22.02.1923
Neðri deild: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1175 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

8. mál, einkaleyfi

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Þetta frv. er enginn nýr gestur hjer í deildinni. Það er nú í fjórða skifti, sem það er á ferðinni. Seinast í fyrra var það lagt fyrir háttv. Ed. og afgreitt þaðan með ýmsum breytingum, sem horfðu til bóta. En svo sofnaði það í Nd., enda gerði jeg mjer ekkert far um að koma því fram.

Samt sem áður hefi jeg fundið ástæðu til að koma fram með frv. enn einu sinni, aðallega vegna þess að engin lagaheimild er til hjer á landi, sem veiti mönnum einkaleyfi á uppgötvunum sínum, eða vernd. Er það mjög bagalegt og má helst ekki svo vera lengur. Erlendis eru sjerstakar skrifstofur, sem annast umsóknir um leyfi viðvíkjandi uppgötvununum; hafa það sem atvinnu. Þær hvetja því alla uppfundningamenn til að sækja um einkaleyfi, en þær hafa margsinnis tekið það fram, að menn hafi hætt við að sækja, er þeir höfðu heyrt, að engin lög væru hjer til, sem veittu þá vernd, sem með þurfti. Setning þessara laga yrði því ekki aðeins til hagræðis fyrir uppfundningamenn, og ef til vill þá um leið fyrir atvinnuvegi landsins, heldur yrði það og til að auka tekjur ríkissjóðs. Slík leyfi eru æðidýr; gjaldið er nú 34 kr. 4 + 50 kr. í stimpilgjald. Gjaldið má ekki vera hátt fyrst, því raunar er það ekki í fjárgróðaskyni, þótt sótt sje um leyfi, heldur til að geta sagt, að einkaleyfi fyrir hlutinn sje veitt alstaðar, en þegar leyfi er endurnýjað 5. eða 10. hvert ár, er ástæða til að hafa gjaldið hærra, sbr. 7. gr. frv.

Um grundvöllinn undir þessu frv. vísast til athugasemdanna við frv. í fyrra, en erlendis fylgja menn aðallega tveim reglum í þessu efni. Önnur er sú, að einkaleyfið er ekki veitt fyr en búið er að rannsaka, hvort um nýja uppgötvun sje að ræða, og alt annað þar að lútandi. Er sjerstök nefnd manna þar til kjörin, og fær leyfisbeiðandi engan úrskurð fyr en hún hefir látið uppi álit sitt. Þannig er þetta á Norðurlöndum, Englandi. Þýskalandi og Ameríku. Á Frakklandi aftur á móti fer engin slík rannsókn fram á undan, heldur er leyfið veitt, og hver einstaklingur verður sjálfur að reka þar rjettar síns, ef hann á þann hátt er borinn fyrir borð.

Í þessu frv. er hvorug leiðin farin. Hjerlendri rannsókn er slept og það talið nóg, ef sannað er, að slíkt einkaleyfi, er um ræðir, hefir áður verið veitt í landi, þar sem rannsókn fór fram. Í þeim fáu tilfellum, sem þetta væri ekki nægilegt, þá væru það innlendir menn, sem hlut ættu að máli, og verður að telja það nægilegt að auglýsa og gefa á þann hátt til kynna, hvernig uppgötvuninni er varið. Kæmu svo samt sem áður einhver vafaatriði til greina, þá hefir danska rannsóknarnefndin í Kaupmannahöfn tjáð sig fúsa til að taka þær rannsóknir að sjer fyrir sáralítið verð, eins og hún hefir gert að undanförnu. Er það óneitanlega mikið hagræði, því það er engu síður nauðsynlegt fyrir Íslendinga en aðrar þjóðir að vita með vissu, hvenær þeir hafa gert uppgötvanir og hve nær ekki. Það er ekki nægilegt að gera bara uppgötvun. Menn verða að sanna hana og fá þá sönnun viðurkenda.

Af því að heyrst hafa raddir um það, að nauðsynlegt sje að setja hjer á stofn sjerstaka rannsóknarstofu, þá skal jeg geta þess, að slík skrifstofa hlyti að verða afardýr. Eins og liggur í augum uppi, þá er það óhemjumikið starf, í hvert sinn sem leyfisbeiðni kemur fram, að rannsaka, hvort ekki sje eins eða svipuð uppgötvun og leyfi komið fram einhversstaðar úti í heimi. Þarf auk þess sjerfróða fagmenn til þess starfa, og myndi sá kostnaður allur verða oss Íslendingum langtum of hár. En hún er óþörf, og nægileg trygging fyrir alla hlutaðeigendur, ef þetta frv. nær fram að ganga.

Því fyrir utan þá vernd, sem það veitir, þá losnar stjórnin við í hvert sinn sem menn vilja fá leyfisframlengingu, að skrifa til konungs, með miklum og löngum skrifum og tillögum. Og ýmsum óþægindum af svipuðu tægi er með þeim kipt í burt.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta meira, en læt mjer nægja að vísa til aths. við þetta frv. á þinginu í fyrra og ræðu atvinnumálaráðherra þá.

Að svo mæltu leyfi jeg mjer að leggja til, að málinu verði, að lokinni umr., vísað til allshn.