03.05.1923
Efri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í B-deild Alþingistíðinda. (822)

1. mál, fjárlög 1924

Jónas Jónsson:

Jeg á hjer nokkrar smávægilegar brtt., ýmist einn eða með fleirum. Steindór Björnsson, efnisvörður landssímans, hefir sótt um styrk til þingsins, til að bæta erfið kjör sín. En háttv. fjvn. hefir ekki sjeð það fært að taka upp þessa styrkbeiðni á þann hátt að breyta launalögunum, en mundi frekar vera tilleiðanleg að bæta úr, þar sem sjerstaklega stendur á, Till. fjvn. um símafólkið voru nú feldar í Ed„ en þær till. voru ekki feldar af því, að laun fólksins yfirleitt væru svo há, heldur vegna þess fordæmis, sem gefið væri með þessu.

En deildin hefir nú samþykt að bæta öllu starfsfólkinu upp; þess vegna hefi jeg komið með þessa till., að jeg býst við, að háttv. deildarmönnum þyki eigi minni ástæða til að bæta úr þörfinni þar, sem hún er brýnust. Steindór Björnsson hefir um allmörg ár verið í þjónustu landsins sem kennari og efnisvörður landssímans. Hann hefir 8 börn í ómegð og eina gamla vandamanneskju, eða 12 manna heimili, að nauðsynlegri þjónustustúlku meðtalinni. Tekjur hans eru 350 kr. á mánuði og afkoman svo, að ekkert liggur fyrir nema sveitin. Það mætti segja, að styrkur til þessa manns væri fordæmi, en jeg þekki þó engan annan mann í þjónustu landsins nærri svo báglega staddan. Styrkur þessi mundi bjarga manninum frá því að gefast upp. Jeg hefði ekki komið með þessa brtt., hefði ekki verið gengið svo langt með að bæta upp laun símafólksins.

Vera má, að einhverjum þyki hjer ekki vera farin rjett leið, að miða styrkhæðina við fjölskylduna, en jeg álít það að mörgu leyti vera það heppilegasta.

Þá á mentamálanefnd hjer brtt. um að hækka styrkinn til Þjóðvinafjelagsins úr 6000 kr. upp í 10000 kr. Þjóðvinafjelagið hafði skrifað Alþingi snemma í vetur og beðið um aukinn styrk til útgáfu alþýðlegra fræðibóka. Ráðgert er að gefa út flokk bóka af sömu stærð, líkt og enska útgáfan „The Home Universal Library“. Oddur Björnsson byrjaði að gefa út Bókasafn alþýðu fyrir mörgum árum. Hann varð að hætta vegna fjeleysis, en gaf þó út nokkrar ágætar bækur.

Þetta er hugmynd Sigurðar Nordals en bæði hann og Páll Eggert Ólason hafa komist að þeirri niðurstöðu, að heppilegast væri, að Þjóðvinafjelagið hefði þessa útgáfu með höndum. Þessi útgáfa ætti að vera ódýr og komast inn á hvert heimili. Álíta þeir, að rjettast væri að hækka tillagið úr 5 kr. upp í 10 kr. og áskrifendur fái það, sem út er gefið árlega, fyrir það verð. Nú eru um 1600 fjelagar Þjóðvinafjelagsins, en mætti telja víst, að þeir yrðu bráðlega 2000 eða yfir. Nöfn nefndarmanna. Páll Eggert Ólason forseti, Guðmundur landlæknir Björnson, Magnús skólastjóri Helgason, Sigurður Nordal prófessor, eru næg sönnun þess, að ekki yrðu gefnar út ljelegar bækur. Þeir eru allir alkunnir smekkmenn.

Nd. hækkaði styrkinn um 5000 kr. En forstöðunefndin álítur, að mest fje muni þurfa 2–3 fyrstu árin, meðan bókaútgáfan er að komast af stað og bækurnar að komast í veltuna.

Fjvn. Ed. treystist ekki að hækka þetta, en mentamálanefnd vill hækka það í 10 þús. kr., þannig, að til þessarar bókaútgáfu megi verja 9000 kr. En 1000 kr. styrk hefir fjelagið haft.

Það er að vísu þakkarvert að fá 5000 kr. til þessa, en þar sem þetta nær svo að segja til hvers einasta heimilis, þá hygg jeg, að enginn þm. þurfi að bera kinnroða fyrir kjósendum sínum, þótt hann samþykki þessa hækkun.

Þá get jeg tekið undir með háttv. 2. þm. Rang. (GGuðf) um fjárframlag til Sláturfjelagsins, til sútunarverksmiðju. Að nefndin lagði til við 2. umr., að þessir liðir fjellu niður, var af því, að bæði var hún að reyna að koma jöfnuði á tekjur og gjöld fjárlaganna, og eins hitt, að henni þótti þetta mál naumast nógu vel undirbúið. En í fjvn átti það engan beinan andstæðing.

Nú eru báðir liðirnir, styrkurinn og ábyrgðin, lækkaðir, og það aðalatriði sett inn, að landsstjórnin hafi eftirlit með undirbúningi og framkvæmd verksins.

Annað fyrirtæki þessu líkt hefir verið stofnað og landið veitt því lán og ábyrgð, en ábyrgðin mun ekki hafa verið notuð. Það er Álafoss. Hann var stækkaður, en þó mun undirbúningur hafa verið ónógur, svo vinnan varð ekki eins vönduð og þurft hefði að vera. Einnig var fleiru áfátt. T. d. skoðaði erlendur verkfræðingur vjelarnar í vetur, og áleit hann sumar þeirra farnar að skemmast, vegna þess að þær stóðu á trjególfi, en það var ekki nógu stöðugt.

Till. þessar miðast því við það, að undirbúningurinn geti orðið sem bestur. Ef brtt. þessar ná fram að ganga, þá munum við koma með brtt. við fjáraukalögin, um að veita dálitla upphæð til þess, að þetta verði rannsakað á þessu ári af hæfum manni. Enda höfum við lækkað aðalfjárveitinguna um 10 þúsund kr. Jeg hefi tekið fram áður, að jeg álít, að annað stórmál ætti þó að ganga á undan þessu, en það er ullariðnaðurinn, að stofnaðar verði verksmiðjur til að vinna fataefni á landsmenn. Jeg álít, að ríkið og þjóðin í fjelagi ætti að stofna ullarverksmiðju eða endurreisa Álafoss. Verður máske tækifæri til að minnast nánar á það síðar.

Í sjálfu sjer hefir þessi sútunarverksmiðjustofnun engri andstöðu mætt, enda nauðsynjamál. Er líka mikill munur að veita svona sterku fjelagi styrk til fyrirtækja heldur en einstökum mönnum, sem máske brestur fje til að halda slíkri stofnun uppi.

Um upphæðina til Árna Theodórs er það að segja, að frá mínu sjónarmiði skiftir ekki miklu máli. hvort upphæðin er 500 kr. á ári eða 1200 kr. í eitt skifti fyrir öll. En það er annað, sem hjer skiftir máli. Þetta atriði kom fyrir mentamálanefnd, og var nefndin skift um það. Annar hlutinn hjelt því fram, að eftir þeim skýrslum, sem lágu fyrir um þetta mál, væri hjer um hættulegt fordæmi að ræða, ef veita ætti þeim mönnum viðurkenningu úr ríkissjóði, sem reynst hefðu ófærir að gegna stöðu sinni.

Af því að jeg býst við mótmælum gegn þessari tillögu, þá vil jeg geta þess strax, að sá breyskleiki, sem Árni Theodór Pjetursson er sakaður fyrir, er vínnautn. Er sá ljóður mjög slæmur á þjónum hins opinbera, ekki síst þeim, sem eiga að vera leiðtogar æskulýðsins.

Jeg get því ekki greitt atkvæði mitt með því, að sá maður, sem missir starf sitt fyrir vanrækslu, sje settur á eftirlaun. En þar sem maður þessi er gamall og hefir unnið lengi, þá get jeg þó greitt atkvæði með því, að hann fái dálitla upphæð einu sinni.

Þá er það aðstoðarlæknirinn á Ísafirði. Því máli er svo varið, að fyrir 16 árum voru samþykt lög hjer á Alþingi, að stofna skyldi 2 aðstoðarlæknisembætti, annað á Akureyri, hitt á Ísafirði. Þetta embætti hefir lagst niður á Akureyri, enda þótt mikið sje að gera þar, bæði sjúkrahús og ferðalög. Aukalæknarnir þar hafa engin laun úr landssjóði. Á Ísafirði er nú breytt frá því, sem áður var. Læknir er kominn í Bolungarvík og á Ísafirði er nú mjög góður læknir, auk þess sem kona hans er líka læknir. Frumástæðan er því fallin niður. En þar við bætist, að læknir þessi þykir ekki hafa staðið svo vel í stöðu sinni sem vera ætti. Enda er heldur engin þörf fyrir hann. En auk þess hefir hann fengið dóm fyrir vínsölu, sem vera mun einsdæmi. Það var reiknað út eftir dómsskjölunum, sem fyrir lágu, að hann hefði á einu ári látið úti vínseðla fyrir sem svarar 20 tunnum áfengis.

Nú er spurning, hvort nokkur læknir þurfi svona mikið áfengi til lækninga. Jeg held það varla. Að minsta kosti þurfa sumir þeirra lækna hjer, sem lækna einna mest, ekki nema fáa potta á ári. Þegar nú þetta embætti er óþarft og læknirinn hefir brotið landslög og skapað sjer með því tekjur, þá get jeg ekki verið með því að greiða atkvæði með launum til þvílíks manns. Í sambandi við þetta vil jeg geta um eitt atriði, sem jeg reyndar hefði átt að taka fram við 2. umr. En það skýrir betur afstöðu mína til þessa máls. Það var að Einar Kvaran rithöfundur var tekinn úr 15. gr. og settur í 18. gr., og mun jeg ekki síst bera ábyrgð á þeirri hækkun. Eru laun hans hækkuð með því, sem vitanlega var sjálfsagt. Jeg lít nefnilega svo á, að þeir fáu menn af hverri kynslóð, sem gnæfa hátt upp úr fjöldanum, eins og Einar Kvaran gerir, eigi að vera launaðir svo, að þeir geti átt sæmilega daga. Þessir menn, sem eru tiltölulega fáir, eiga oftast við verri aðstöðu að búa en vera ætti, til þess að þeir geti sint sinni köllun.

Það er lítil hagsýni í því að láta 5–10 afburða gáfumenn búa við sult og seyru, en eyða fje í óhófi í hversdagsmenn, suma alóþarfa þjóðfjelaginu. Læknirinn á Ísafirði mun vera meðalgreindur maður, ekki þar fram yfir, og þjóðfjelaginu ber engin skylda til að kosta hann og á ekkert sjerstaklega við hann að virða. Við þá menn á þjóðin að spara, en veita ríflega til hinna, sem unnið hafa þjóðinni sæmd og gagn. Brtt. með Einar H. Kvaran gengur of stutt, það er hennar galli. Jeg hefði farið nokkrum orðum um brtt. háttv. 4. landsk. þm., ef hann hefði ekki tekið hana aftur. Það stendur svo á um þetta mál, að mikill áhugi er fyrir skólabyggingu í Þingeyjarsýslu; samskot hafin í því skyni og dugandi maður vinnur að stofnun skólans. Og úr því að landið leggur fje til vita og brimbrjóts í Bolungarvík o. fl., þá hygg jeg, að ekki verði hjá því komist, að landið styrki líka andlega vita og brimbrjóta.