09.05.1923
Efri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

1. mál, fjárlög 1924

Frsm. (Einar Árnason):

Jeg þarf lítið að segja um þetta mál eins og stendur. Frv. er nú komið hingað í annað sinn, eftir að hafa tekið allmiklum breytingum í háttv. Nd., frá því það fór hjeðan.

Fjárveitinganefndin var fyrst í nokkrum vafa um, hvort hún ætti að leggja það til, að frv. yrði samþykt óbreytt í þessari deild, en eftir nánari íhugun hinna einstöku liða, þá ákvað nefndin þó að leggja fram nokkrar brtt., sem leiða auðvitað til þess, ef háttv. deild samþykkir þær, að fjárlögin verða að koma fyrir sameinað þing. Nefndinni fanst hún ekki geta unað við það, hve lítið tillit háttv. Nd. hafði tekið til breytinga Ed. á fjárlögunum. Því leggur hún þessar tillögur fyrir hv. deild og samþykki þeirra á hennar vald. En þar sem allar þessar brtt. eru gamlir kunningjar deildarinnar, sje jeg ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þær.