07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

1. mál, fjárlög 1924

Gunnar Sigurðsson:

Jeg hefi litlu látið mig skifta þessi fjárlög yfirleitt og síst hefi jeg valdið hækkunum útgjaldanna.

Það er ein brtt. hv. fjvn., sem jeg ætlaði að minnast á örfáum orðum, sú, að fella niður námsstyrk til Markúsar Kristjánssonar slaghörpuleikara (eða píanóleikara). Jeg man reyndar ekki betur en að jeg hafi áður greitt atkvæði á móti þessari styrkveitingu, en þá þekti jeg ekki þennan mann, og jeg legg yfirleitt ekki mikið upp úr vottorðum, sem fylgja styrkbeiðnum.

En fyrir skömmu hittist svo á, að jeg fjekk tækifæri til að heyra mann þennan leika á hljóðfæri.

Að vísu skal það viðurkent, að jeg er enginn sjerstakur listdómari á þessu sviði, en þó þori jeg að fullyrða, að hann hefur alveg óvenjulega hæfileika til að bera, eftir þeirri leikni að dæma, sem hann spilar með hin vandasömustu hlutverk, ekki meiri kenslu en hann hefir hlotið. Þá hefir hann og sjálfur samið mjög snotur lög og má gera sjer hinar bestu vonir um framtíð hans á því sviði. Legg jeg eindregið til, að honum sje veittur þessi styrkur, því svo segir mjer hugur um, að það geti margborgað sig fyrir þjóðina.