03.05.1923
Efri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

1. mál, fjárlög 1924

Frsm. (Einar Árnason):

Samgöngumálanefnd þessarar hv. deildar hefir beðið mig að skýra í örfáum orðum frá störfum sínum og till. viðvíkjandi samgöngum á sjó á þessu ári. Í gildandi fjárlögum er ætlast til, að 200 þús. kr. gangi til strandferða, en 100 þús. kr. til bátaferða. Fyrri liðurinn er áætlunarliður, enda gerir nefndin engar till. um hann, nema hvað hún hefir gefið útgerðarstjóra Esju nokkrar bendingar um, hvernig hún óskaði, að fyrstu ferðum skipsins væri hagað. Aftur á móti leggur hún áherslu á það, að bátastyrkinn fái einkum helstu flóabátarnir, svo sem báturinn á Ísafjarðardjúpi, Breiðafjarðarbáturinn, Borgarnesbáturinn og svo Skaftfellingur. Ætlast nefndin til, að 100 þús. kr. nægi til þessara báta, ásamt nokkrum smáupphæðum til minni báta. Smærri styrkir til báta telur hún rjett, að settir sjeu í fjárlög framvegis. Nefndin hefir haft til álita tillögur samgmn. Nd., og ganga till. Ed.-nefndarinnar í svipaða átt, aðeins hefir hún breytt örlítið sunnan- og austanlands.

En þar sem þessar till. liggja ekki undir úrskurð þingsins, þá hefir nefndin afgreitt þær til stjórnarinnar.

Þá sný jeg mjer að brtt. við frv. Aðeins tvær brtt. fjvn. hafa mætt andmælum. Önnur er um aðstoðarlækninn á Ísafirði, og get jeg slept að tala um hann, þar sem hv. 5. landsk. þm. (JJ) hefir svarað þeim aths., sem komið hafa við brtt. nefndarinnar í því efni. Þá er hin, sem er um styrkinn til Árna Th. Pjeturssonar. Mjer er óljúft að fara langt út í það efni. Skal jeg aðeins taka það fram um svona mál yfirleitt, að jeg tel illa farið, ef einstakir menn, sem telja sig beitta misrjetti af veitingarvaldinu, þurfa ekki annað en hlaupa til Alþingis. Komist þessi venja á, er ekki gott að vita hvar staðar verður numið, og strangt tekið heyrir það ekki undir þingið að úrskurða um slík mál. Fjvn. álítur því rjettast, að þingið skifti sjer sem allra minst af svona málum, og er því mótfallin, að maður þessi sje tekinn á eftirlaun, sem máske haldast alla æfi hans. Hafi þessi maður verið rangindum beittur, þá liggur beinast við, að dómstólarnir rjetti hlut hans.

Þá eru nokkrar brtt. einstakra þm. Fyrst eru brtt. á þskj. 519. Nefndin hefir óbundnar hendur, bæði um brtt. hæstv. fjrh. (KIJ) og eins brtt. hæstv. forsrh. (SE) um styrk til augnlækninganáms.

Þá er brtt. frá 3 hv. þm. um utanfararstyrk, 1800 kr., til Skúla læknis Guðjónssonar. Við 2. umr. lagði meiri hl. nefndarinnar til, að honum væru veittar 2000 kr., og er hann því þessari styrkveitingu að sjálfsögðu hlyntur enn, og væntir þess, að þessi brtt. verði samþ., enda mun það hafa stafað af ókunnugleika eða tilviljun, að till. nefndarinnar var feld við 2. umr.

Nefndin treystir sjer ekki til að mæla með brtt. hv. 2. þm. Rang. (GGuðf), um styrk til unglingaskólans í Vík. Tók hún upp 15000 kr. fjárveitingu til að styrkja barnaskólabyggingar utan kaupstaða, og treystir nefndin sjer ekki til að fara lengra með skólabyggingarstyrk.

Frá sama hv. þm. (GGuðf) er brtt. um að veita stjórninni heimild til að lána 7000 kr. til þess að endurbyggja Holtaveginn. Nefndin er þessu meðmælt, enda ekki sjáanlegt, að hægt sje að komast hjá því, ef nokkurt fje er fyrir hendi. Aftur á móti getur nefndin ekki mælt með því að veita ábúandanum á Hlíðarenda í Fljótshlíð lán til húsabygginga, jafnvel þó að þessi fornhelgi staður ætti þá skilið, að honum væri sýndur sómi. Þessi lánsheimild væri gagnslaus, þar sem ekkert fje verður fyrir hendi til útlána.

Meiri hluti nefndarinnar er meðmæltur 80 þús. kr. lánsábyrgð til rafmagnsveitunnar í Vestmannaeyjum. Telur það sjálfsagt, þar sem hjer er aðeins um endurveitingu að ræða, sem hefir staðið áður í fjárlögum.

Þá koma brtt. á þskj. 535. Hin fyrsta er um læknisvitjanastyrk, sem talað var hjer um við 2. umr. frv. Eins og þá stóð á, gat nefndin ekki fallist á þennan styrk og tók til athugunar, hvort ekki mætti fella niður eitthvað af samskonar styrkveitingum, sem komið var inn í frv. En sökum naumleika tímans sá nefndin sjer ekki fært að gera upp á milli styrkveitinganna, enda brast hana kunnugleika á ýmsum stöðum. Lætur hún brtt. þessar því afskiftalausar, enda þótt telja megi ver farið, að þær væru samþyktar, því við það hækkar upphæðin, sem veitt verður í þessu skyni, frá því sem nú er.

Þá er brtt. hv. 2. þm. G.-K. (BK) um styrk handa Þorgrími lækni Þórðarsyni í Keflavík, til að halda aðstoðarlækni, 400 kr. Nefndin getur ekki mælt með þessari brtt., enda þótt hlutaðeigandi læknir sje orðinn þungfær til að gegna störfum sínum. Henni finst varhugavert að ganga þessa braut, og ef þetta verður veitt, þá verður erfitt að neita öðrum um samskonar styrk, sem líkt stendur á um. Hv. flm. (BK) sagði, að það væri ekki nema kurteisi að veita þennan styrk. Vitanlega ræðir hjer ekki um háa upphæð, en það er fordæmið, sem nefndin vill ekki skapa.

Jeg get ekki varist að bera þetta saman við það, að prestar taka sjer oft aðstoðarpresta og launa þeim þá altaf sjálfir. Það ætti því að vera sama regla með læknana. Sje hjer um svo mikil læknisstörf að ræða, að einn maður komist ekki yfir þau, þá ætti að vera lífvænlegt þar suður frá fyrir 2 lækna.

Nefndin hefir óbundin atkvæði um brtt. háttv. 5. landsk þm. (JJ) við liðinn um uppbót til símamanna.

Þá er brtt. frá hv. 2. þm. S.-M. (SHK) um að hækka styrk til útgáfu alþýðukenslubóka, og getur nefndin fallist á þá tillögu.

Þá er brtt. frá háttv. mentmn. um að hækka styrk til Þjóðvinafjelagsins upp í 10 þús. kr. Um þessa brtt. hefir nefndin óbundin atkvæði og sömuleiðis um aðra brtt. frá þrem háttv. þm., um að veita Sláturfjelagi Suðurlands lán til sútunarverksmiðju.

Kem jeg þá að brtt. þeirra háttv. 2. þm. G.-K. (BK) og háttv. 6. landsk. þm. (IHB), um að veita Sesselju Ólafsdóttur 2000 kr. viðurkenningarstyrk. Meiri hluti nefndarinnar getur ekki aðhylst þessa brtt. Ekki svo að skilja, að hann neiti því, að kona þessi sje alls góðs makleg. En meiri hl. veit, að það eru svo margir, sem leyst hafa af hendi mikilvægt æfistarf, en ríkissjóður verður aldrei megnugur að veita makleg laun öllum.

Fjvn. veit heldur ekki til þess, að hún sje á flæðiskeri stödd efnalega; henni er kunnugt um, að þessi kona er í tengdum við efnað fólk, og er þess vegna ástæða til að ætla, að henni sjeu nokkurn veginn trygðir góðir dagar í elli.

Þá er næst að athuga 2 brtt. háttv. þm. Vestm. (KE), og get jeg rætt um þær báðar í einu lagi.

Fjvn. setur sig ekki beint á móti brtt., en ástæða er til að geta þess, að um það leyti, er nefndin var að ljúka till. sínum til 3. umr. við fjárlögin, fjekk hún heimsókn frá fulltrúum Byggingarfjelags starfsmanna ríkisins, sem fóru fram á, að nefndin tæki upp í frv. styrk og lánsheimild til fjelagsins. Nefndin sá sjer ekki fært að verða við þessum tilmælum á síðustu stundu, þar sem henni virtist málið ekki vel undirbúið, og því tæpast tímabært að flytja það nú í þinginu. Hins vegar viðurkennir nefndin fúslega, að húsaleigan hjer í Reykjavík er þungur skattur, og að full þörf er á því, að gera eitthvað til þess að ljetta þá byrði, en hvort þetta er heppilegasta leiðin, er annað mál. Það er fyrst og fremst hætt við því, að þessar byggingar verði dýrar, ef á að fara að ráðast í þetta meðan byggingarefni og vinna er í eins háu verði og nú er. Í öðru lagi geta það ekki orðið nema sárfáir menn af öllum starfsmannafjöldanum, sem þessa geta notið fyrst um sinn. Áhrifanna af þessu færi ekki að gæta fyr en eftir 10–20 ár. Enn fremur er hugsanlegt, að húsaleiga á næstu árum muni alment lækka, svo að íbúðir þessar yrðu of dýrar til þess, að mennirnir gætu borið leiguna, og væri þá ver farið en heima setið. Í stuttu máli: Fyrirtækið er nýtt, lítið undirbúið og flestum ókunnugt. Það er því fullkomin ástæða til að rasa ekki fyrir ráð fram.

Þá kem jeg að síðustu brtt., þ. e. heimild fyrir landsstjórnina að ábyrgjast alt að 80000 kr. fyrir Vestmannaeyjakaupstað til aukningar rafmagnsveitunnar þar, og hefir nefndin óbundnar hendur um atkvæðagreiðsluna. Þessi heimild hefir staðið í fjárlögunum áður, og er því endurveiting. Meiri hluti nefndarinnar telur rjett að samþykkja þessa tillögu.

Sje jeg svo ekki ástæðu til þess að segja meira fyrir hönd fjvn. um brtt. þessar, en vil að lokum taka undir ummæli háttv. 2. þm. S.-M. (SHK), að jeg tel það illa farið, ef háttv. Nd. ætlar að setja fótinn fyrir vörutollsfrumvarpið, sem þessi deild afgreiddi, því að ríkissjóði mun ekki veita af þeim auknu tekjum, sem það frv. hefði veitt honum. Sama er að segja um útflutningsgjaldsfrumvarpið, sem legið hefir í Nd. frá því í þingbyrjun og enn er ekki komið fram. En ef til vill má vænta þess bráðlega.