10.03.1923
Neðri deild: 17. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1165 í B-deild Alþingistíðinda. (873)

54. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Flm. (Jakob Möller):

Hv. deild mun eflaust kannast fljótlega við þetta frv., því það er í sama búningi og það var í í fyrra, er það þá var borið fram hjer í deildinni og komst þá ekki lengra en til nefndar. Bæjarstjórn Reykjavíkur telur nauðsynlegt, að jarðir þessar verði lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, en samkomulag um þetta hefir enn eigi náðst við viðkomandi sveitarstjórnir.

Um nauðsyn þá, sem hjer er um að ræða, getur auðvitað verið álitamál, og ef í það færi, gæti Alþingi samþykt lög um þetta án þess að leitað yrði samkomulags við hreppana, en það er alls ekki tilgangur vor, flutningsmanna þessa frv., að fara fram á það; málið er ekki nógu undirbúið til þess enn. Væntanleg nefnd, sem fengi frv. til meðferðar, yrði þá eflaust að bæta inn í frv. ákvæðum um, með hvaða skilyrðum þessar jarðir yrðu lagðar undir Reykjavíkurbæ, og leggja til um, að viðkomandi hreppum yrði úrskurðaðar bætur fyrir, eða eitthvað því um líkt.

Fjölyrði jeg svo ekki um þetta meir á þessu stigi málsins, en vænti, að háttv. deild taki frv. vel og samþykki, að það gangi til 2. umr., og jeg geri það að tillögu minni, að því verði vísað til allsherjarnefndar.