22.03.1923
Neðri deild: 26. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1209 í B-deild Alþingistíðinda. (983)

26. mál, skiptimynt

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Jeg geri ráð fyrir því, að frv. þetta þurfi ekki að valda miklum umræðum. Bráðabirgðalögin um þetta efni komu fram eftir ráðstöfun síðasta Alþingis og af þeirri brýnu nauðsyn, sem fyrir hendi var. Jeg geri þess vegna ráð fyrir því, að málið gangi nú óhindrað í gegnum deildina, og er þarflaust að eyða fleiri orðum að því. En jeg vil þó nota tækifærið til að geta þess, að mjer og mörgum öðrum þótti framkvæmd þessara laga óþarflega seinfær, því það tók um 6 mánuði að koma þessu í kring, og var það bagalegt mjög, því sannkallað vandræðaástand ríkti þá í landinu í þessum efnum. Er því vonandi, að hæstv. stjórn hafi vakandi auga á því, að slíkt komi ekki fyrir aftur.