á sig mikil ferðalög, og það kostar ærið fje, en hins vegar er vísindastarfsemi þessa manns svo merkileg í alla staði, að nefndin vill ekki setja fót fyrir það, að hennar geti notið sem best.

Þá vill nefndin mæla með því, að Jón Þorsteinsson frá Hofsstöðum fái styrk til að halda áfram íþróttanámi erlendis. Hann er maður áhugasamur og hefir hin bestu meðmæli um dugnað og atgervi. Hann dvelur nú í Danmörk, en býst við að fara víðar til að fullkomna sig í sinni grein, til Noregs, Svíþjóðar og jafnvel Finnlands. Sótti hann um 2500 kr. styrk, en nefndin sá sjer ekki fært að hafa hann hærri en 1500 kr. Þá er annar nýr liður, um 1500 kr. styrk til Markúsar Kristjánssonar píanóleikara, til framhaldsnáms. Hann hefir þegar unnið sjer mikið álit, en er kornungur, tæplega tvítugur. Hefir hann og notið tilsagnar hjá Páli Ísólfssyni og Árna Thorsteinsson, er ljúka upp einum munni um það, að hann sje snillingsefni.

Þá leggur nefndin til að skifta fjárhæð þeirri, sem verja skal til að kaupa grasasafn Stefáns heitins skólameistara þannig, að helmingurinn verði greiddur 1924, en svo komi síðari helmingurinn að sjálfsögðu í fjárlögin fyrir 1925. Nefndin þykist mega fullyrða, að þeir, sem hlut eiga hjer að máli, hafi ekkert á móti þessari skiftingu.

Nefndin hefir breytt einu orði í liðnum um að leitast fyrir um markað erlendis; í staðinn fyrir „fiskiafurðir“ komi: íslenskar afurðir. Nefndinni hefir fundist þörfin svo brýn að greiða fyrir sölu allra íslenskra afurða, að best væri, að upphæðin, sem veitt er í því skyni, kæmi öllum til góða. Það má vera, að upphæðin sje heldur lág, en nefndin sá þó ekki ástæðu til að hækka hana að svo komnu. Þá hefir nefndin numið burtu athugasemdina við styrkinn til Sambands íslenskra heimilisiðnaðarfjelaga. Hún vill sýna því fjelagi allan sóma og telur 10 þúsundir síst of mikið handa því til að vinna að þessu þarfa verki. Þó ætlast hún til, að 600 kr. af þeirri upphæð fari til handavinnuskólans á Akureyri. Nefndin vill líka viðurkenna starfsemi frk. Halldóru Bjarnadóttur, sem hefir mikið starfað að efling og útbreiðslu heimilisiðnaðar hjer á landi. Hún er ekki sjerstaklega ráðin hjá neinu heimilisiðnaðarfjelagi áfram, en er fús til að starfa að málinu, og því veitir nefndin henni 1000 kr. styrk til þess.

Þá hefir nefndin lagt til að hækka styrkinn til ábúandans í Fornahvammi um 300 kr. Henni hefir sem sje borist til eyrna, að það gæti legið við borð, að býlið legðist í eyði, þar sem það er svo afskekt og hrjóstrugt, en nauðsyn er, að bygð haldist þar vegna ferðamanna, og er frekari von á því, ef nokkur ríflegur styrkur yrði veittur. Hins vegar hefir meiri hl. nefndarinnar viljað fella niður styrkinn til ábúandans í Grísartungu, sem fór fram á 500 kr. styrk til húsabyggingar, svo að hann gæti hýst ferðamenn. Nefndin er ekki öll kunnug um þær slóðir, en jeg býst við, að meiri hlutinn byggi þessa skoðun sína á því, að þessi bær sje ekki svo langt frá öðrum bæjum, að sjerstök þörf sje fyrir þetta.

Eins og skýrt er frá í nál., hefir nefndin í samráði við stjórnina felt athugasemdina við laun húsagerðarmeistara niður. Annars býst jeg við, að hæstv. stjórn geri frekari grein fyrir þeirri breytingu.

Nefndin leggur til, að upphæðin, sem verja á til að gera Eyrarfoss laxgengan, falli niður. Hún vill engan dóm á það leggja, hvort það sje nauðsynlegt eða ekki, en henni finst hlutaðeigandi hjeraði ekki ofvaxið að hrinda þessu í framkvæmd, ef það er álitið mikilsvert.

Þá kem jeg að þeirri brtt. nefndarinnar, að fella niður styrkinn til sútunarhúss Sláturfjelagsins. Nefndin vill ekki leggja dóm á, hvort fyrirtækið er vert þess, að það sje styrkt, en henni finst mörg drög liggja til þess, að það sje felt niður. Í fyrsta lagi leyfir fjárhagur ríkisins það naumast, að styrkurinn sje veittur svona hár; í öðru lagi er spursmál, hvort hjer sje ekki í of mikið ráðist og hvort málið sje svo vel undirbúið, sem æskilegt væri. Því er ekki að neita, að gærur eða skinn þyrfti nauðsynlega að vera verðmeiri vara en nú er, og því er heldur ekki að neita, að reynslan hefir sýnt, að það er hægt að gera góða vöru úr gærunum; en það er ekki nægilegt. Fyrst er að tryggja markaðinn, og nefndinni finst hæpið, að ábyggilegur markaður sje enn fyrir hendi. Af þessum tilgreindu ástæðum þótti nefndinni rjett að fella liðinn niður.

Þá leggur nefndin til, að styrkurinn til viðurkenningar við Sæmund Sæmundsson sje hækkaður. Nefndin hefir fengið ábyggilegar upplýsingar um, hvílíkt sjerstaklegt snarræði og dugnað þessi maður hafi sýnt við að bjarga tveim skipshöfnum, 18 manns, frá druknun. Álit nefndarinnar er það, að þar sem hann eigi skilið, að viðurkenning sje honum sýnd, þá sami þinginu varla að bjóða minna en það, sem hún stingur upp á, eða 1000 kr.

Um 57. brtt., um að sá liður falli niður, er það að segja, að nefndin hefir ákveðið að taka hana aftur til 3. umr. Brtt. um lendingarbót í Bás styðst við það, sem venjulegt er í þeim sökum.

Meiri hluti nefndarinnar hefir lagt til, að Sigurði Magnússyni lækni væru veittar 500 kr. Það er talið, að hann hafi við mjög þröngan efnahag að búa, en ekki er mjer mikið um það kunnugt.

61. brtt. er aðeins orðabreyting, sem nefndin gerði til þess, að betur færi.

62. brtt., um áveitufjelag Þingbúa, er tekin aftur.

Þá get jeg tekið í einu lagi liðina 63.–67., því að um þá er hið sama að segja. Jeg tek það strax fram viðvíkjandi þessum liðum, að nefndin leggur ekkert kapp á, að þeir sjeu samþyktir, en þótti rjett, eins og komið var, að lánsheimildir þessar fjellu niður. Nefndin átti tal við stjórnina um, að hve miklu leyti mundi vera hægt að sinna lánveitingunum í 21. gr. Stjórnin sagði, að það mundi verða að litlu eða engu leyti hægt. Telur nefndin því óviðkunnanlegt að láta standa í fjárlögunum langa runu af lánsheimildum, sem aldrei koma til framkvæmda. Um 68. brtt. er það sama að segja, nema hvað það er ábyrgðarheimild, en nefndin lítur svo á, að slík heimild sje alt eins varhugaverð og lánsheimild. Þess vegna leggur hún til, að sá liður falli einnig niður, og jafnframt er meiri hlutinn því fylgjandi, að lánsheimildin til Sláturfjelagsins til að koma upp sútunarhúsi falli niður.

Til þess að spara tímann, er rjett, að jeg minnist nokkrum orðum fyrir hönd nefndarinnar á þær aðrar brtt., sem komið hafa fram við þennan síðari hluta fjárlagafrv. Fyrst er 6. brtt., frá háttv. 2. þm. G.-K. (BK), um að hækka styrkinn til dr. Helga Pjeturss úr 4 þús. upp í 5 þús. kr. Jeg skal ekki segja annað um hana en að nefndin lætur þetta fara óbundið frá sinni hendi. Þá er 7. brtt., frá sama háttv. þm., um að hækka styrkinn til Goodtemplara úr 3 þús. upp í 10 þús. kr. Nefndin getur ekki fallist á þessa brtt., af sömu ástæðum og annars hafa ávalt vakað fyrir henni, sem sje, að fjárhagur ríkisins sje of örðugur til þess að standast slíkt.

Þá er brtt. frá háttv. 2. þm. S.-M. (SHK), sem nefndin hefir ekki tekið afstöðu til, og hefir því óbundin atkvæði.

Síðan er ein brtt. frá háttv. 2. þm. Rang. (GGuðf), tillaga um ellistyrk. (GGuðf: Hún er tekin aftur). Það er gott.

Þá er aðeins ein eftir frá háttv. 2. þm. G-K. (BK) um, að Árna Jóhannssyni sjeu veittar 600 kr. fyrir langa og ötula starfsemi í þjónustu Landsbankans. Þessi maður hefir nú stöðu í Íslandsbanka, og er nefndinni ekki kunnugt um, að nauðsyn sje á þessum styrk, en óbundin er hún í atkvæðagreiðslu um þessa tillögu.

Þá eru allar brtt. upp taldar, sem liggja fyrir við þetta frv., og hefi jeg því ekki meiru við að bæta.