07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

1. mál, fjárlög 1924

Þorleifur Guðmundsson:

Jeg vil leyfa mjer að leiðrjetta ofurlítinn misskilning hjá hæstv. atvrh. (KIJ). Hann sagði fyrst og fremst, að jeg mundi verða ánægður, og hefði aldrei ætlast til annars en að fá að vita af Selvogssímanum á pappírnum. Jeg vil láta hæstv. atvrh. (KIJ) vita, að jeg sje engin ráð til að fá þennan síma, nema hann komist fyrst á pappírinn. Og þó að hæstv. atvrh. noti þá athugasemd um, að símarnir verði ekki lagðir nema fje sje fyrir hendi, eins og hann er að hóta mönnum, er meiri von til þess, að þingið endurveiti síðar fje til þeirra síma, sem einu sinni eru komnir inn í fjárlögin.

Þá mintist hæstv. atvrh. (KIJ) á, að jeg hefði brugðið honum um, að hann legðist á lítilmagnann, svo sem jeg hefði þar átt við sjálfan mig. En auðvitað átti jeg þar ekki við mig, heldur við þá, sem símans eiga að njóta. Því ekki kom mjer það til hugar, að hæstv. atvrh. færi í manngreinarálit í deildunum. Jeg lýsti því einmitt hjer um daginn, af því að jeg vildi ekki dylja háttv. deild neins, að þá sagði jeg í sambandi við þennan síma, svo að þeir gætu sjeð, að ekki væri mikilla tekna að vænta af símanum fyrst um sinn, að þessir menn, sem Selvoginn byggju, væru fáir, fátækir og smáir, og að það væru þeirra þarfir, sem hæstv. atvrh. (KIJ) lagðist á móti, en ekki jeg. En jeg veit vel, að það er vandi að vera ráðherra, en jeg veit líka, að á ráðherra hvílir sú skylda að gæta hagsmuna allra þegna ríkisins, og þá ekki síst þeirra smærri, því það, sem hann gerir fyrir þá, gerir hann fyrir þjóðina, af því að þeir eru þjóðarinnar börn.