03.05.1923
Efri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

1. mál, fjárlög 1924

Forsætisráðherra (SE):

Jeg ætla fyrst að leyfa mjer að minnast á II. brtt. á þskj. 519, frá fjvn. Jeg hygg, að þó að sú brtt. yrði ekki samþykt, þá ætti aðstoðarlæknirinn samt heimtingu á 800 kr. Annars er sama um þetta mál að segja nú og jeg tók fram við 2. umr. að jeg tel illa farið með þennan mann, sem hefir notið styrks þessa í fjárlögum um mörg ár og hefir enga ástæðu haft til að ætla, að hann yrði sviftur honum.

Jeg get fallist á viðbótina frá hv. fjvn. um spítalann á Ísafirði.

Þá er brtt. frá mjer á sama þskj., III. liður, til að styrkja lækni til augnlækninganáms erlendis, 2000 kr., eftir tillögum landlæknis. Ástæðan fyrir þessari brtt. er sú, að ótrygt þykir að hafa aðeins einn augnlækni í landinu. Bæði er það, að augnlæknir sá, sem nú er, þarf að fara í ferðalög um land alt á ári hverju, og er þá enginn hjer, sem gegnt gæti störfum hans, hvað sem fyrir kæmi, og svo getur altaf komið fyrir, að þessi eini maður veikist, og er þá vont að vera læknislaus. Þetta ástand er óverjandi, og það því fremur, sem fleiri en einn og fleiri en tveir ágætis læknar munu fúsir að nema þessa sjerfræðigrein, ef þeir fá til þess nokkurn styrk. En vitanlega mun stjórnin gæta þess, að einungis sjerlega vel hæfur maður kæmi til greina.

V. liður 1 á sama þskj. heyrir að vísu ekki sjerstaklega undir mitt embætti. En af því, að jeg er kunnugur í Vík, þá vil jeg lýsa ánægju minni á því, að till. þessi er fram komin. „Bás“ er þrautalending þeirra Víkverja, en eins og hv. frsm. (EÁ) tók rjettilega fram, þá er illmögulegt að komast að lendingunni sakir grjóts og urðar, og því nálega ógerningur að koma varningi þaðan. Er því sjálfsagt að samþykkja þessa till.