07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

1. mál, fjárlög 1924

Magnús Jónsson:

Jeg á tvær brtt. á þskj. 578, og get jeg verið fáorður um þær. Í hinni fyrri er aðeins um lítilsháttar leiðrjettingu að ræða, og þarf hún engra skýringa við.

Hin brtt. er um að setja inn í fjárlögin 2500 króna upphæð, til að greiða með 2. afborgun af andvirði handrita dr. Jóns Aðils. Vona jeg, að háttvirt deild fallist á þessa fjárveitingu. Er jeg þakklátur háttv. fjvn. fyrir að hafa tekið svo vel í þessar till. mínar. Ef til vill er það nú ekki fallegt af mjer að þakka háttv. fjvn. með því að vefengja 2 brtt. hennar, en jeg get þó ekki stilt mig um það. Önnur er tölul. V. á þskj. 578. Er hún um það að nafnbinda styrk til augnlækninganáms. Það er ekki svo, að jeg sje mótfallinn því, að þessi styrkur sje veittur, en jeg vil ekki nafnbinda hann. Jeg hefi sem sje heyrt, að fyrir nokkru síðan sjeu 2 íslenskir læknar byrjaðir að nema augnlækningar erlendis. Er ekki að vænta þess, að þeir hætti við það nám sitt, og finst mjer því, er farið er að veita styrk til þessa náms, að skakt sje að binda hann við nafn þriðja mannsins, sem enn þá hefir ekki bundið sig náminu. Jeg skal játa, að of lítið mun vera, að hjer sje aðeins einn augnlæknir, en óvíst er aftur á móti, að 4 verði ekki of mikið. Fellur mjer, af þessum ástæðum, betur við gr. eins og háttv. Ed. hefir gengið frá henni, að stjórnarráðið veiti þennan styrk einhverjum manni eftir tillögum landlæknis. Standa þessir menn með því móti jafnt að vígi.

Hin brtt. er 3. tölul. á þskj. 557. Er hún um það að fella niður styrk Guðrúnar Gísladóttur hjúkrunarkonu. Býst jeg við, að hún stafi af því, að 2 hjúkrunarkonur hafa sótt um slíkan styrk, báðar feldar í Nd., en svo önnur tekin upp aftur í háttv. Ed. og samþykt. Hefir háttv. fjvn. sjálfsagt borið fram hina brtt. af því, að hún hefir ekki viljað gera upp á milli þessara tveggja kvenna. En nú hefir önnur þeirra komist að í fjáraukalögum, og væri því misrjetti að samþykkja þessa tillögu og fella niður styrkinn til þessarar. Býst jeg við, að þetta hafi orðið af misgáningi, og þætti mjer fróðlegt að heyra frá háttv. frsm. (MP), hvort svo er ekki.

Skal jeg svo ekki þreyta háttv. deild á lengri ræðu, þótt jeg annars hefði gjarnan viljað minnast á fleiri atriði.