07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

1. mál, fjárlög 1924

Eiríkur Einarsson:

Jeg skal láta þess getið viðvíkjandi þessari brtt. minni um styrk til sjúkrahússins, að fjárbeiðnin kemur nú fram við fjárlögin, í stað þess, að hún var áður komin fram í sambandi við fjáraukalögin og var feld þar með litlum atkvæðamun. En síðan hefir þessari beiðni aukist fylgi, því formaður heilbrigðismálanna, landlæknir, leggur eindregið til, að þessi styrkur verði veittur, samkvæmt álitsskjali hans, er liggur nú fyrir háttv. deild, og segir landlæknir þar einnig í óspurðum frjettum, að það hafi verið hann, sem lagði til, að Geysishúsið yrði rifið og selt, eins og gert var. Ætla jeg ekki að fara að endurtaka það, sem um þetta hefir verið rætt, en þykir jafngott, að þessar snarrótarþúfur hjer í þinginu, er standa í hvirfingu og ekki láta sig, þótt góð og gild rök komi á móti staðhæfingum þeirra, heyri enn með auknum upplýsingum, hvað rjett er og satt um þetta Geysismál.

Jeg verð að segja það, að það er einkennilegt innræti hjá háttv. 2. þm. N.-M. (BH), sem er bóndi af Austurlandi, að hann skyldi finna ástæðu til þess að minnast á þessa brtt. mína við hliðina á brtt. um styrk til Dansk-islandsk Samfund; allur í auðmýktaráttina gagnvart hinu danska, en þjösnaleg andæfi gegn hjálp handa fátæku og ógreiðfæru læknishjeraði til að reisa læknisbústað. Þetta sýnir vel, hve fylgispektin við hjegómadýrðina getur leitt bóndaeðlið langt frá föðurhúsunum