07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í B-deild Alþingistíðinda. (845)

1. mál, fjárlög 1924

Sveinn Ólafsson:

Það er með hálfum hug að jeg stend upp. Veit jeg ekki, nema jeg kunni að koma við kaun einhverra hv. þm., og yrði það til að lengja umræður, en því vildi jeg síst af öllu verða valdur að. Sjálfur á jeg enga brtt. við fjárlögin í þetta sinn, svo að jeg þarf ekki að mælast til skófna. En sumum brtt., sem nú eru til umræðu, er svo varið, að þær snerta mig nokkuð, þótt óbeint sje.

Jeg hefi verið að velta því fyrir mjer nú um hríð, hver væri aðalstefna fjvn. í tillögum hennar, og er mjer það ekki vel ljóst. Háttv. frsm. (MP) hefir að vísu lýst henni svo, að nefndin legði einkanlega kapp á að koma fram verklegum fyrirtækjum og veita fje til þeirra. Þó finst mjer ýmislegt í tillögum nefndarinnar benda í aðra átt og sumar þessara verklegu framkvæmda vera alt annað en líklegar til að gefa góðan árangur.

Þá þykir mjer það sjerstaklega einkennilegt, að háttv. fjvn. virðist líta hornauga allar þær fjárveitingar, sem miða að því að auka alþýðlega mentun og menningu. Þannig eru 3 tillögur, hver á eftir annari, á þskj. 557, er sýna þessa stefnu nefndarinnar. Hún leggur sem sje á móti styrk til byggingar barnaskóla utan kaupstaða, og einn nefndarmaður. hv. þm. Dala. (BJ), tók jafnvel svo djúpt í árinni, að hann sagði, að hvergi á landinu ætti eða mætti veita fje til byggingar slíkra skóla nema í kaupstöðum Mjer er spurn, hver ástæða sje þá til að leggja fje til skóla í kaupstöðum, þar sem þeir t. d. eru ekkert mannfleiri en kauptúnin. Líkt mun þó ástatt um þörfina, hvort kaupstaður heitir eða kauptún. Mjer er ekki ljóst, hvers vegna veitt hefir verið á sínum tíma til skólahúsa þar, ef stærri kauptún geta aldrei vænst styrks í líkri mynd. Þetta er áreiðanlega ekki sú stefna í mentamálum, sem almenningur telur nefndinni til meðmæla eða þakkarverða. Þar sem nú stendur svo á, að enn er skólalaust í tiltölulega fjölmennum kaupstöðum, vona jeg, að 11. brtt. fjvn., um að lækka styrk til skólahúsa utan kaupstaða, verði feld, og þá einkum athugasemdin.

Annað, sem bendir í sömu átt hjá hv. nefnd, er 13. brtt. á þskj. 557, þar sem hún leggur til að lækka fjárveitinguna til kaupstaðabókasafna. Þetta hefir verið tekið svo ljóslega fram af háttv. 2. þm. N,M. (BH), að jeg þarf ekki að fjölyrða um það.

Þriðja tillagan, er bendir í sömu átt, er 14. brtt. á sama þskj., sem fer fram á að rýra að miklum mun styrk þann, er háttv. Ed. ætlaði til útgáfu alþýðlegra fræðirita af hendi Þjóðvinafjelagsins. Því fer svo fjarri, að jeg geti verið þakklátu? nefndinni fyrir afskifti hennar af þessu máli, að jeg tel hana miklu fremur mjög ámælisverða.

Jeg skal ekki grípa víðar niður, þó að jeg sje óánægður með ýmsar fleiri tillögur nefndarinnar. En það vil jeg taka fram alment um þær verklegu framkvæmdir, sem háttv. frsm. (MP) lætur svo mikið af, að jeg tel þær ekki allar heppilegar. T. d. er í 24. brtt. á þskj. 557 há styrkveiting til sútunarhúss Sláturfjelagsins. Jeg tel það mjög hæpið fyrirtæki; liggur nærri mjer að líta á það eins og glæfrafyrirtæki, eftir þeim kynnum, sem jeg hefi af skinnasútun. En háttv. nefnd vílar eigi fyrir sjer að mæla þar með háum styrk og enn hærra láni. Hjer er um allsendis óþekt fyrirtæki að ræða og miklu hæpnara en ullariðjufyrirtæki það, sem hjer í deildinni var farið fram á að styrkja með láni, en meiri hl. nefndarinnar lagði fastlega á móti, og þó var þetta fyrirtæki, og er, svo vel á veg komið, að bestu vonir gaf um framkvæmd. Jeg mun því óhikað greiða atkvæði móti þessari stóru fjárveitingu til skinnasútunar.

Þá vil jeg drepa á 23. brtt., um 800 kr. styrk til að gera Eyrarfoss í Laxá í Svínadal laxgengan. Jeg tel það fyrirtæki, sem hjeraðsbúar eigi að annast sjálfir. Jeg veit, að í mínu hjeraði mundi það vera talinn hálfgerður beiningamannshugsunarháttur að biðja um ríkisstyrk til þess að koma upp silungaeða laxastiga í læk eða veiðiá.

26. brtt. nefndarinnar, um styrk til Árna Theódórs Pjeturssonar, er mjer líka þyrnir í augum með þeirri athugasemd, sem henni fylgir.

Þá er 29. brtt. Þar er að vísu um lán að ræða, en jeg tel það einberan hjegóma að veita 7000 kr. lán til að endurreisa eyðibýli í Dölum vestur. Jeg þekki fjölda eyðibýla, sem hafa verið í rækt og bygð fram á síðustu ár, en nú fást eigi bygð. Hjer er um beinan bitling að ræða, og það nær engri átt að styrkja menn af ríkisfje til að taka upp afskekt heiðarbýli, sem fólkið hefir yfirgefið vegna einangurs. Þar helst ekki bygð við til lengdar, og því fje mun oftast sem í sjóinn kastað, sem til þeirra fer. Væri nær hæfi að styrkja menn til að taka upp nýbýli í nánd við margbýli eða fiskiver, þar sem landkostir eru góðir.

Jeg get þá ekki stilt mig um að minnast á brtt. á þskj. 578,XVI, er fer fram á að veita austfirskum manni 2000 kr. fyrir að semja og birta í Búnaðarritinu rirgerð um örugg ráð til að vinna á stuttum tíma refi í grenjum. Í fjárlögunum 1920 voru þessum sama manni veittar 2000 kr. í sama skyni. Þá var fjárveitingin ekki bundin neinu skilyrði, en við umræðurnar hjer í þessari háttv. deild var það látið í veðri vaka, ef því var ekki beint lofað, að hann mundi gefa almenningi upplýsingar um þessar nýju aðferðir. En þær eru ókomnar enn þá. Mjer er ókunnugt, um, hvort maðurinn hefir hrept þetta fje, en fjárveitingin stendur í fjárlögunum. Jeg sje mjer ekki fært að fylgja þessari brtt., finst það nokkuð þokukent, sem fjárveitinguna á að byggja á.

Loks kem jeg að síðasta atriðinu, sem jeg vildi víkja að. Það er brtt. á þskj. 578,XVII, þar sem farið er fram á lánveitingu til ákveðins manns, klæðskera hjer í bænum, til þess að sauma karlmannafatnað úr Álafossdúkum. Jeg sje í þessu ekkert annað en tilraun til að koma í peninga lítt útgengilegri vöru, sem eru þessir grófu og garmslegu Álafossdúkar, sem hvarvetna eru hjer á boðstólum hafðir með ránverði og ganga ekki út. Má vera, að þetta sje góðverk við verksmiðjuna, en ekki veit jeg, hvort það tekur svo mjög til almennings, að vert sje að fórna fje til þess, og fráleitt getur þetta skraddaralán afstýrt innflutningi á tilbúnum ásjálegri fötum.

Þetta var hið helsta, er jeg þóttist þurfa að taka fram, og mun jeg láta mjer það nægja.