10.03.1923
Neðri deild: 17. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í B-deild Alþingistíðinda. (874)

54. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Einar Þorgilsson:

Eins og tekið er fram í greinargerð frv. og háttv. flm. (JakM) hefir einnig tekið hjer fram, lá frv. þetta hjer fyrir deildinni í fyrra og lognaðist þá út af í nefnd, eins og ófullkominn eða ótímabær burður. Jeg hefi kynt mjer þetta mál á ný allrækilega og hjá hreppsnefndaroddvita Mosfellshrepps hefi jeg fengið að vita, að í Mosfellshreppi hafa verið samþykt eindregin mótmæli gegn sameiningu nefndra jarða í þeim hreppi við lögsagnarumdæmi Reykjavíkur að svo stöddu máli. Enn fremur hefi jeg fengið upplýst, að ekki hefir heldur verið leitað álits viðkomandi sýslufjelags um þetta mál, og mótmæli jeg því frv. þessu, að það nái fram að ganga, enda þótt jeg ekki vilji meina því að fara til 2. umræðu. Eru alls ekki veigameiri ástæður bornar fram frv. þessu til stuðnings en þær, sem á móti eru. Þó að því sje haldið mjög fram, að Reykjavíkurbær eigi þessar jarðir nú og hafi þeirra þörf, vegna þess, að þar hafa verið reist ýms mannvirki, t. d. bygðar rafstöðvar, lögð vatnsveita um lönd þessara jarða, eða að Reykjavíkurbær hafi orðið fyrir einhverjum kvöðum, t. d. útsvari eða einhverju þess háttar, eru það alls eigi nægar ástæður til, að frv. þetta verði samþykt og gert að lögum, jafnilla undirbúið sem það er enn, og mótmæli jeg því í fullu umboði frá viðkomandi hreppum og sýslufjelagi.