03.05.1923
Efri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1065 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

1. mál, fjárlög 1924

Björn Kristjánsson:

Það eru nokkrar brtt. á þskj. 535, sem jeg vildi segja fáein orð um. Fyrst er till. um að veita Þorgrími lækni Þórðarsyni í Keflavík styrk til að halda aðstoðarlækni yfir vertíðina, 400 krónur. Þessi maður hefir nú starfað sem læknir í 39 ár, og er því orðinn lúinn, enda þótt hann sje heill heilsu. Íbúar í læknishjeraði hans eru að jafnaði um 2600, en á vertíðinni streymir þangað fjöldi fólks, og mun sanni nær, að þá sjeu þar eigi færri en 4000. Auk þess koma þar oft skip, einkum fiskiskip, sem læknir þarf að líta eftir.

Þessi læknir hefir sagt mjer, að síðastliðin 7 ár hafi hann haft aðstoðarlækni yfir vertíðina fyrst, en nú mun hann hafa aðstoðarlækni að staðaldri. Þykir mjer því sanngjarnt, að hann fái hjeðan af svo sem 400 kr. árlegan styrk, að vísu gæti hann sagt af sjer, en ekki yrði ríkissjóði það kostnaðarminna.

Háttv. fjvn. Nd. lagði til, að hann fengi þennan styrk, en það var felt í þeirri hv. deild, en ekki man jeg með hve miklum atkvæðamun. Vænti jeg þess, að þessi hv. deild sýni þessum embættismanni þá kurteisi, því það er ekki nema kurteisi að styrkja hann að þessu leyti þennan tíma, sem hann kann að sitja í embætti enn þá.

Þá er till. mín og háttv. 6. landsk. (IHB) um að veita Sesselju Ólafsdóttur ljósmóður 2000 kr. í viðurkenningarskyni í eitt skifti fyrir öll.

Hún hefir sótt um eftirlaun, en vegna þess að ekki virðist kleift að innleiða þá venju, að ljósmæður fái eftirlaun, þá fórum við þessa leið. Þessi kona hefir gegnt ljósmóðurstarfi í 37 ár og jafnan með ötulleik og samviskusemi. Um 17 ár var hún á Vatnsleysuströndinni, og mun sennilega hafa verið skipuð þar, en síðan í Reykjavík. Votta þeir læknarnir Þórður Thoroddsen, landlæknir og Jón Hj. Sigurðsson hjeraðslæknir hjer í bænum uni starfsemi hennar og bera henni allir hið besta orð. Þess má og geta, að auk ljósmóðurstarfsins hefir hún af mikilli alúð lagt stund á hjúkrun, og segir Jón Hj. Sigurðsson, að sjer sje sjerstaklega minnisstætt, hversu mikla ósjerhlífni hún hafi sýnt haustið 1918, þegar „spánska pestin“ geisaði hjer og hún stóð ein uppi af öllum ljósmæðrum bæjarins. Og þar sem þessi kona hefir eigi síður unnið hjá efnalitlu fólki en efnuðu, þá má nærri geta, að hún hefir oft ekki borið mikil laun úr býtum. Nú er hún hálfsjötug að aldri og útslitin.

Vænti jeg því þess, að háttv. deild taki vel þessari málaleitun, og það því fremur, sem fyrir nokkrum árum var veitt svipuð upphæð í sama skyni.

Um aths. við styrkinn til Þórarins Guðmundssonar þarf jeg ekki að fjölyrða. enda hefir háttv. flsm. (EÁ) fallist á hana. Það er vitanlega ekki tilætlunin, að hann hætti að kenna þeim, sem hann nú kennir.

Annars get jeg gefið þær upplýsingar um núverandi nemendur hans, að einn þeirra er af kennaraskólanum, annar af samvinnuskólanum og hinir hafa flestir komið hingað til bæjarins í því skyni einu að læra hjá honum Segir Þórarinn, að sumir þeirra hafi ágæta hæfileika og sjeu miklu næmari en alment gerist.

Þá vil jeg minnast á eina brtt. háttv. fjvn., þá að veita Árna Theódór Pjeturssyni 1200 kr. í eitt skifti fyrir öll, í stað 500 kr. árlega, nema honum sje veitt svipað embætti, eins og nú stendur í frv. Eins og menn muna, var mál þetta til meðferðar á síðasta þingi og hefir stjórnin látið rannsaka það. Hefir ekkert það sannast í málinu, sem gæfi ástæðu til að svifta mann þennan kennaraembætti því, sem hann hefir gegnt í um 30 ár. Er og auðsætt, að háttv. Nd. hefir litið svo á mál þetta, að hann hefði ekki það til saka unnið, að ástæða væri til að svifta hann lífsstöðu sinni.

Annars hefir það komið í ljós, að sumum mönnum er yfirleitt ljett um að svifta menn lífsstöðu þeirra, án þess að þeim, væn nokkuð rjettmætt til saka fundið. Hefir slíkt ágerst í þjóðfjelagi voru í seinni tíð.

Jeg mæli eindregið á móti þessari till., enda býst jeg við því, að liður þessi verði tekinn upp í Nd. aftur eins og sú hv. deild skildi við hann, ef hann verður feldur burtu hjer.

Jeg veit, að langar ræður gagna lítið, en vænti þess, að þessi háttv. deild sýni sanngirni í máli þessu.