07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

1. mál, fjárlög 1924

Lárus Helgason:

Það eru aðeins nokkur orð, út af ræðu háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Hann veittist mjög að styrkveitingunni til Sláturfjelags Suðurlands. Hann taldi þetta fyrirhugaða fyrirtæki vera jafnvel glæfralegt, svo ekki væri vogandi að leggja fje í það, en hann gleymdi alveg að rökstyðja þetta og sýna fram á, í hverju þeir glæfrar muni liggja. Sú röksemdafærsla mundi líka sjálfsagt hafa gengið heldur þunglega, því eins og flestum háttv. deildarmönnum mun kunnugt, er braut þessa fjelags alt annað en glæfraleg. Það hefir fetað sig áfram smátt og smátt og stuðlað að því á ýmsan hátt að auka og bæta efnahag bænda á fjelagssvæðinu. Það hefir komið sjer upp miklum og vönduðum húsum, þar á meðal vandaðasta frystihúsi í landinu. Alt þetta hefir fjelagið gert án nokkurs styrks af opinberu fje. Fjelagið hefir verið gætinn brautryðjandi hingað til. Nú stendur það best allra að því að leita eftir sölu á erlendum markaði á frystu kjöti. Bendir þetta og ýmislegt fleira á það, að hjer er ekki farið neitt glæfralega að. Jeg hefi ekki sagt þetta af því, að jeg hafi í raun og veru álitið það nokkra nauðsyn að mótmæla hinum órökstuddu ummælum háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), því jeg býst ekki við, að háttv. deildarmönnum hafi snúist hugur við þau. En jeg kunni ekki við að láta svo ómakleg orð um þetta fjelag standa ómótmælt hjer í þinginu.

Þá lagðist háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) á móti brtt. háttv. þm. Dala. (BJ) um lánveitingu til að styðja fatagerð úr íslenskum dúkum. Kvað hann það mál einskisvert. En jeg tel einmitt rjett að styðja að þessu, að okkar eigin ullardúkar sjeu notaðir til fata hjer. Eru þeir sem kunnugt er miklu haldbetri en flestir erlendir dúkar, og væri mikill munur fyrir landsmenn að kaupa fatnað úr þeim heldur en hinum dýru og ónýtu erlendu dúkum. Er þetta og spor í áttina til að styðja íslenskan iðnað, og samir oss tæplega að standa gegn því. Vona jeg líka, að háttv. deildarmönnum hafi ekki heldur snúist hugur í þessu máli.