07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (838)

1. mál, fjárlög 1924

Pjetur Þórðarson:

Það virðist helst sem hv. fjvn. þyki það að ófyrirsynju, að jeg hefi borið fram brtt. á þskj. 578, um hækkun styrks til bátaferða á flóum, fjörðum og vötnum. Jeg mintist á það endur fyrir löngu í samgöngumálanefndinni, þegar hún var að semja tillögur um skifting styrksins fyrir yfirstandandi ár, að mikil nauðsyn væri að hækka styrkinn til þessara ferða, og tóku flestir nefndarmenn því þá mjög fjarri. Var hann þó 1/4 hærri en nú í fjárlagafrv., eða 100 þúsund krónur. Hann var samt langt frá því að vera fullnægjandi til þeirra bátaferða, sem mest nauðsyn var á að styrkja. Þannig voru t. d. sumar umsóknirnar lækkaðar um 2/3 hluta. Alstaðar var sama sagan, styrkurinn reyndist alveg ónógur til þess að halda allra nauðsynlegustu ferðunum uppi. Má þar til nefna Djúpbátinn, Breiðaflóabátinn, Faxaflóabátinn og bát þann, er gengur upp að ströndum Vestur-Skaftafellssýslu, eða yfir höfuð að tala fyrir allri strandlengjunni austan frá Hornafirði og norður fyrir Ísafjarðardjúp. Austfirðir og Norðurland munu líka hafa þótt bera skarðan hlut frá borði, þrátt fyrir Esjuferðirnar væntanlegu.

Sumir telja, að ekki sje rjett að ætla meira til bátaferðanna en stjórnin áætlaði, af því að með strandferðaskipinu nýja minki þörfin fyrir þá. En þessu er ekki þann veg farið, því að það hlýtur að vera öllum hv. þm. auðsætt, að ekki er hægt að komast af með minni ferðir t. d. á Ísafjarðardjúpi en nú eru. Sama er að segja um ferðir á innanverðum Breiðafirði, Hvammsfirði og Gilsfirði. Hið eina, sem hugsanlegt er að fella mætti niður af ferðum þessum, eru nokkrar ferðir milli Breiðafjarðar og Reykjavíkur. En aftur er knýjandi nauðsyn á því að fjölga ferðum á innanverðum Faxaflóa, alveg óumflýjanleg. Þá er líka lítil von um, að strandferðaskip bæti úr ferðaþörfinni til Suðurlandsundirlendisins. Það bendir því ekkert í þá átt, að ferðaþörfin verði minni eða ferðirnar ódýrari eftirleiðis. Heldur lítur út fyrir hið gagnstæða. Á þessum ástæðum hefi jeg bygt tillögu mína, og jeg skal geta þess, að jeg samdi hana ekki fyr en jeg var búinn að sjá tillögur hv. fjvn. Sá jeg þar, að hún hefir ætlað 6 þús. af þeim 75 þús. kr., sem til bátaferðanna eiga að ganga, sem viðbótarstyrk til Breiðafjarðarbátsins Svans. Hefi jeg því miðað mína tillögu við till. nefndarinnar og ætlað styrkinn 96 þús. kr., til þess, að eftir yrðu 90 þús. til bátaferðanna yfir höfuð, og farið þannig sem næst meðalveg milli áætlunar þessa árs og þeirrar, er nú liggur fyrir.

Jeg hefi enga hugmynd gert mjer um það, hvernig þessu verði tekið. En það eitt veit jeg, að óhjákvæmilegt verður að veita þetta eða síst minni fjárhæð til þessara ferða áður langt um líður. Það má vel vera, að sumir líti svo á, að „frestur sje á illu bestur,“ og því sje rjett að veita þessa fjárhæð sem minsta nú, til þess að mismunurinn á tekjum og gjöldum fjárlaganna verði sem minstur. En mjer finst það koma alveg í sama stað niður.

Þá á jeg enn fremur XIII. brtt. á þskj. 578. um lítinn styrk til ábúandans í Grísartungu. Háttv. deild sýndi till. þessari velvild um daginn. Læt jeg því skeika að sköpuðu, hvernig um hana fer nú.

Þá skal jeg geta þess. háttv. fjvn. til hugarhægðar, að jeg býst við að geta greitt atkv. með einhverjum af till. hennar, sem jeg greiddi atkvæði á móti um daginn. Jeg skal svo að endingu geta þess, að jeg mun greiða atkv. um hverja fjárveitingu eftir því, hvort jeg tel þær sanngjarnar eða rjettar, og læt mig engu skifta, hvaðan þær koma eða hverjir mæla með þeim eða á móti.