07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (851)

1. mál, fjárlög 1924

Jón Þorláksson:

Jeg á brtt. á þskj. 578, um fjárveitingu til Byggingarfjelags starfsmanna ríkisins, sem nemi alt að 20000 krónum. Eins og háttv. deildarmenn muna, þá hefir verið á þessu þingi borið fram frv. til laga um sjerstaka uppbót til embættismanna hjer í Reykjavík, vegna meiri dýrtíðar hjer en annarsstaðar. Voru þá leidd rök að því, að sú dýrtíðaruppbót, sem embættismenn hjer eiga við að búa, er hvergi nærri fullnægjandi, enda hlutfallslega minni en annarsstaðar á landinu, þar sem ódýrara er að lifa. Eitt, sem veldur mestu um þetta, er hin háa húsaleiga hjer í bænum. Kemur hún einkum hart niður á þeim embættismönnum hjer, sem eru svo ungir að árum, að þeir voru ekki búnir að byggja sjer hús til íbúðar áður en ófriðurinn mikli skall á. Við umr., sem urðu út af frv. þessu, sem jeg gat um áður, var það upplýst, að til eru hjer embættismenn, sem gjalda helming launa sinna aðeins til húsaleigu. Má geta nærri, hvernig afkoma þeirra manna muni vera. Þetta frv. um dýrtíðaruppbót náði ekki fram að ganga, en í umr. var það þó viðurkent af þeim, sem mæltu á móti því, að nauðsynlegt væri að gera eitthvað til að bæta úr kjörum þeirra manna, sem verst væru settir. Var þar einkum bent á tvær leiðir. Önnur var sú, að veita nokkra fjárhæð í því skyni að veita þeim embættismönnum hjer, sem verst yrðu úti, nokkurs konar húsaleigustyrk. Skyldi þá sá styrkur veittur eftir till. stjórnar fjelags starfsmanna ríkisins. — Hin leiðin er að styðja þessa menn til að koma sjer upp bústöðum. Jeg geri ráð fyrir, að fyrri leiðin myndi, er fram í sækir, verða óvinsæl, einkum vegna þess, að það fje, sem hjer yrði greitt úr ríkissjóði, rynni fremur í vasa þeirra manna, sem leigja hús sín þessu háa verði, en til leigjenda þeirra, sem það var ætlað. Hallast jeg því fremur að þeirri síðari, að styrkja þessa menn til þess að koma sjer upp bústöðum, ekki dýrari en svo, að þeir samsvari launakjörum þeirra. Eins og menn vita, var fyrir 2 árum gerð tilraun til þess að stofna byggingarfjelag meðal þessara starfsmanna ríkisins. En sú tilraun strandaði á því, að byggingarkostnaður var of hár það ár. Nú má sjá það af skýrslu húsameistara í Hagtíðindunum, að sá kostnaður hefir lækkað talsvert síðasta ár. Árið 1920 er byggingarkostnaður fimmfaldur við það, sem var 1911, en 1922 er hann aðeins orðinn þrefaldur. Má eftir því gera ráð fyrir, að hann sje nú eitthvað minni en þrefaldur við það, sem hann var fyrir stríðið. Nú hafa þessir starfsmenn ríkisins endurtekið tilraunina og stofnað byggingarfjelag. Eru einkum í þeim fjelagsskap þeir embættismenn, sem húsaleiguvandræðin steðja frekast að. Til þess að geta komið fram þessu fyrirtæki sínu, hafa þeir nú snúið sjer til háttv. Alþingis með beiðnir um það, að það veiti stjórninni heimild til að ábyrgjast lán fyrir fjelagið í þessu skyni. Jafnframt hefir og styrkbeiðni verið lögð fyrir þingið í sama augnamiði. Hafa till. í samræmi við þessar umleitanir verið bornar fram í háttv. Ed. Var styrkbeiðnin feld, en samþykt aftur á móti að veita ríkisstjórninni lánsheimild í þessu skyni. Nú hefi jeg tekið styrkveitinguna upp á ný, þó með þeirri breytingu, að hún er 5 þúsund kr. lægri, en komið fram með brtt. við þann lið fjárlaganna, sem fjallar um lánsheimildina. Vona jeg, að báðar þessar till. nái fram að ganga. Í fjárlögunum stendur nú þegar önnur fjárveiting, sem líkt stendur á um. Hún er til Byggingarfjelags Reykjavíkur. Eru þar veittir 5% af byggingarkostnaði, gegn því, að bæjarfjelag Reykjav. leggi fram 10%. Nú mun þykja sanngjarnt, að ríkið, sem er vinnuveitandi þessara manna, leggi fram það, sem svarar báðum þessum framlögum, en það yrði þá 15% af byggingarkostnaði fjelagsins. Það eina, sem hægt er að hafa á móti þessu, er útgjöldin úr ríkissjóði, sem er fátækur fyrir. En jeg vil biðja háttv. þingdeildarmenn að athuga það, að ef þetta fyrirtæki kemst á fót, þá yrði hjer með tímanum um allmikinn sparnað að ræða fyrir ríkissjóðinn. Því þótt hægt sje að vísa á bug uppbótarbeiðni þessara manna í ár og ef til vill næsta ár, þá kemur að því, ef kjör þeirra að öðru leyti batna ekki, að ómögulegt verður lengur að vísa henni á bug. Þykir mjer líklegt, ef alt stendur eins og nú er, að þingið verði til neytt eftir eitt eða tvö ár að hækka laun þessara manna, og það að talsverðum mun. Ef nú hins vegar væri hlaupið undir þagga með þeim á þennan hátt, þá tel jeg líklegt, að til launahækkunar þyrfti ekki að koma. Er því auðsætt, að þetta getur haft í för með sjer mikinn sparnað, er til lengdar lætur. Eitt, sem vel ber að athuga í þessu máli, er það, að þessir starfsmenn ríkisins, er hafa orðið að búa í þessum dýru húsum, hafa orðið að gjalda hærri leigu en sem svarar verði húsanna, og væri það þá ærið nóg, þar sem húsin eru nú mörg fimmfalt dýrari en þau, er bygð voru fyrir stríð. Nei, þeir verða að borga talsvert meira, og liggur það í því, að þeir, sem húsin eiga, óttast verðfall á þeim eftir nokkurn tíma, er dýrtíðin minkar, og vilja þeir því nota dýrtíðarárin til að færa niður verð húsanna. Er þetta í rauninni mjög eðlilegt, en engu að síður kemur það of hart niður á leigjendunum, því þeir verða með þessu lagi að borga ekki einasta vextina af peningum þeim, sem liggja í þessum dýru húsum, heldur talsverða fúlgu fram yfir, á ári hverju, til að lækka verð þeirra. Það er þetta, sem gerir húsaleiguna víða hjer í bænum alveg óbærilega. Nú hefir það orðið ofan á í flestum öðrum löndum, að byggingar í bæjum hafa verið styrktar af opinberu fje, því ekki hefir verið hægt að fá menn til að byggja með öðru móti. Hjer hefir þetta aftur á móti ekki verið gert nema að mjög litlu leyti. Aðeins eitt fjelag hefir verið styrkt. Er þetta þó mjög eðlilegt, að það opinbera hlaupi hjer undir bagga. Tel jeg þessa aðferð, sem hjer hefir verið rætt um, bæði fjárhagslega forsvaranlega og sjálfsagða, og vonast jeg til, að háttv. deild fallist á að veita þessu fyrirtæki þennan stuðning og samþykki þessa brtt. mína.

Um hina brtt. mína skal jeg geta þess, að jeg get vel felt mig við, ef svo vill verkast, að fella það orðalag niður, sem þar er, og hafa greinina orðaða samkvæmt till. háttv. fjvn.

Skal jeg svo ekki orðlengja þetta frekar.