11.05.1923
Sameinað þing: 5. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

1. mál, fjárlög 1924

Jakob Möller:

Jeg á hjer eina brtt. Er jeg sá eini þingmanna. utan nefndanna, sem hefi orðið sekur um slíkt. Er sú till. kunnug háttv. þm., því hún hefir einnig farið í milli deilda. Er svo ástatt um þessa till , að það er hægt svo að segja með tölum að sýna, að hún hefir fylgi meiri hl. háttv. þm., því hún hefir verið samþykt í háttv. Nd. tvisvar sinnum, en till. í háttv. Ed. um að lækka upphæðina hefir verið feld, þó að nú sje svo komið, að háttv. fjvn. Ed. hafi með harðfylgi tekist að fá hana lækkaða. Er það af ástæðum, sem mjer eru eigi kunnar. Heyrt hefi jeg því fleygt til andmæla gegn till. þessari, að hún taki símamenn eina út úr flokki starfsmanna landsins um bætt kjör. En það þarf ekki að saka okkur þm. Reykjavíkur um það, því við höfum gert okkar til að bætt yrðu líka kjör annara starfsmanna landsins. En við lítum svo á, að þó að ekki yrðu bætt kjör allra starfsmanna landsins, þá bæri þó að bæta kjör þeirra, er lægst væru launaðir. Og fjárveitinganefndirnar, eða meiri hluti þeirra, hafa einnig verið því fylgjandi. Býst jeg við, að meiri hl. háttv. nefnda haldi fast við þá skoðun. Og það hefir eigi komið fram nein rödd um það að neita þessum starfsmannaflokki algerlega um bætt kjör, en það hefir verið klipið af upphæð brtt. og gengið skemra en jeg hefi getað sætt mig við. Það er vitað, að starf kvenna við bæjarsímann í Reykjavík er engu umsvifaminna en við landssímann, og ættu því launakjörin að vera jöfn. Af upphæðinni telst mjer, að um 12–14 þús. kr. gangi til þess að jafna kjörin, þar við bætast 1600 kr., er háttv. Ed. setti inn til að bæta kjör eins starfsmanns símans, og það, sem eftir er, fer til þess að bæta kjör annara starfsmanna símans, er verst verða úti í þessu efni. Jeg skal víkja aftur að því, að ef háttv. þm. bera saman launaflokkana samkvæmt launalögunum, þá munu þeir sjá, að þessi flokkur hefir langlægst laun. Hefir það komið til mála og haft töluvert fylgi í þinginu að bæta öðrum starfsmönnum landsins upp laun þeirra á annan hátt, og er þetta alveg í sama anda. Jeg sje því eigi, að háttv. þm. geti verið till. þessari andvígir.