07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

1. mál, fjárlög 1924

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg hefi ekki ástæðu til þess að vera langorður, því að fáir hv. deildarmanna hafa ráðist verulega á gerðir fjvn. Háttv. 2. þm. N.-M. (BH) þótti nefndinni mislagðar hendur, þar eð hún hefði fært niður bókakaupastyrk til Þjóðvinafjelagsins. Skil jeg ekki þessa árás hv. þm., því að hún fer í beinan bága við það, sem hann hefir áður sagt og gert, enda síst hægt að lá nefndinni, þótt hún vilji færa styrkinn til sama vegar og hv. deild hefir áður sýnt, að hún vildi hafa hann. Hæstv. atvrh. (KIJ) sagðist hafa misskilið mig út af styrknum til Þorvalds Árnasonar, en jeg sagði ekki eitt orð um framhaldsveitingu á þessum styrk, enda minnist jeg þess ekki, að fjvn, hafi gert neitt í því skyni.

Háttv. 1. þm. Eyf, (StSt) lýsti átakanlega þörfinni á því, að sjúkrahús yrði bygt á Siglufirði, og fer fjarri því, að fjvn. vilji vefengja, að mikil og brýn nauðsyn sje þar til slíkrar byggingar, en hún fær ekki sjeð, að nokkur leið sje til þess að veita meira fje á þessu ári til sjúkrahúsbygginga, og treystir sjer því ekki til þess að mæla með því. Áður hefir verið til meðferðar hjer í þinginu fjárveiting til sjúkrahúsbyggingar á Ísafirði, og var þá það loforð gefið, að sjúkrahúsið þar skyldi verða það næsta, sem bygt yrði, og nú ætla jeg ekki, að hv. þm. segi, að hann verði að fá sjúkrahús fyrir Siglufjörð, af því sjerstaklega, að Ísafjörður á nú að fá það.

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) byrjaði á að lýsa því yfir, að sjer væri ekki ljós stefna fjvn., en mjer finst þó enginn hafa lýst henni betur en hann, þar sem hann rakti, hvað nefndin hefði lagt til verklegra fyrirtækja og framkvæmda, þó honum þættu sumar varhugaverðar. Hitt virtist mjer aftur á móti koma berlega í ljós, að hv. þm. hafi breytt stefnu sinni í fjármálum frá þeirri, sem hann hefir áður haft. Fyr álasaði hann nefndinni fyrir eyðslu, en nú fær hún ákúrur fyrir sparnað. Er það mjög nýstárlegt úr þeirri átt, og varla hægt að taka það alvarlega. Líklegast er, að hv. þm. hafi verið orðinn of syfjaður. Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) taldi, að fjvn. mundi lítið þykja til alls þess koma, sem lýtur að alþýðufræðslu, en þó hefir nefndin lagt til, að samþykt yrði stór upphæð til þess að reist yrði alþýðuskólahús í Þingeyjarsýslu, en hitt er satt, að nefndin hefir verið á móti því, að veitt væri fje til þess að bygð yrðu barnaskólahús utan kaupstaða, en þá stefnu getum við hjer látið liggja milli hluta. Hv. þm. hallmælti nefndinni fyrir að hafa lækkað styrkinn til Þjóðvinafjelagsins, og er það einkennilegt, þar eð nefndin vildi einmitt færa hann í sama horf og áður hefir verið, og þó einkanlega vegna þess, að það er samkvæmt einróma áliti mentamálanefndar, að fjvn. ber fram þessa upphæð. Það er auk þess meira en lítið að bæta við 5000 kr. til þess að gefa út þessi rit, eins og fjvn. hefir gert.

Hv. þm. V.-Sk. (LH) svaraði stóryrðum hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) út af skinnasútunarfyrirtæki Sláturfjelags Suðurlands. Tel jeg hann taka sjer of stór orð í munn, að kalla það glæfrafyrirtæki, en ef það er glæfrafyrirtæki að bæta atvinnuvegi landsins og færa þá í betra horf, þá veit jeg ekki. hvað eru góð fyrirtæki.

Tel jeg þetta stafa af því, að þetta fyrsta sútunarhús verður ekki reist á Austfjörðum, heldur á Suðurlandi.

Þá talaði hann um laxastigann, sem hlutaðeigendur leggja til, að gerður verði. Álít jeg því fremur vera ástæðu til að styrkja þá, þar eð landssjóður á jörðina, sem mestan hag mundi hafa af því, að Eyrarfoss yrði gerður laxgengur.

Þá var auðheyrt, að hv. þm. skildi ekki till. um að heimila landsstjórninni að veita lán til þess að endurreisa eyðibýlið Svínadalssel í Saurbæjarhreppi. Styrkur til þess að byggja eyðibýli er ávalt veittur í því skyni að gera bændum, sem við fjölfarna og hættulega fjallvegi búa, mögulegt að halda þar uppi griðastöðum fyrir ferðamenn, og þær ástæður eru einmitt hjer fyrir hendi. Móti slíku nauðsynjamáli skyldi enginn maður mæla.

Hv. 4. þm. Reykv. (MJ) fann að því, að nefndin hefði nafnbundið styrkinn til augnlækninganáms, en taldi rjettara, að slíkur styrkur væri ónafnbundinn þangað til einhver hefði bundið sig. En þessi læknir (Guðmundur Guðfinnsson) varð einmitt fyrstur til þess að binda sig við þetta framhaldsnám, og hefir þegar ráðið annan mann til hjeraðsins, en eins og hv. þm. er kunnugt, er þannig lagaður styrkur venjulega nafnbundinn, þegar hann er veittur í eitt skifti.

Þarf jeg svo ekki að tefja tímann frekar, en vænti þess, fyrir hönd fjvn., að brtt. gangi vel fram.