07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

1. mál, fjárlög 1924

Björn Hallsson:

Jeg kom svo illa við kaun háttv. 1. þm. Árn. (EE) með því að minnast á tvær brtt., að hann fór að leitast við að gera mig hlægilegan. Hann kvað það undarlegt, að bóndi austan úr fjörðum skyldi mæla með styrk til Dansk- islandsk Samfund, en vera mótfallinn lítilsháttar styrk til fátæks læknishjeraðs. Jeg vil leyfa mjer að leiðrjetta þetta. Jeg var ekki að mæla með styrknum til Dansk- islandsk Samfund, enda hefði jeg staðið illa að vígi til þess, þar sem jeg greiddi atkvæði með því að fella þann styrk alveg niður. En mjer þykir hv. fjvn. hafa farið of langt í till. sinni, lækkað styrkinn svo, að hann er blátt áfram hlægilegur, þar sem þingið er á annað borð að styrkja fjelagið. Því var það, að jeg mælti á móti brtt. nefndarinnar, en ekki af því, að jeg væri meðmæltur styrknum. Hins vegar hefði það ekkert hneyksli verið, þótt bóndi hefði talað fyrir styrk til þessa fjelags, því að ýmsir bitlingar eru veittir, sem að minna haldi koma, því að fjelagið starfar mikið. En þessu var nú samt ekki til að dreifa.

Í tilefni af því, að jeg hafði andmælt styrkveitingu til læknisbústaðar í Grímsneshjeraði, sem margupplýst er um, að er þegar orðin allveruleg, var háttv. 1. þm. Árn. (EE) að tala um snarrótarþúfur, sem væru hjer í deildinni, og virtist hann vera hræddur um, að hann myndi hnjóta um þær. Þetta er skiljanlegt. Háttv. þm. kemst aldrei út úr þeim þokumekki, sem umvefur hann sí og æ hjer í hv. deild, og er því von til þess, að honum verði byltuhætt, þegar eitthvað verður fyrir fótunum á honum eða fæti brugðið fyrir hann.