07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í B-deild Alþingistíðinda. (837)

1. mál, fjárlög 1924

Þorsteinn Jónsson:

Jeg hefi borið hjer fram brtt. á þskj. 578, ásamt háttv. þm. N.-Ísf. (SSt), um verðlaun til Sveinbjörns Sveinssonar fyrir að semja og birta í Búnaðarritinu ritgerð um örugg ráð til að vinna á stuttum tíma refi í grenjum. Þessi sama till. kom fram á þinginu 1919 og var þá borin fram af hv. 1. þm. N.-M., sem þá var. Er orðalag tillögunnar sama og var þá, og skal jeg játa, að það er ekki sem heppilegast. Þó till. þessi verði samþykt, er ekki ætlast til, að styrkur þessi verði veittur, nema stjórn Búnaðarfjelagsins telji það rjett, eftir því sem í tillögunni felst.

Jeg þekki mann þennan og veit, að hann er óvenjuheppinn í grenjavinslum. Hann telur, ef rjett sje að farið, þá megi vinna hvert greni á 12 tímum. En til þess ganga oft fleiri dagar. Ef þetta er rjett, þá fengi landið margborgaðan þennan litla styrk aftur, með því að almenningur lærði hinar fljótlegu og hagfeldu aðferðir við grenjavinslu.

Þá á jeg brtt. á þskj. 582, ásamt háttv. 1. þm. Reykv. (JakM), um styrk til Skólablaðsins. Annars hefir meðflutningsmaður minn talað svo vel fyrir till. þessari, að það er óþarfi af mjer að bæta þar miklu við. Vil jeg þó undirstrika það, sem hann sagði, að það er algengt, að blöð og tímarit fái styrk; er þetta því engin undantekning. Og fái blaðið ekki styrk þennan, verður það að hætta að koma út.

Um styrkinn til Þjóðvinafjelagsins skal jeg taka það fram, að jeg tel rjett að láta hann halda sjer eins og efri deild gekk frá honum, því að jeg tel, að hann geti orðið til mikils gagns fyrir þjóðina.